AÐ VERA KALL

Ég skilgreini sjálfan mig sem jafnréttissinna eins og flestir kallar.  Ég geng nú aðeins lengra en það, og fullyrði alveg óragur að ég sé feministi.  Ég er þar með sagt ekkert endilega sammála þessu feminista félagi á Íslandi sem telur sig hafa höndlað sanneikann og allt það.  Hafandi lesið töluvert um feminisma, þá held ég að sá feminismi sem er hvað mest áberandi á Íslandi, er viss harðkjarnategund feminisma. Tegund sem er ekkert sérstaklega áhrifamikil í Evrópu og Ameríku.

Þetta birtist á allskonar hátt í daglega lífinu og ég legg mig fram við að hætta ósiðum sem fest hafa í tungumálinu og þessháttar.  Ætli að minn feminismi gangi ekki út á að koma fram við alla eins og fólk, en ekki kalla eða konur.  Annars hef ég ekkert spáð í því sérstaklega.Í fyrravetur lenti ég í afar sérkennilegri aðstöðu þegar ég var að hlaupa hringinn minn í skóginum.   Hringurinn minn er eiginlega kassalaga og 3 hliðar hans eru upplýstar.  Sú eina hlið sem ekki er upplýst liggur þétt við vatnið og er ærið drungaleg, því eina birtan þetta kvöld var tunglsljósið, blikið frá vatninu og dauft endurkastið frá snjónum sem lá allt í kring.  Þessi hluti leiðarinnar er fáfarinn, en ég tek hann alltaf vegna þess að ég nenni ekki að hlaupa stóra hringinn.  Þetta er eiginlega svona „short cut“.

En þarna var ég kominn, í spandex buxunum og með Ipodin í eyrunum.  Þegar ég er búin að hlaupa í svona 10 mínútur sé ég konu eina sem er á undan mér.  Greinilega ekki í jafn góðu formi en ég því ég dró á hana. Hún var smávaxin en glæsileg í laginu.  Ég hugsaði nú ekkert út í þetta og hljóp bara á mínu tempói með Slayer í eyrunum og svoleiðis.

Tek ég ekki eftir því að stelpan sem var á undan mér, gaf alltaf í, þegar ég nálgaðist of mikið.  Þannig gekk þetta fyrir sig í nokkur skipti og það rann upp fyrir mér að hún var hrædd við mig.  þá fór ég að hugsa.  Hvað get ég eiginlega gert?  Ætti ég að bera mig á tal við hana og segja að ég sé ekkert nauðgari?  þá fyrst myndi hún bilast úr hræðslu.  Er það ekki akkúrat sem hundarnir sannfæra fórnarlömbin sin um: Að ekkert sé að óttast.

Nei.  Ég ákvað bara að halda mínu striki og hlaupa hringinn minn hvað sem tautaði og raulaði.  Svo gerist það að ég fór að nálgast beygjuna fyrir hliðina sem ekki er upplýst.  Nema hvað:  Stelpan sem er að forðast mig svona rosalega, beygir inn afleggjarann sem ég ætlaði að taka!  Örugglega til að stytta sér leið á flótta undan mér og komast sem fyrst á bílastæðið þar sem fólk geymir bílana sína.  -Enþetta var „mín“  leið, sem ég hleyp alltaf.

Nú voru góð ráð dýr.  Ef ég hætti við leiðina „mína“ þyrfti ég að hlaupa svona 5 km í viðbót, og ég nennti því barasta ekki.  En ef ég hlypi  leiðina mína myndi stelpan bilast úr hræðslu og sannfærast um að ég væri nauðgandi morðhundur.  -Shit hvað þetta var skrýtin tilfinning. Ekki bætti úr skák að helvítið hann Megas var að syngja „krókódílamanninn“ í Ipodinum.

-Djöfull var það furðulegt.Ég ákvað sem fyrr, að halda bara mínu striki og mínu tempói. – Hlaupi hlaup…  Þegar ég beygi svo inn í myrkrið, rétt sé ég í hælana á stelpunni og heyrði hana anda frekar hátt og „fórnarlambslega“.  En strikinu skyldi haldið.  Þessi leið, þótt stutt sé, er nokkuð hæðótt erfið og það kom mér því ekkert sérstaklega á óvart að sjá stelpugreyið alveg sprungna við á toppi einnar hæðarinnar.  Hún hvíldi sig þar með hendur á knjám sér og horfið á mig angistarfullum augum nálgast.

Þegar ég var að fara framhjá henni spurði hún mig nötrandi hvort þetta væri ekki leiðin á bílastæðið því kærastinn hennar væri að bíða eftir henni þar.  Jú, jú  sagði ég án þess að stoppa.  Hljóp bara á sama hraða framhjá henni.  Ég var nefnilega búi að fatta að ef ég færi að stoppa eitthvað og tala við hana, myndi hún sennilega trompast úr hræðslu.  Ég hljóp bara og velti því fyrir mér hvað það er stundum frábært að vera kall meðan Einar Örn í Purkinum var að syngja „Gluggagægi“

Þó að þessi saga sé ekkert sérstaklega merkileg og hún hafi í raun engan endi, þá lét sú hugmynd mig ekki í friðið, hver ábyrgð okkar kallana er rík.  Ábyrgð fyrir því að búa til og skapa óttalaust
samfélag.  Væri ekki frábært að búa í samfélagi þar sem konur gætu bara farið út að hlaupa þegar þeim sýndist?  Ég hef svo sem enga lausn á þessu, en hluti af lausninni hlýtur að snúa að lengri dómum í svona kynferðis-brota málum.  Ekki sem „betrun“ eða þvíumlíkt fyrir gerandann, heldur einfaldlega að taka þessi viðrini úr umferð.

Þetta mál hefur líka samfélagslegan vinkil.  -Hinir sterku eiga að passa upp á hina veiku.  Það er reyndar á skjön við lífsýn eins stjórnmálaflokks á Íslandi, en þar er æskilegasta samfélagsgerðin sú þar sem allir hugsa um sjálfan sig.

Við kallarnir skulum passa upp á fólkið okkar. Passa upp á samfélagið okkar.  Sjá til þess að fólk sé óhrætt.  Þetta er ekki spurning um val, heldur er þetta skylda.

-Þetta er skylda okkar.

-o-o-o-o-o
Og fyrir þá  sem trúa þessu ekki með Krókódílamanninn og Gluggagægi er bent á þetta skjáskot úr playlistanum mínum frá því í fyrra.

Site Footer