Vægan fékk hann dóm.


Mig svíður að níðingurinn sem nauðgaði stjúpdóttur sinni þarf sennilega ekki að afplána nema helming tímans. Hann sleppur sennilega út eftir 3 ár.

Mér finnst fáránlegt að fangelsismálayfirvöld geta stytt refsingar sem hæstiréttur hefur ákveðið. Ég er þess fullviss að almenningur er sammála mér. Dómar í ofbeldis og kynferðisbrotamálum eiga að vera þyngri og stytting á afplánun á ekki að vera möguleg.

-Nú er lag fyrir alþingismenn að breyta þessu til hins betra.

Það er svo skrýtið að lög og reglur virðast ekki endurspegla almenningsálitið í ofbeldismálum. Refsingar við ofbeldisglæpum eru furðulega vægar. Þær brotalamir sem margir hafa bent á varðandi ofbeldi sem beint er gegn konum eru augljósar. Ekki er hlustað á þá sem bent hafa á þessa brotalöm í lögum landsins. Í sannleika sagt þá er hið opinbera að senda afar skýr skilaboð með þessum vægu refsingum.

-Þeim stendur bara á sama. Þeim finnst þetta ekkert merkilegt.

Besta leiðin til að byrja með er að breyta lögum um að fangelsismálayfirvöld geti stytt dóma. Þannig er hægt að útloka að níðingar á borð við þann sem var dæmdur á dögunum sleppi út áður en þeir hafa afplánað sinn dóm.

9 comments On Vægan fékk hann dóm.

 • Finnst þér virkilega að lög og reglur eigi að endurspegla almenningsálitið?

 • Já mér finnst það.

  Ef reglur (og lög) endurspegla ekki almenningsálitið, hvað eiga reglur þá að endurspegla?

  Lög og reglur eiga að endurspegla almenningsálit hvers tíma. Þessvegna þarf Alþingi til að breyta, setja og fella úr gildi lög.

  Þetta segir sig nú sjálft satt best að segja.

 • Alveg er ég ósammála. Ég myndi ekki vilja búa á Íslandi (og ekki heldur í Svíþjóð ef útí það er farið) ef menn væru dæmdir til refsivistar af almenningsálitinu.

 • Það er nú bara staðreynd í báðum löndum.

  Ég held að við séum að notast við mismunandi skilning á orðnu „almenningsálit“.

  Ef að lög endurspegla ekki vilja almennings (almenningsálit) hvað endurspegla þau þá? Endilega svaraðu. 🙂

  Þú ert notast við skýringu á orðinu „almeninngsálit“ eins og „dómstóll götunar“ eða þvíumlíkt.
  ég notast við orði eins og það kemur mér fyrir sjónir. -Almennings-álit.

 • Hvað átt þú við með almenningsálit? Líklega er ég sé að meina meirihluta manna, en kannski á ég bara við þá sem hafa mjög hátt.
  Þegar ég hugsa um vilja „almennings“ sé ég fyrir mér Lúkasar-mál og álíka uppákomur þar „sem mér heyrðist „almenningur“ vilja grýta mann til bana án dóms og laga. Ég held, því miður, að „almenning“ skorti umburðarlyndi og réttsýni (og sjálfsagt suma dómara líka, þeir eru hluti af almenningi).
  Ég skil orðið almenningsálit þannig að um sé að ræða skoðanir meirihluta fólks. Mér finnst skoðanir meirihluta fólks oft mjög ranglátar. Mér finnst dómar líka yfirleitt of harðir en ég er líklega ein af fáum, mér heyrist flestir vilja þyngja dóma.
  Ætti að setja einstök lög eftir skoðanakönnunum eða þjóðaratkvæðagreiðslum? Þá yrðu t.d. lög um landvistarleyfi útlendinga á Íslandi þrengd til muna (og mér er sagt að þau geti víst varla orðið strangari nema við slítum þeim samningum sem við höfum gert við löndin í kringum okkur).
  Ég hef ekki lesið lög eða velt löggljöf sérstaklega fyrir mér fram að þessu, en mér finnst t.d. að lög eigi að vera þannig að samskonar sönnunarkröfur séu gerðar til allra mála. Mér finnst ég heyra aðrar raddir útum allt þessa dagana. Ýmsir vilja hafa sönnunarkröfur í einum ákveðnum málaflokki aðrar en í öðrum málaflokki og að hluta til hefur verið dæmt þannig. Ég held að vilji almennings sé oft þannig að hægt sé að dæma menn til refsivistar án sannana (líklega heitir það að dæma á líkum) og í einhverjum tilvikum hefur það kannski verið gert. Það finnst mér vera hreinræktað mannréttindabrot.
  Og ætli það endurspengli vilja almennings að dómar vegna „meiðyrða“ eru (eða voru, kannski hefur það breyst) miklu þyngri en dómar vegna ofbeldisbrota. Gunnar Smári Egilsson skrifaði nú heila bók um það og tíndi til hvað hann hefði mátt berja marga og nauðga mörgum fyrir peninginn sem hann þurfti að punga út fyrir að hafa móðgað einhverja betri borgara á sínum tíma. Mér finnst almenningur oft ræða um dóma yfir glæpamönnum af miklum hefndarþorsta – en dóma má auðvita segja ákveðan tegund af hefnd.
  Ég get mögulega ekki svarað spurningunni um hvað „lög eigi að endurspegla“, kannski finnst mér ekki að lög eigi að endurspegla eitt né neitt. Mér finnst að lög eigi að miða að því að halda uppi sanngjörnu og mannúðlegum heimi þar sem menn fá að búa þar sem þeir vilja og eru saklausir uns sekt er sönnuð. Og ég vil að menn séu ekki dæmdir til að sitja á Litla-Hrauni og álíka stofnunum nema mjög brýna nauðsyn beri til því ég held að það geri þá ekki að betri manneskjum. Mér finnst líka að fólk eigi að mega tjá sig eins og það vill án þess að vera dæmt fyrir það. Kannski endurspegla lög almennt vilja almennings, ég held samt, sem betur fer, ekki.

  P.S. Þetta var nú meiri langlokan og kannski ekki sérlega djúpt hugsað enda fór ég bara að velta þessu fyrir mér rétt áðan. En nú er ég farin að vinna og sendi bestu kveðjur til Svíþjóðar.

 • Ég get mögulega ekki svarað spurningunni um hvað „lög eigi að endurspegla“, kannski finnst mér ekki að lög eigi að endurspegla eitt né neitt.

  -Sérkennileg skoðun.

  Nú skal ég bara segja þér hvað lög eiga að endurspegla:

  Þau eiga að endurspegla vilja samfélagsins sem þau þjóna.

 • Er ekki hæpið að segja að „samfélagið“ hafi vilja? Er það ekki bara fólk sem hefur vilja?

 • Ég er eiginlega sammála Þórdísi í þessu. Það verður líka að athuga það að það er ekki almenningur sem setur lög heldur stjórnvöld og alþingi (í umboði almennings, a.m.k. að nafninu til). Þannig að það er líklegra að lög (ef við fylgjum fyrirmælum Teits) endurspegli vilja stjórnvalda, og sagan kennir okkur hvert slíkt getur leitt okkur. Lög eiga fyrst og fremst að vera réttlát, þau eru ekki hefnd samfélagsins gagnvart þeim sem brjóta gegn lögunum. Það er engin tilviljun að þrískipting dómsvalds, löggjafavalds og framkvæmdavalds er talin æskilegast stjórnfyrirkomulagið í lýðræðisríkjum.

 • Mig langar ekkert til þess að vera ósammála ykkur en hérna er eitthvað sérkennliegt á seyði.

  Gummie segir:

  það að það er ekki almenningur sem setur lög heldur stjórnvöld og alþingi (í umboði almennings, a.m.k. að nafninu til). Þannig að það er líklegra að lög (ef við fylgjum fyrirmælum Teits) endurspegli vilja stjórnvalda,

  -Auðvitað vinna stjórnvöld í umboði fyrir almenning! amk í lýðræðisríkjum

  Hann segir ennfremur:

  Lög eiga fyrst og fremst að vera réttlát, þau eru ekki hefnd samfélagsins gagnvart þeim sem brjóta gegn lögunum.

  Það er einmitt í anda lýðræðislegs stjórnvalds að vera réttlát. Almenningur vill það. Þessvegna er svona mikilvægt að lög innifeli lægsta samnefnara. AÐ þau nái yfir alla án undantekninga.

  Upplifir þú virkilega að lögin og stjórnföld hverju sinni séu ekki að vinna fyrir þig?

  -Hvern þá?

  Stjórnvöld eru þjónarnir okkar. Skipuð af samfélaginu til þess að setja lög og fella önnur úr gildi. Ef að stjórnvöld væru að vinna fyrir e-n annan en almenning þá er um að ræða eitt alvarlegasta brot í hegningarlögunum. Það er kallað landráð.

  Ég held að við séum í grunninn sammmála en deilum um hugtök eins og oft vill verða.

  kv. T.

Comments are closed.

Site Footer