VIÐTAL VIÐ EINAR MÁ

Á föstudaginn fyrir viku síðan var haldin heljarinnar bókamessa í Gautaborg.  Þessi messa er ein af hápunktum menningarlífsins hér í borginni og jafnvel þótt víðar væri leitað, því að henni eru gerð skil í öllum fjölmiðlum landins.  Í ár var hinn þýskumælandi bókmenntaheimur í öndvegi.  Frægasti gestur hátíðarinnar var enginn önnur en Nina Hagen en hún var akkúrat að gefa út æviminningar sínar.  Ísland var sjáanlegt eins og alltaf enda er Gyrðir Elíasson núverandi verðlaunahafi bókmenntaverðlauna norðurlandanna.  Hann hélt fyrirlestur ásamt Einari Má fyrir troðfullum sal af stærri gerðinni.

Ég hef alltaf verið svolítið forvitin um Einar og gómaði hann í rúllustiga eftir fyrirlesturinn, kynnti mig og bað um viðtal fyrir bloggið mitt.  Einar var á leiðinni í hádegisverð, en sagðist hitta mig klukkan 4.  Tímann á meðan notaði ég til að skoða messuna og ég hitti meir að segja frú Hagen. Hún brosti sínu blíðasta sem er furðulegt miðað við að tollarar á Landvetterflugvelli klæddu hana úr hverri spjör nokkrum tímum áður í leit af eitri.  Það fundu þeir auðvitað ekki því frú Hagen turnaðist til kristni fyrir nokkrum árum og er orðin afhuga syndugu lífi.

Þegar klukkan var 16:03 mætti Einar.  Við heilsuðumst, og ákváðum að gera viðtalið á kaffihúsi hinumegin við götuna.  Nú þekki ég Einar eiginlega ekki neitt og eins og stundum þegar maður þekkir einhvern ekki neitt, fór ég að tala í belg og biðu.  Um allt og ekkert.  Landkosti Svíaríkis, granitnámur og 600.000 elgi og hið frábæra samviskubit sænsku þjóðarsálarinnar um að þau séu að alltaf skemma náttúruna.  Óð þannig úr einu í annað meðan við gengum að ágætu kaffihúsi við Skánargötuna. Loksins þegar Einar komst að fyrir málæði spyrjandans , spurði hann mig út í mál Gunnlaugs M. Sigmundssonar á hendur mér.  Ég svaraði eftir bestu samvisku um leið og við settumst við borð sem vísaði út að götu. Þegar ég ýtti á REC á diktafóninum mínum vorum við komnir með sitthvorn kaffibollann.  -Americano.  Þá var Einar að hugleiða um tjáningarfrelsið.

EM:  Menn eru mjög gjarnir á að hampa frelsinu og tjáningarfrelsinu þegar lítil umræða á sér stað.  Um leið og umræðan fer af stað kemur oft annað hljóð í strokkinn. Þá finnst mörgum umræðan fara of langt.  Þeim finnst fólk taka of stórt upp í sig.  Eignarhaldið á fjölmiðlum er mjög þröngt.   Planið sem var skapað á hrunstímanum er mikið til enn við lýði.  Umræðan hefur líka alltaf tilhneigingu til einföldunar. Til dæmis eru margir sem vilja afgreiða mig sem kommúnista og þá er það alveg nóg.  Án þess að ég sé viðkvæmur fyrir því.  Þeir sem hafa orðið í samfélaginu höndla ekki umræðu. Ef hægt er að afgreiða eitthvað sjónarmið, setja það á bás er það nóg.

TA. Þessi hópur er ekkert sérstaklega hrifin af nýrri stjórnarskrá.  

EM: Það er þeirra tilfinning að þetta komi aftan að þeim, þessar stjórnarskrárbreytingar. Þeir halda að þeir missi völdin. Á meðan allt er með kyrrum kjörum og skýrslurnar streyma hvað allt sé óspillt þá hreiðra þeir um sig í þeim skáldlega heima og þá þarf ekki vitnanna við.  Hluti af þessu er fjölmiðlaumhverfið.  Eins og við vorum að tala um.  Það er í molum.  Það hrundi.  Það á miklu stærri þátt í hruninu en um hefur verið talað. Margt sem er kann að vera fínt en það sem vantar er hvergi. Það sem ekki var sagt. Það sem aldrei heyrðist. Það var átakanlegur borgarafundurinn um fjölmiðlana.  Þeir lofuðu bót og betrun en þeir einhvernvegin gáfust upp.  Fjölmiðlaheimurinn er ekkert í ósvipaðri stöðu og fjármálaheimurinn.  Þeir geta ekki breytt sér, því gamla hugmyndafræðin einhvernvegin partur af starfinu.

TA.Talandi um fjölmiðla þá hef tekið eftir að erlendu fréttirnar hérna í Svíþjóð eru allt aðrar en erlendu fréttirnar á Íslandi.  Það er svolítið skrýtið.

EM.  Það er talað um miðjumoðið, ef við leyfum okkur að þýða orðið mainstream þannig, að þær fréttir sem við fáum eru ótrúlega lítið úr veruleika almennings,  Þegar ég var að kynna Hvítu Bókina sögðu mér sjómennirnir á vestur Jótlandi að þegar þeir voru að berjast á móti fiskveiðakerfinu þar þá var þetta alltaf í sjónvarpinu, svo fór það í blöðin, þaðan í lókalblöðin og svo hvarf þetta alveg. Til að mynda þjóðfélagsátök sem hafa verið undanfarið. Við fáum brot af þeim sögum. Þjóðfélagsbaráttan þykir ekki fréttnæm fyrr en það sýður upp úr. Þetta er ekkert séríslenskt en mjög áberandi á Íslandi. Mótmælin í Grikklandi síðast liðið sumar höfðu staðið lengi áður en þau leituðu inn fjölmiðla.

TA: Það var reyndar mikið fjallað um það hérna.  Annað sem aldrei hefur komið í fréttirnar á Íslandi er fréttin af sænska blaðamanninum Isak Dawid, sem hefur verið í
fangelsi í Eritreu í 10 ár.  Þar sem honum er haldið án dóms og laga. Sænska pressan hefur aldrei gleymt honum og fjallar um mál hans reglulega.  Í kjölfarið hefur komið í ljós að stjórnvöld Eritreu eru dólgar og fjárkúgarar.  Svíar af erítreískum uppruna þurfa að boga “verndargjald” fyrir fjölskyldur sínar í heimalandinu,. 2% miðað við skattframtal.  Þessu er stjórnað úr sendiráði Eritreu í Stokkhólmi. Þetta er ekki fréttnæmt á Íslandi.  Fréttamatið á Íslandi er pínulítið pirrandi stundum.  

EM:  Það eru samt til vefmiðlar og bloggsíður sem eru með áhugaverðar fréttir en það er lítið og einangrað.  Við sáum það í Búsáhaldabyltingunni að allir urðu sérfræðingar og það er ljóst að það er mikil hæfni og  ritfærni meðal almennings.  Það er reyndar þannig að það sem byrjar sem spretthlaup, endar sem langhlaup og margir gefast upp á leiðinni.  Það er svolítið
gert í því að gefa fólki vonir sem standast ekki.

TA:  Ert þú ekki bara að lýsa pólitík?

EM:  Jú, einmitt.  Þetta fer að snúast um pólitík.

TA: Vindum okkur að bókamessunni.  Þú vart með fyrirlestur í stórum sal og það var stappfullt.  Veistu hvað miðinn á fyrirlesturinn þinn kostaði?  

EM:  Nei.

TA:  1350 sænskar krónur. Það gera.  23.500 íslenskar krónur.  -Ég tímdi ekki að borga mig inn.  

EM: Við fylgjumst nú ekki með miðasölunni, þetta kom hvergi fram. En ég held að þú sért að misskilja. Ég held að þetta hafi verið verðið inn á messuna, inn á mörg prógröm, ekki bara mig og Gyrði. En mjög oft eru prógrömm ókeypis, ég hef aldrei heyrt þennan verðflokk áður. En það hlaut að koma að því.

TA: Þetta er bisness. Er það ekki bara málið?

EM: Okkur finnst alltaf að menning eigi að vera ókeypis, sem er ágætt sjónarmið, hún er það oftast og að mestu leyti. Sumt er ókeypis, annað er niðurgreitt og svo er eitthvað sem kostar. Þetta er umræða sem alveg má taka. Það má alveg líta á bókmenntadagskrár einsog tónleika. Engum finnst neitt að því að borga sig inn á tónleika eða íþróttaleiki. Í Noregi er haldið mikið af bókmenntahátíðum. Litteraturfestifvalen i Lillehammer, og hinum og þessum bæjum.  Það sér maður norskt fjölskyldufólk sem notar sumarfríið sitt í að ferðast um svona hátíðir. Svona stemming er líka að sækja í sig veðrið á Íslandi, samanber Þjóðlagahátíðina á Siglufirði. Alls konar tónlistar- og menningarhátíðir. Sænska messan hefur það orð á sér að blanda saman viðskiptaþættinum og bókmenntadagskrám og bókmenntamiðluninni.  Meðan Frankfúrtarmessan, þar sem Ísland er í miðdepli, er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. Mikið um kaup og sölu, drög að samningum og svo framvegis. Síðan ertu með allar útgáfur af bókmenntahátíðum. Bókmenntahátíðin í Reykjavík er gott dæmi. Þar er ókeypis á alla viðburði og inn í þá koma þá styrktaraðilar, opinberir, og bókförlög, ferðaskrifstofur. Í kringum mennninguna eru í stuttu máli sagt ýmis hagkerfi í gangi. Hluti af minu starfi eru upplestrar og fyrirlestrarferðir.  Tek svona svæði og er með dagskrár.  Ég er einskonar farandpredikari með köflum.

TA: Ertu þá að lesa upp úr sýnisbók Einar Más

EM: Bæði.  Ég ræði um mín verk, bæði ljóðlist og skáldverk.  Svo vill svo til að 2 síðustu bækur hafa fjallað um þjóðfélagástandið hér og nú. Þetta verða umræður um ansi margt.

TA. Þú afsakar hræðilega klisjukennda spurningu, en hvernig er að vera íslenskur rithöfundur. Skiptir það einhverju máið að vera íslenskur?  Skiptir það máli fyrir djobbið?

EM:  Já já. Það skiptir máli.  Í fyrsta lagi hef ég enga möguleika að því að breyta um þjóðerni.  Ég er íslendingur.  Sem íslenskur rithöfundur þá hef ég ákveðnum sögum og anda að miðla úr menningunni sem við komum úr. Það er bara þannig. Ég er með hefð á bakinu, sem er íslenska sagnahefðin. Að vera íslenskur höfundur byggir á því að þú ert með boðskap sem á við annarsstaðar.

TA. Sem sagt, íslenskan boðskap sem talar til fólks út um allar trissur.

EM: Ég hef skilið það sem þannig að því betur sem þú lýsir því umhverfi því trúrri sem þú ert því umhverfi sem þú kemur úr, þeim mun skýrar ertu að tala til annara.  Það er misskilningur að alþjóðlegar bókmenntir séu bókmenntir sem gerist á flugvöllum.  Að þær gerist þar sem allir eru allstaðar eins.  Að menn geti veifað einhverju sem er nógu international.  Svo er nú ekki.  Frekar að mannkynið finni sín sameignlegu einkenni í gegnum sérkennin.

TA. Eru ekki þessar afgönsku sögur um flugrekahlauparann og 1000 bjartar sólir ágætis dæmi um það.  Konan mín er alltaf að minnast á þær við allskonar aðstæður.  Þessar bækur tala til allra.  Kannski gerir það sögur svona magnaðar.  Þær leiða mann í þá stöðu sem spyr “hvað ef ég myndi lenda í þessu?”

EM: þarna kemur þú inn á muninn þá því sem þú varst að tala um, hvernig bókmenntir miðla upplifuninni af veruleikanum en fjölmiðlar segja frá veruleikanum.  Þar verður sagnaþulurinn eins konar hlutlaus fréttaskýrandi, þótt að hlutleysi sé reyndar ekki til því í hlutleysi felst ákveðin afstaða. Bókmenntirnar komast undir ákveðið yfirborð í mannlífinu, sem engar skilgreiningar ná til. Sem við skynjum og þú segir -“já, það er einmitt svona”, en  þetta verður aldrei rökstutt.  Rökstuðningur er ofmetin iðja. Skáldsagan er  – sem bókmenntaform  – tiltölulega ung á mælikvarða frásagnarlistarinnar. Höfundar fornsagnanna létu sín hvergi getið.  Það er talið að skáldsagan fæðist um leið og vitundin um einstaklinginn í samfélaginu.

TA. Er það í kjölfar upplýsingarinnar?

EM: Í kjölfar upplýsingarinnar og skynsemishyggjunnar, þegar  borgaralega samfélagið er að festa sig í sessi. Það eimir auðvitað eftir að þessari sterku einstaklingsvitund  í skáldskapnum.  Skáldsaga er skrifuð af einum manni.  Þetta er svolítið síðasta vígi þar sem að maður ræður sér svolítið sjálfur. Þar sem hugsandi maður gerir þá kröfu að vera frjáls. Þetta sem við erum að tala um núna er þáttur sem byggður er inn í ferlið. Maður skynjar sig þvert á móti ekki sem einan.  Maður er alveg jafn mikið tjá það sem aðrir eru að hugsa, það sem menningin, samfélagið foreldrarnir, kynslóðirnar hafa fært manni upp í hendurnar. Þú ert líka  fæddur á ákveðnum tíma, í ákveðnu samfélagi og hefur ákveðnar forsendur til að gera það sem þú gerir og hugsa það sem þú hugsar.  Það hefur verið alveg rosalega sterk krafa frá rithöfundum að vera frjálsir, en þá kemur eins og viðskiptunum, að frelsi fylgir ábyrgð.  Spurningin um hvort að rithöfundar eigi að vera talsmenn  einhverra hópa kemur alltaf upp. Eða eru þeir talsmenn einhverra annarra. Sumir telja sig tala fyrir munn guðs. Þetta segir Einar og hlær. Hann heldur áfram.

EM: Ég hallast að því að áhugaverður höfundur sé svolítill svampur, eða spegill á það sem er að gerast, en um leið svona reynir hann að hafa áhrif á spegilmyndina.

TA: Við vorum að tala um Ísland. Ég er þeirrar skoðunar að eyjaskeggja elementið í Íslendingum sé verra en margan grunar.  Ég held að ástandið væri skrambi mikið betra ef við værum ekki eyja.  Ég upplifi Ísland svo rosalega lokað.  Hvernig upplifir þú þetta?

EM:  Þarna getur þú komið að bókennunum.  Í Eddukvæðum segir að heimskur sé sá sem heima situr. Eyjaskegginn er líka ferðalangur.

TA: Hann getur verið víðsýnn, af því hann er eyjaskeggi og það er forsendan fyrir víðsýni hans. Svo getur hann alveg eins lokað sig af eins og mér sýnist vera sterk tilhneiging á Íslandi.  Söguupplifun Íslendingsins er allt önnur en söguupplifun Evrópubúans.  Það eru t.d ekkert sérstaklega mörg ár síðan að hinum megin við Eystrasaltið, séð frá Stokkhólmi, voru herflugvélar að skjóta niður flóttafólk í þúsundatali.  Það er minna en mannsaldur  síðan að það var gerð loftárás á Helsinki.  Það er lifandi saga þegar Svíþjóð var umkringd herjum nasista og nánast eina vörn landsins var stærð þess.  Hörmungar Íslands eru of langt frá okkur í tíma, meðan hörmungar  Evrópu eru sprelllifandi í hugum margra.  Erum við trallandi trúður sem aldrei hefur upplifað neitt og fer algerlega á límingunum þegar fasteignaverð hrynur um 30%  

EM. Það
sem þú ert að orða núna, er eins og ég og fleiri, skiljum sagnalistina. Að sagnalistin miðli tímunum og það sé á vissan hátt hlutverk mitt að fara aftur í tímann og segja sögu íslensks almennings sem í gegnum fátækt og basl, byggði upp þetta samfélag.  Ég leit þannig á þegar ég var að skrifa fjölskyldusögurnar. Fótspor á himnum, Draumur á jörðu og Nafnlausir vegir.  Þegar ég skrifaði þær þá grúskaði ég mikið og tók viðtöl við fólk.  Margt af þessu fólki er látið og þá má alveg segja að ef ég hefði ekki gert þetta, þá væri hljótt þarna.  Þarna ertu komin með hlutverk sagnamannsins. Þessu skila ég til barnanna minna og framtíðarinnar. Þannig miðla bókmenntirnar skilningi á sögunni.  Við getum séð til að mynda að þetta fólk nýtur ekki menntunar og skólagöngu vegna fátæktar.  Þetta eru ekki nema tvær kynslóðir síðan. Núna stendur heimurinn í þessu skuldabasli og við spyrjum okkur, hvernig verður þetta eftir tvær  kynslóðir?  Þannig  að fortíðin og sagan er alltaf að leggja fyrir okkur verkefni og spurningar. Það sem gerðist núna á þessum tímum nýfrjálshyggjunnar á Íslandi var að sögunni var markvist hafnað.
Það var alltaf sagt;”nei nei. Við erum vera að velta okkur upp úr þessum gömlu tímum” Þú heyrir þetta núna hjá hrunverjum. Það á ekki að vera að velta sér upp úr fortíðinni “það á ekki að vera horfa í baksýnisspegilinn” -þykir þeim voða gaman að segja.  Heldur “fram á við”.  Það er í rauninni verið að segja “þú átt ekki að læra af mistökunum”.

TA.  Manstu þegar Þorgerður Katrín sagði í svartnættisglundroðanum í miðju hruninu að “Þetta væru áhugaverðir tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn”.  Þá hugsaði ég að þarna væri ég að hlusta á fulltrúa stjórnmálastefnu sem hefði slitið sig algerlega frá veruleikanum og lifði bara í einhverjum heimi innihaldslausra frasa.

EM: Þú getur líka sett þetta í samhengi við The Shock Doctrine, hamfarakenninguna, þar sem tækifærið er gripið meðan allt er í uppnámi og endurskipulagning samfélagsins er undirbúin.  Það var verið að tala um fjármálahrunið sem hamfarir og þá má alveg bera þetta saman við náttúrulegar hamfarir eins og flóðbylgjunni 2004 þegar uppbyggingin var fólgin í því að byggja hótel þar sem fólk bjó við ströndina.  Milton Friedman sagði í kjölfar hamfarana í New Orleans að nú væri lag að einkavæða skólakerfið í fylkinu. Að því leyti litu margir hrunverjar – og líta enn – á hrunið sem áhugaverða tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta var ekki endilega veruleikafirring hjá Þorgerði Katrínu heldur hugmyndafræði.

TA: Má ekki segja að þetta hafi bara verið sálfræðilegt viðbragð hjá Þorgerði.  Hún kunni ekkert annað.  Hún kunni ekkert nema einhverja frasa úr vopnabúri Sjálfstæðisflokksins?

EM. Það má ugglaust taka siðfræðilegan vinkil á þetta.  Það var gripið til þess. Fyrir mér var hún bara að orða stefnu, kannski á frekar ósmekklegan hátt, svona svipað og sagt er þegar einhverjir hugsa upphátt.

TA: En af hverju sagði hún þetta?  Af hverju sagði Þorgerður Katrín að þetta væru spennandi tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn?  18 ára valdatíma endar í svartholi.  Af hverju sagði Þorgerður þetta?

EM:  Það væri sjálfsagt ágætt að spyrja hana hvað hún meinti.

TA: Hún hefur ekki hugmynd um svarið. Ég held að hún skilji ekkert hvað ég er að fara.

EM: Allavega er það þannig, og ekkert er á neinn hallað, að þetta svar er ekkert í mótsögn við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.  Mér finnst í rauninni að þegar við erum að skoða samfélagið þessi misserin, þá eigum við að horfa á hugmyndafræðina, kerfið, því það er ákveðin tilhneiging í umræðunni að velta sér upp úr undantekningunum og komast það þeirri niðurstöðu að við séum svo sérstök.  Eins og var gert af því að Ísland var tilraunastofa sem hrundi – Fyrst.  Segir Einar og hlær

TA:  -Langt á undan hinum.  Segi ég og ábágt með að sulla ekki úr kaffibollanum sem ég held á vegna hláturs.

EM: Þá kom þetta “við erum ófær um að stjórna” en núna erum við að sjá þetta skýrar að hér er á ferðinni einn allsherjar kerfisgalli sem vissulega á sér ótal birtingarmyndir eins og þegar Robert Aliber sagði, að geimvísindamenn hefðu getað stjórnað Íslandi eins og Geir Haarde og að handahófsúrtak úr símakránni hefði staðið sig betur en yfirstjórn Seðlabankans.  Núna kemur hann 3 árum seinna og segir að örin sjáis ekki, því að margt af því sem hrundi var ekki neitt. Bara einhverjar tölur á skjá.  Það er fullt af hlutum í okkar samfélagi sem hægt er að nota en það er verið að skera niður þar sem síst skyldi. Gagnrýnin sem ég of fleiri vorum með fyrst var að ábyrgðinni var ekki vísað til hinna ábyrgu. Þeir voru ekki látnir sæta ábyrgð.  Við erum búin að taka af þeim ábyrgðina.

TA:  Ég held að þeir munu aldrei taka við ábyrgðinni vegna þess að þeir skilja hana ekki.  Tryggvi Þór Herbertsson sagði um daginn að “það var ekkert siðferðislegt hrun og hugmyndafræðilegt hrun”.  Kenningin sem haldið er í er að Leahmansbrothers féll og þá fóru af stað dómínó-áhrif sem felldu íslensku bankana.  Það þýðir ekkert að tala við svona mann um ábyrgð, hvað þá pólitíska ábyrgð.  -Það skiptir engu máli.

EM: Þegar ég segi að vísa ábyrgðinni til þess sem ábyrgðina bera, snýst það ekkert um að koma Tryggva Þór Herbertssyni í skilningn um nokkurn skapaðan hlut.  Heldur að almenningur krefjist þess að ábyrgðinni sé vísað á hina ábyrgu.  Á loftbólutímanum þegar viðskiptaráð stjórnaði samfélaginu, þá var regluverki aflétt og lögum breytt.  Þá var búið svo um hnútana að þá gerðist ekkert ólöglegt.  Lögleysan var lögleg.Við erum látin horfa á hrunið sem tæknilegt vandamál.  Síðan eiga dómstólar að finna út eru því hversu tæknilegt vandamálið er. Þetta er liður í því að taka málefni sem eiga að snúa að samstöðu og gera þau að einkamálum. Eins og t.d þitt mál snýr að táningafrelsinu. Þú mátt alveg segja þína skoðun á þingmönnum og gjörningum þeirra og mátt meira að segja hafa rangt fyrir þér, en þingmaðurinn fer í mál við þig og gerir þetta að þínu einkamáli.  En það er mín skylda sem borgara í landinu að segja. Þetta er líka mitt mál.  Alveg eins og þegar við skrifuðum undir hjá 9 menningunum, að þau fóru inn í húsið í okkar umboði og fóru fram á það sama og við.  Þess vegna hef ég sagt það að yfirstéttin á Íslandi er aum að láta Geir standa þarna einan, af hverju standa þau hin ekki með honum. Við eigum að láta ábyrgðina þar sem ábyrðin á heima.

TA: En gerir þú þér grein fyrir því að hinir ábyrgu munu aldrei axla neina ábyrgð?  

EM: Hárrétt. Og samfélagið segir að þau þurfi þess ekki.

TA:  Breytingabylgjan sem kom, þessi krafa um nýtt ísland, er líka að fara.  

EM: Það er að fjara undan þessu.  Við getum allavega sagt það að við erum komin í stærra samhengi þegar að svipaðir hlutir eru að gerast í öðrum löndum, heyrum við að það er talsvert mikið að mótmælendum frá Portúgal og Spáni að spyrja okkur ráða. Sem er svolítið fyndið.  Eitt sem situr eftir. Við sýndum að við getum breytt, að þetta er hægt.Við verðum að halda í þá eldspýtu.

Site Footer