VÖRN GUNNLAUGS M. SIGMUNDSSONAR

Eftir allan hasarinn dagana eftir grein Agnesar um Kögunarmálið, birtist skyndilega heilsíðuviðtal við Gunnlaug M. Sigmundsson (þá þingmann og forstjóra Kögunar) í Mogganum þann 16. maí 1998.  Fyrirsögn viðtalsins er „Samkvæmt bestu samvisku“.  Þetta þykir mér spéleg fyrirsögn því að afar auðvelt er að framkvæma hin verstu afglöp „samkvæmt bestu samvisku“ eins og dæmin sanna.

Viðtalið slær mig reyndar ekki eins og hefðbundið viðtal, heldur eins og greinargerð.  Mig grunar að þetta efni sé unnið eftir uppáskrifaðri samantekt Gunnlaugs og það svo blandað saman við hefðbundið viðtal.  Óumdeilt er að þetta viðtal er s.k „drottningarviðtal“ og það sætir furðu að blaðamaðurinn sem vissi allt um málið, Agnes Bragadóttir, er ekki látin taka það.

Viðtalið má sjá hér1 og hér2.

Það fyrsta sem ég staldra við í vörn Gunnlaugs er svarið við hvort hann hafi leynt upplýsingum fyrir nýju stjórninni.  Svar Gunnlaugs er eftirfarandi:

Tvær spurningar vakna við þetta svar Gunnlaugs.  Í fyrsta lagi þá gerir Gunnlaugur ráð fyrir að nýja stjórnin viti allt sem áður hefur verið ritað og rætt af gömlu stjórninni.  Nokkuð sem nýja stjórnin afgreiddi með þessum orðum , í yfirlýsingu í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður.  Nánar er greint frá þessari fordæmalausu yfirlýsingu hér og hérna er yfirlýsingin í heild sinni.  Það er alveg kristalskýrt að nýja stjórnin vissi ekki af þessari yfirlýsingu.  Þeir fundu hana eftir að málið fór af stað.  -Grófu hana upp í fundargerðarbókum félagsins.

Í öðru lagi má segja að hafi Gunnlaugur rétt fyrir sér, og að öll stjórnin hafi vitað af þessari yfirlýsingu, þá skánar staða Gunnlaugs ekkert við það.  Það eru alveg jafn mikil „svik“ að þegar allir taka þátt í því að hunsa þessa yfirlýsingu eða þegar Gunnlaugur leynir félaga sína í stjórninni um tilvist þessarar yfirlýsingar.

Ég skil ekki almennilega vörnina sem fólgin er í þessu svari Gunnlaugs.  Það er eins og vörnin sé þessi: „Jú þetta var rangt.  Ég veit það vel, en hinir vissu það líka“.

Höfum í huga að þessi yfirlýsing greinir frá því skýrt og skilmerkilega að enginn megi eiga meira en 5% í félaginu. Gunnlaugur og fjölskyldan hans (faðir, tengdafaðir, eiginkona og tveir synir, þ.m.t Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins) áttu þá 9% í félaginu og jókst sá hlutur í 27% eftir innlausn hlutabréfa Þróunarfélagsins.

Hvort sem þessari yfirlýsingu er stungið undir stól af Gunnlaugi, eða hún hunsuð að allri stjórninni, breytir það ekki alvarleika málsins.  Eftir viðskiptafléttur og snúninga Gunnlaugs þar sem hann er sannarlega beggja vegna borðsins stendur hann (og fjölskylda hans) uppi sem 27% hlutafjár í félaginu.  Þar að auki er hlutur „eftirlaunasjóðs starfsmanna Kögunar“ með 30% áhrifalausan hlut sem færir Gunnlaugi öll völd í félaginu.

Vörn Gunnlaugs heldur áfram:

Hérna vitnar Gunnlaugur í þá alkunnu staðreynd að bréf þróunarfélagsins voru seld Kögun á genginu 4.  Þetta er ekkert nýtt og kemur málinu ekkert við.  Þetta er ekki einu sinni vörn í málinu.  Hann gæti þess vegna veifað kvittun úr Tösku og hanskabúðinni eins og þessum augljósu sannindum.  Enn stend ég á gati varðandi vörn Gunnlaugs í þessu máli.  Þetta var einmitt ástæðan fyrir því að allt fór í loft upp.  Nýja stjórnin var búin að gera þennan samning og sá eftir því og taldi sig blekkta þegar ljóst var að Gunnlaugur hafði allt í einu eignast 27% hlut í Kögun.   -Þetta var EKKI það sem lagt var af stað með í upphafi.

Áfram heldur vörnin:

Akkúrat. Þarna er kerfið að virka.  5% reglan er brotin og Utanríkisráðuneytin er gert viðvart.  Í kjölfarið var skrifað minnisblað sem átti eftir að sprengja máið endanlega í loft upp þremur og hálfu ár seinna.

Ég skil ekki vörnina sem felst í þessum orðum.  Ekkert nýtt varpar ljósi á þá staðreynd að eftir viðskiptasnúninga á hlutabréf Þróunarfélagsins í Kögun, stendur Gunnlaugur uppi sem 27% eigandi í félaginu og að auki er komin 30% hlutur í eigu 12 starfsmanna kögunar í formi einhvers „eftirlaunasjóðs“.  Áhrifalaus hlutur sem gefur Gunnlaugi öll völd í félaginu.

Það sem vekur athygli er að með því að veita 2 aðilum samtals 57% hlut í Kögun (eftirlaunasjóðurinn 30% og Gunnlaugur M. Sigmundsson 27%) er verið að brjóta yfirlýsinguna sem Gunnlaugur stakk undir stól.  Yfirlýsingin kvað nefnilega á um að hver og einn mætti ekki eiga meira en 5% en Samningur Utanríkismálaráðuneytisins og Kögunar  kvað um að einungis yrði látið vita ef einhver eignaðist meira en 5%.

-o-o-o-

Viðtalið heldur áfram og undir millifyrirsögninni „Trygging vegna hugsanlegrar yfirtöku“  Gunnlaugur fjallar um að á döfinni sé að selja bréf þróunarfélagsins aftur, og dreifa eignaraðildinni eins og stefnt var að. Það sem er athyglisvert er þessi orð Gunnlaugs M. Sigmundssonar.

Takið eftir orðunum „yfirtöku eins eða fárra aðila“.

En hvað gerðist?  Tveir aðilar, stóðu uppi sem eigendur.  Áhrifalaus eftirlaunasjóður með 30% hlut og svo Gunnlaugur og fjölskylda með 27%.   Afsökunin um að þessi viðskiptaflétta hafi verið gerð til þess að forða „yfirtöku eins eða fárra aðila“ heldur ekki.  Eftir fléttuna stóðu 2 aðilar uppi sem eigendur 57% hlutafjár í Kögun.

Það sem gerðist við fléttuna var einmitt, að fáir aðilar stóðu uppi sem eigendur í Kögun.  Gunnlaugur M. Sigmundsson og eftirlaunasjóður Kögnar.  Þetta gerðist og alveg sama hvað Gunnlaugur segir of að tryggja þurfi dreifingu, þá breytir það ekki staðreyndum málsins.  -Þetta voru orðin tóm.

Þarna kemur einnig fram að Kögun þurfi að standast próf frá Bandaríkjamönnum til að fá að sjá um viðhald og verkefni fyrir herinn.  Gunnlaugur tiltekur þetta nokkuð oft í greininni og greinilegt að þetta próf er þýðingarmikið.  Gunnlaugur tiltekur oft að hlutabréfaverðið í Kögun hafi ekki tekið kipp fyrr en Kögun hafi staðist prófið.

Samkvæmt mínum heimildum er mikið gert úr mikilvægi þessa prófs.  Þetta próf var meira táknrænt en hitt.  Stofnum Kögunar er fyrst og fremst pólitísk aðgerð sem miðaði að því að Íslendingar tæku að sér einhver verkefni fyrir NATO.  Ekkert próf á seinni stigum málsins breytti því að nokkru leyti.  Þess ber að geta að við stofnun Kögunar 1988 fóru 20 hámenntaðir Íslendingar til starfa hjá Huges Aircraft í Kaliforníu og útilokað að þetta allt væri lagt undir eitthvað próf nokkrum árum síðar.  Þetta hæfnispróf var  samkvæmt mínum heimildum fyrst og fremst táknrænt.

-o-o-o-

Næsta millifyrisögn er „Forstjóri Framkvæmdastofnunar„.  Þar er lítið sem viðkemur Kögunarmálinu og stiklað á stóru í embættismannaferli Gunnlaugs M. Sigmundssonar og ferli innan Framsóknarflokksins. Hann segir ennfremur að hann þekki Steingrím Hermannson lítið.

-o-o-o-

Millifyrirsögn „Framkvæmdastóri Þróunarfélagsins“ er næst og þar er einnig lítið að finna sem varðar Kögun.  Hæfileikum Gunnlaugs sem stjórnanda sem er allt í senn metnaðargjarn og samvinnuþýður. er  þarna gefið ákveðið rými.  Honum er hrósað af einhverjum bankastjóra fyrir að halda í horfinu, en ekki „tapa öllu saman“ eins og Gunnlaugur segir að hafi gerst í Danmörku og Noregi.

-o-o-o-

Nú fara leikar að æsast því undir millifyrirsögninni „Árekstrar við nýja stjórn“ kemur aðeins Kögun við sögu.  Gunnlaugur segir frá því að nýja stjórnin hafi sýnt sér ákveðið tómælti og hann hafi skynjað neikvæðni frá þeim.  Þarna greinir Gunnlaugur líka frá því að eiginkona hans Sigríður G. Sigurjónsdóttir, hafi verið einn starfsmanna Þróunarfélagsins (hann réð hana) en fyrst um sinn vann hún kauplaust!

Hann tiltekur einnig menntun hennar og námskeið sem hún hefur tekið.  Þegar Þróunarfélagð komst á koppinn og fjármálastjóri fengin, var Sigríður G. Sigurjónsdóttir, ráðin til Kögunar (af eiginmanni sínum.  -Aftur)

Þess má geta að Sigríður G. Sigurjónsdóttir átti á tímabili 14% í kögun meðan Gunnlaugur átti 13%.  Eiginkona forstjórans, átti s.s. stærsta hlut einstaklings í félaginu.

-o-o-o-

Nú víkur sögunin að „Stofnun Kögunar“ sem er næsta undirfyrirsögn.  Gunnlaugur segir að hugmyndin um að gera samning við Bandaríkin um rekstur ratsjárskerfis fyrir Ísland hafi eiginlega verið sín hugmynd.

Ég kaupi þetta ekki.   Stofnun Kögunar var pólitísk aðgerð, sennilega tekin í utanríkisráðuneytinu einhvern tímann í fyrstu ríkisstjórn Steingríms Hermannsonar.  En áfram með smjörið.  Gunnlaugur blandar Norðmönnum inn í dæmið og segir þá hafa ásælst verkefnið en Gunnlaugur sagt þvert nei.  „‘Við Íslendingar munum ráða við þetta verk“ eins og segir orðrétt.  Þarna segir frá einkaleyfissamningum við
Bandaríkin en allt í einu talar Gunnlaugur um að 5% hindrunin hefði verið til þess að tryggja að óæskilegir útlendingar gætu ekki keypt sér ráðandi hlut í félaginu!

Þetta kemur hvergi fram í samningum.

Það sem átt er við í þessari klausu er að tryggja dreifða eigaraðild. Það er andinn sem er í öllu saman og upphaflega markmiðið.  Gríðarleg áhersla var lögð á það í byrjun að þetta fyriræki, yrði ekki eins og
Íslenskir Aðalverktakar sem einnig „lifðu“ á Bandaríska hernum.   Markmiðið var að minnsta kosti ekki að Gunnlaugur M. Sigmundsson og kona hans myndu eignast 27% í félaginu og þar að auki færi áhrifalaus eftirlaunasjóður með 30% hlutafjár.  Leiðari Moggans tæklar þetta glettilega vel.

-o-o-o-

Næsta millifyrirsögn er „Kaupir hlutabréf í Kögun„.  Ekkert sérstaklega markvert kemur þarna fram.  Gunnlaugur ítrekar að hann hafi ekki keypt bréf Þróunarfélagsins í Kögun, en það er staðreynd sem er reyndar kunn.  Það sem Gunnlaugur talar ekki um er að hann, með viðskiptafléttu og með því að blekkja stjórn Þróunarfélagsins, lætur hann Kögun leysa til sín bréf Þróunarfélagsins með þeim afleiðingum að í stað þess að hann og kona hans eigi 9% hlut, stendur hann uppi með 27% hlut auk þess að eftirlaunasjóður starfsmanna fer með 30% áhrifalausan hlut í félaginu.  Þetta er kannski það sem fólk áttar sig ekki á.  Gunnlaugur keypti aldrei bréf þróunarfélagsins. Hann lagði þau niður og jók sinn hlut og annarra um það sem nam hlut Þróunarfélagsins.

Gunnlaugur greinir þarna frá því að núna er eiginkonan hans komin til Kögunar og að hún sýnir trúmennsku í meðferð fjármuna og hafi verið „burðarásinn“ í öllu því sem laut að starfsmönnum Kögunar í Kalíforníu.  Nokkuð sem telja má hæpna fullyrðingu ef marka má lesendabréf til Morgunblaðsins.

-o-o-o-

Millifyrirsögin „Vildi sanna mig“ er næst og þar segir frá því að Gunnlaugur kemst að því að ákveðnir aðilar tengdir Íslenskum aðalverktökum, reyndu að komast yfir Kögun.  Það sætir furðu að Gunnlaugur hafi ekki minnst á yfirlýsingu þar sem kveðið er algerlega skýrt á um það að enginn megi eiga meira en 5% í Kögun. Þetta er yfirlýsingin sem Gunnlaugur er sagður hafa stungið undir stól.  Þessi yfirlýsing hefði alveg getað stoppað allar hugmyndir Íslenskra aðalverktaka um að eignast stóran hlut í Kögun.  Kannski minntist Gunnlaugur ekki á þessa yfirlýsingu vegna þess að hann átti sjálfur um 9% í félaginu.  4 prósentustigum  meira en leyfilegt var!

-o-o-o-

Næsta millifyrirsögn heitir „300% ávöxtun„.  Þar segir frá því hvað díllinn þegar Kögun keypti hlut Þróunarfélagsins var góður.  Í raun er má segja að þetta sé rétt því hlutabréfin hækkuðu frá því að vera 1 og yfir í það að vera 4 á þessum þremur árum.  Þetta er rétt. Hinsvegar tekur Gunnlaugur ekki fram að frá því að díllinn var gerður og til ársins 1998 höfðu þessi bréf 56 faldast í verði! Það var einmitt þessi rosalega hækkun sem var helsti punktur Moggans og undirlagið um grunsemdir að Gunnlaugur hafi vitað af duldu verðmæti í félagnu.

-o-o-o-

Næsta millifyrirsögnin er „Hættir hjá Þróunarfélaginu“ og fjallar um starfslok Gunnlaugs hjá Þróunarfélaginu.  Frásögn hans er í stórum dráttum ólík þeirri sem stjórnin heldur fram.  Um þetta er fjallað í þessu bloggi.

-o-o-o-

Næsta millifyrirsögn er „Eftirlaunasjóðurinn„.  Þar er ekkert nýtt að finna.  Eftirlaunasjóður starfsmanna Kögunar er einsdæmi í lífeyrismálum Íslendinga.  Eftir því sem ég best veit, þá er þessi sjóður fordæmalaus.  Ég set einnig spurningar við það hvaða réttæti það sé, að stærsti hlutur ríkisins í fyrirtækinu Kögun, sé seldur 12 starfsmönnum sama fyrirtækis á algeru undirverði.  Viðskiptafræðingur sem ég þekki lýsti þessum gerningi sem „ruddalegum„.  Ég held að það sé góð lýsing.  Gunnlaugur segir ennfremur að þessi 30% hlutur eftirlaunasjóðsins, sé „undanþegin atkvæðisrétti„, en hans hlutabréfaeign sé það ekki.  Það sem er merkilegt í þessu samhengi eru orð Gunnlaugs um hversvegna hann keypti þessi hlutabréf.

Það sem er merkilegt að Gunnlaugur var nýbúin að segja að hann ætlaði alltaf að vinna hjá Þróunarfélaginu.  Ekki Kögun (sjá  „300% ávöxtun“)  Samkvæmt ferilskrá Gunnlaugs sem finna má t.d á Alþingisvefnum, er ekki að sjá að Gunnlaugur hafi „lent í ýmsu“ á vetvangi atvinnumissis eða þvíumlíkt.  Ferill hans virðist vera tiltölulega sléttur og felldur.

Úr „300% ávöxtun“.

Hvað var Gunnlaugur að safna hlutabréfum í Kögun vegna atvinnuöryggis, þegar hann ætlaði alltaf að vinna hjá Þróunarfélaginu?  Málið verður ennþá snúnara þegar hann segir að sér hafi verið boðin vinna hjá Kögun.

Gera má ráð fyrir því að 27% eignahlutur í Kögun hafi spilað eitthvað hlutverk í þeim glettnisleik örlaganna að skyndilega og öllum að óvörum, varð Gunnlaugur M. Sigmundsson forstjóri Kögunar

-o-o-o-

Síðasta millifyrirsögin var „Framboðsmál“.  Þar greinir Gunnlaugur frá því hvernig hann varð þingmaður og að tvö má hafi orðið honum „þung í skauti“.   Kögunarmálið og mál sem snýr að stofnum sambýlis í götunni þar sem Gunnlaugur bjó.  Ég vil hafa sem fæst orð um þetta sambýlismál því það kemur Kögunarmálinu ekkert við, en þeir sem vilja geta lesið þessa grein sem birtist í Tímanum vegna málsins.  Þetta segir þó Gunnlaugur sjálfur um starfshópinn gegn sambýlinu.

Þá er lokið þessar yfirferð um vörn Gunnlaugs í Kögunarmálinu.  Vissulega er það þannig að sumar útskýringar Gunnlaugs eru ekkert út í hött þótt sumar séu það sannarlega.  Það sem er vandamálið við  útskýringarnar er að nánast allt er á gráa svæðinu og sumar þar sem sólin skín aldrei.

-Hvað er eðilegt við það að vera forstjóri í Kögun og Þróunarfélaginu þegar Þróunarfélagið er að selja hlut í Kögun? 

-Hvað er eðlilegt við það að sami maðurinn (Gunnlaugur var forstjóri Þrjóunarfélagsins og Kögunar) ákveði söluverð hlutabréfa í Kögun í þessari furðustöðu? 

-Hvað er eðlilegt við það að til sé yfirlýsing um að enginn megi eiga meira en 5% í Kögun og forstjórinn í félaginu eigi 9%

-Hvað er eðlilegt við það að á tímabili eigi forstjórinn, kona hans, tengdafaðir, faðir og tveir synir, hlut í Kögun.

-Hvað er eðlilegt við það að stjórn Kögunar og framkvæmdastjóranum greini á um starfslok framkvæmdsstórans?

-Hvað er eðlilegt við það að stjórn Þróunarfélagsins, segir að forstjórinn hafi leynt sig upplýsingum sem varð til þess að forstjórinn eignaðist 27% hlut í Kögun?

-Hvað er eðlilegt við að kaupum Kögunar á hlut
Þróunarfélagsins í Kögun, var ekki rift, enda augljóst að samningur var
brotin vegna sölunnar?

-Hvað er eðlilegt að fyrirbærið „eftirlaunasjóður starfsmanna Kögunar“ verður skyndilega stærsti hluthafinn í félaginu með 30% hlut, þegar ljóst var að enginn mætti eiga meira en 5%.

-Hvað er eðilegt við það að ráða maka sinn í opinbert fyrirtæki sem maður stjórnar?  


-Hvað er eðlilegt við það að hjón séu alfa og ómega í einhverju opinberu fyrirtæki eða hálf opinberu fyriræki eins og Kögun var?

Ég gæti haldið svona áfram all lengi en hlífi lesendum við frekari upptalningu.  Það er ekkert eðlilegt
við Kögunarmálið.  Það er eitt alsherjar skuggaspil á gráa svæðinu.  Það sem eftir stendur og nái maður að rífa sig lausan úr smáatriða-bunkanum stendur eftir alveg himinhrópandi staðreynd.

Gunnlaugur M. Sigmundsson er ráðin til vinnu við að stýra og stjórna fyrirtæki og selja það síðan í dreifðri eignaraðild.  Það sem gerist er að Gunnlaugur M. Sigmundsson „eignast“ fyrirtækið með klókindalegum viðskiptafléttum

Það var ekki meiningin.

. . . Það var alls ekki meiningin.

-o-o-

Þessi upprifjun mín er viðbragð við meiðyrðakæru Gunnlaugs M. Sigmundssonar á hendur mér vegna skrifa um Kögunarmálið.

Samantekt:
1. greinin. —   2 greinin. — 3 greinin. —  4. greinin. — 5 greininÞetta er  6 greinin.

 

Site Footer