EF VERÐTRYGGINGIN VÆRI MANNESKJA

Enn og aftur er verðtryggingin komin í deiglu samfélagsumræðunnar.  Ég hef stundum skipt mér af þessu málefni enda er það nokkuð spennandi fyrir áhugafólk um efnahagsmál.  Það sem „böggar“ mig varðandi umræðuna um verðtryggingu er að margir sem berja sér á brjóst og þenja sig í hvívetna, hafa ekki hundsvit á verðtryggingunni.  Þetta segi ég með öllum fyrirvörum um ruddaskap og sleggjudóma.  En svona er þetta bara.

Staðreyndin er að verðtrygging er ekkert flókin.  Hún er frekar einföld og eðli hennar er ekki „illt“ eða „á móti hagsmunum vinnandi fólks“.  Margir telja að verðtryggingin sé einhver tartaletta sem Satan sjálfur hefur kokkað upp á heitustu hellunni í helvíti.  Sé svo skotgrafa-árátta íslenskrar umræðuhefðar skoðuð, er þó-nokkuð algengt að skipta fólki í lið sem annað hvort er með verðtryggingunni, eða á móti verðtryggingunni.

Þetta heyist oft og er ekkert útskýrt nánar.

Útvarpsmaður A: „Hann er með verðtryggingunni“
Útvarpsmaður B: „Nú jæja…  það var svo sem auðvitað…
Það er svo sem engin skortur á óvinum Íslands…  Svo mikið er víst“

Þetta er mjög galin staða eins og sjá má og því miður hafa tækifærissinnaðir stjórnmálamenn hoppað upp ofan í heitan pott skyndi-vinsælda með svona þvælu á vörunum.  Því miður þá er þessi sérkennilega afstaða smitandi  og allskonar fólk úr öllum stigum mannlífsins reitir af sér djúphugsuð dæmi um meinta skaðsemi verðtryggingarinnar.

Verðtryggingin er ekki flókin. Hún er ein tegund af vaxtaútreikningi sem gæti alveg eins kallast breytilegir vextir.  Í verðbólguumhverfi eins og á Íslandi, virkar verðtryggingin þannig að lánveitandinn, reiknar inn í lánið, áhrif verðbólgu.  Maður sem lánar konu miljón krónur í 10 ár vill fá miljónina borgaða (að sjálfsögðu) plús vexti (að sjálfsögðu) plús áhrif verðbólgu( annars myndi lánveitandinn að öllum líkindum tapa á því að lána miljónina)

Þetta er eins og í Excel þegar ein tala hefur áhrif á aðra.  Reitur A hefur  áhrif á Reit B o.s.fr.

Stundum hefur lánveitendum verið brigslað um að vera „bæði með buxur og axlabönd“ þegar sá fær bæði vexti og núllstillir sig gagnvart verðbólgu.  Þetta má svo sem vera satt en ef hann hefði bara buxur (bara vexti) yrðu þeir miklu hærri en með aðstoð axlabandanna (verðtryggingarinnar).

Verðtryggingin er bara ákveðin formúla.

-Ekkert vond.

-Ekkert góð.

-Hún er eins og talan 89.

-Eins og samasem-merki.

Hvernig er hægt að spyrja einhvern hvort viðkomandi sé á móti samasem-merki?

Verðtryggingin er hluti af efnahagskerfinu og ef hennar nyti ekki við værum við í mjög sérstökum málum.  Verðbólga væri viðvarandi í nokkrum tugum prósenta, peningar yrðu sennilega verðlausir og fasteignir myndu koma í stað peninga o.s.fr.  Það sem er athyglisvert við þessa sviðsmynd er að erlendur gjaldeyrir yrði sennilega notaður í viðskiptum manna í milli og sparnaður hvaða nafni sem hann nefndist væri óhugsandi.

Verðtryggingin gerir í raun lánamarkað á Íslandi mögulegan hvorki meira né minna því enginn, –ekki nokkur einasta sála eða hlutafélag eða hagsmunafélag eða ríkið eða hvað sem er, myndu lána eina miljón í 25 ár án þess að tryggja sig á einhvern hátt gegn áhrifum verðbólgu.

-Það er bara útilokað.

Nú verð ég að taka fram að ég er ekki „hlynntur verðtryggingu“ eða „meðmælandi verðtryggingarinnar“ eða hvaða köpuryrði sem áhugafólk um hagfræði kunna að klína á mig…  Verðtryggingin er ferleg. Hún er vond.  Hún hefur slæm áhrif á verðskyn almennings og hindrar þar með allar alvöru fjárhags-áætlanir til langs tíma.  Verðtryggingin stuðlar að háum vöxtum. Verðtryggingin hefur inn í sér verðbólguhvata (sem eru þó ekki meiriháttar) sem valda því að verðtrygging getur í sumum tilfellum virkað sem olía á eld.  Verðtryggingin stuðlar þess utan að því að fela stórkostlega skaðlegt kerfi þar sem ríkt fólk kemst upp með að fá tekjur í alvöru mynt, en borga laun með Mattador peningum.

Ef verðtryggingin væri manneskja, þá væri hún vinnuberserkur sem dettur í það um hverja helgi, lemur alla í fjölskyldunni, veður inn á skítugum skónum, hækkar enska boltann í botn og segir öllum að halda kjafti, rekur við og potar svo í naflann á sér biður um Sínalkó og filterslausan Camel….  Rýkur svo í vinnunna en skilur búnt af fimmþúsundköllum á eldhúsborðinu sem dugar fram að næstu helgi. . .

Eins súrt og það hljómar, þá er verðtryggingin nauðsynleg svo fremi sem notumst við íslenska krónu í viðskiptum.

-o-o-o-

í næsta bloggi mun ég fjalla um þær breytur sem hafa áhrif á verðtrygginguna.  Þessar breytur kallast vísitölur og eru jafnan taldar af formælisfólki verðtryggingarinnar sem illgirnisleg fyrirbæri sem fundin eru upp af óvinum þjóðarinnar og alls þess sem andann dregur í okkar fallegu veröld.

 

Site Footer