VINDHVIÐUR OG LOGN

Eftir að ljóst var að Gunnlaugur M. Sigmundsson ætlaði að gera alvöru úr hótunum sínum í minn garð eftir blogg sem ég birti undir nafninu „Formaður Framsóknarflokksins og hræðslan“, ákvað ég að hafa allt þetta mál, eins og það snýr að mér, opið og blogga um það.

Í fyrsta lagi finnst mér það eiga erindi við þá sem nenna að lesa þetta blogg mitt vegna þetta er jú lífsreynsla sem ekkert margir þurfa að ganga í gegnum og efnið því forvitnilegt.  Þetta er líka ákveðið varnarviðbragð af minni hálfu því mér finnst allt í lagi að segja frá því þegar mér er ógnað, fjölskyldu minni og fjárhagslegri afkomu.

Munum að ef ég tapa þessu máli, mun það kosta mig kannski 4 til 6 miljónir.  Peninga sem eru ekki til þakka ykkur fyrir.  -Íbúðin okkar hjóna á Ísland er undir.

Já ég hef verið stressaður og ég hef misst svefn vegna þessa máls.  Ég nenni ekki að ljúga því að ég sé svo kúl og svalur að þetta hrökkvi bara af mér eins og eitthvað smáræði.  Ég er drullu stressaður yfir þessu.  Sem betur fer hef ég getað undirbúið mig ágætlega.  Búinn að taka afrit af öllu því sem ég hef fundið skrifað um Gunnlaug M. Sigmundsson á netinu.  Ég hef tekið skjáskot af öllu sem ég hef séð hjá öðrum bloggurum varðandi Kögunarmálið.

Ég er nefnilega ekki sá eini sem hefur skrifað um Kögunarmálið og það skuggaspil sem átti sér stað þegar hlutabréf í Kögun voru seld frá Þróunarfélagi Íslands.  Ég bið hér með alla bloggara að bíða með að eyða færslunum sínum uns dómur hefur fallið í þessu máli mínu.

Það versta sem ég get hugsað mér í þessari vörn minni er að aðrir bloggarar sem skrifað hafa um Gunnlaug, hlaupi í felur og róti yfir spor sín á netinu.  Það er örugglega hluti af stragedíunni að slík verði raunin.

Ég bið því ykkur að halda með mér.  Standið við það sem þið hafið skrifað og ekki gefast upp.

-o-o-o-o-o-

Um helgina fórum við fjölskyldan í ferðalag.  Vinafólk okkar hafði fengið lánað sumarhús rétt við Vimmerby það sem Astrid Lindgren var fædd.  Þar er nú heljarinnar skemmtigarður sem heitir „Astrids Lindgrens Värld„.  Ferlega flottur garður þar sem leikarar voru aðalnúmerin, ekki öskrandi rússíbanar og vælandi hringekjur.  þarna vorum við heilan dag og ég náði held ég, að gleyma þessu máli aðeins.  En það var á leiðinni heim sem að þetta hvolfdist yfir mig einhvern veginn.  Við Ingunn vorum eitthvað aðeins að ræða um framtíðina eins og stundum hendir.  Þá fattaði ég að það mál var einhvern veginn öðruvísi eftir en áður.  Hvað ef við eigum enga íbúð og ég forsmáður sem einhver mannorðsmyrðari.

Til að bæta gráu ofan á svart þá fékk ég einhvern tölvupóst í símann minn sem ég áttaði mig ekki alveg á.  (Hvað er maður að eiga svona vítisvélar?) Gat ekki lesið hann og það litla sem ég sá voru skilaboð um að hringja í einhverja manneskju.  Þarna tók óttinn bara völdin af mér og kvíðinn kom eins og í hvinum í gegnum mig.  Alls konar hugsanir um mögulegar ástæður hins og þessa fuku í gegnum hugann eins og eitthvað plastrusl í hávaðaroki.  Stundum lægði aðeins rokið en hvinurnar óðu síðan inn af fullum krafti.  Þetta var bara óveður í sálinni.

-Þannig er þetta.  -Þannig er að vera stefnt fyrir dóm.  -Þannig er líðanin.

Símtalið sem beið mín heima snérist um málareksturinn eins og mig hafði grunað.  það var samt ekki neitt skaðræði nema síður sé.  Þetta símtal var afar hughreystandi og ég mun sennilega aldrei gleyma því svo lengi sem ég tóri.  það er ekki á hverjum degi sem ég upplifi að ókunnugt fólk hringi til að stappa í mann stálinu og bjóða fram aðstoð sína.  -Það er eiginlega ólýsanleg tilfinning.

-o-o-o-o-

Á morgun birti ég blogg um atburði sem gerðust árið 1998. Þann 10 maí nánar tiltekið.  Mogginn komst á bragðið af Kögunarmálinu, og atburðarás fór af stað sem náði alveg upp í efstu hæðir stjórnkerfisins.

 

Site Footer