Óþverrinn ég.


Ég las frábæra færslu Hnakkusar þar sem hann segir frá því þegar hann var „fjar-heilaður“. Ég hvet alla til að lesa Hnakkann. Þetta er yndislegt.

Ég játa það á mig að þegar ég var um þrítugt þá gerði ég áþekkan hrekk. Ég var eitthvað eirðarlaus og hafði líið að gera. Var að fletta í gegnum dagblað og sá auglýsingu frá „fjar-heilara“ sem á afar hóværan hátt auglýsti að ef lesendur sendu henni fé, þá myndi hún „fjar-heila“ viðkomandi. Fjarheilara-konan var svo óforskammuð að hún gaf upp reikningsnúmerið sitt í auglýsingunni og beið eftir peningunum.

Ég ákvað að senda henni fé og láta „fjar-heila“ mig. Ekki var það átakalaust því að í auglýsingunni vantaði kennitölu fjar-heilarans. Ég hafði upp á kennitölunni með því að hringja í fjar-heilarann og segja henni frá því að ég hefði í hyggju að leggja inn fé á reikninginn hennar og fá fjar-heilun. það var auðfengið mál, en af röddu fjar-heilarans máttti ráða að ég væri fyrsta viðbragðið við auglýsingunni.

Ég hef nefnilega líka það sem flokka má sem dulræna hæfileika. Ég get eins og margir fengið á tilfinninguna hvernig viðmælanda mínum líður, með því að meta hvað viðkomandi segir, hvernig hann segir það og undir hvaða kringumstæðum viðmælandi minn segir hlutina. Raddstyrkur og raddbeyting segir heilmikið til um í hvernig skapi viðmælandi manns er svo dæmi sé tekið. Fjar-heilarinn var greinilega spennt yfir símtalinu við mig þótt spenningurinn væri niðurbældur. Sagði fátt og talaði eins og véfrétt en undir niðri mátti greina eftirvængu þess sem hefur unnið í happadrætti og er byrjaður að eyða í huganum.

Ég sendi henni því næst peninga í gegnum heimabankann minn og get bara ímyndað mér viðbrögð fjar-heilarans þegar hún sá upphæðina.

-Fimm krónur íslenskar….

1 comments On Óþverrinn ég.

  • Híhí, ég man nú eftir því þegar við unnum saman á DV í gamla daga að þú sagðist rammgöldróttur. Réðir einu sinni fyrir mig draum og gafst mér leiðbeiningar um að snúa tréskál átta sinnum réttsælis…eða eitthvað svoleiðis svo allt færi nú vel. Ég fór ekkert eftir þessu eins og sjá má á þeirri stöðu sem ég er í í dag 🙂

    Þetta var náttúrulega bara skemmtilegt og þú tókst ekki krónu fyrir.

Comments are closed.

Site Footer