YFIR STRIKIÐ

Ég fór yfir strikið í gær.  Ég hamraði niður eitthvað gremju-blogg sem segja má að hafi farið yfir
strikið.  Mér þykir það leiðinlegt, enda vill ég ekki vera gaur eins og Páll Vilhjálmsson eða Hannes Hólmsteinn eða hvað þeir nú heita tapparnir sem hafa tapað sér.

Ég vil ekki tapa mér og ég vil ekki týna mér.

Það er bara svo erfitt að horfa upp á ruglið á Íslandi án þess að reiðast.  Sumt er svo „banal“ að mann setur hjóðan.  Landsdóms atkvæðagreiðslan toppar sennilega ruglið og verður vonandi aldrei jafnað meðan ég tóri.

Ég held að núna þarf Ísland nýjar lausnir og nýja hugsun.  Gamla ruglið er búið að sanna sig.  Það sér það hver heilvita manneskja að núverandi lausna-kerfi er ónýtt.  Allt er miðað við að fjármagnseigendur geti ekki tapað fé.  Það er að mér virðist alger sátt um það.

Það er afskrifaðar þúsundir miljóna og þær miljónir, lesendur góðir, greiða almennig skuldarar/ venjulegir Íslendingar  í formi gjafavíxla sem færðir voru bönkunum á silfurfati.

Munum að „nýju“ bankarnir keyptu öll lán „gömlu“ bankanna á ofur-afslætti.  20 miljón króna húsnæðislán var selt á 2 milljónir.  Samt gefa „nýju“ bankarnir ekki eftir krónu.  Enda þarf að afskrifa svo mikið hjá pappírsfyrirtækjum hverskonar.

Almennir skuldarar eru í rauninni að standa undir afskriftunum.

Ég held lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur sé ferlega sniðugt og réttlátt.  Það gefur líka fólki tækifæri á nýju lífi og svo ekki sé talað um réttlætið sem fólgið er í því að bankarnir þurfi að axla ábyrgð í einhverju sem þeir gera.

Bankarnir hafa verið með belti og axlabönd í öllu því sem kemur að almenningi,  Þeir hafa aldrei tekið neina áhættu þegar kemur að lánum til fólks.  Þessu þarf að snúa við.  Ef að lyklafrumvarpið verður samþykkt, myndi það virka sem vítamínsprauta á allt fjármálakerfið.  Leigumarkaður gæti glæðst og fjármunir losna til þess að greiða upp smáskuldir.  Bankarnir myndu að vísu sitja uppi með of-veðsettar eignir, en almenningi gæfist færi á nýju upphafi.

… Sem er einmitt það sem Ísland þarf.

-o-o-o-o-

Svo vil ég barasta biðja nokkra í Samfylkingunni afsökunar á hvassyrðum minum frá því í gær.  Svona glæringar eru ekki til þess að auka vegsemd mína né æru.

Site Footer