VASELÍNSMURÐAR SKOTGRAFIR

Það hefur tekist.  Forsetakosningarnar hafa snúist um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega ESB aðild.  Andstæðingar ESB standa einhvernvegin í þeirri trú að Ólafur Ragnar muni standa í vegi fyrir „óheppilegri“ niðurstöðu úr mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB.

Þetta er hinsvegar mjög fyrirséð og mjög í anda þeirrar umræðuhefðar sem hefur ríkt á Íslandi frá því að elstu menn muna.  Umræðuvöllurinn er ónýtur og maður fær á tilfinninguna að þetta sé með ráðum gerti.  Auðvitað er þetta óþolandi en eins og hestur sem er barður, þá leita íslendingar alltaf aftur til kvalara síns.  „Comfort zone“ hinnar íslensku umræðu eru tvær fylkingar sem eru að reyna að koma höggi á andstæðinginn sinn með einhverju móti.  Umræða.  Gagnleg umræða.  Upplýsandi umræða er einfaldlega ekki hluti af þessu mengi.

Þetta er jafn ótrúlegt og það er óþolandi.

Núna er frábært dæmi um þetta að gerjast í komandi forsetakosningum.  Gulltryggt er að það verður aldrei talað um hið tvöfalda löggjafarvalda -módel sem Ólafur Rangar hefur komið á og hyggst treysta í sessi. það verður aldrei talað um inntak embættisins og sérstaklega ekki í ljósi nýju stjórnarskrárinnar sem vonandi verður að veruleika.  Það verður aldrei talað um misnotkunina á forsetaembættinu á útrásartímanum og hvernig ætti að bregðast við henni.  Það verður einfaldlega ekki talað um neitt nema að mögulega muni Ólafur Ragnar neita að skrifa undir lög sem varða niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það verður ekki talað um neitt en það verður öskrað þeim mun meira.

Enda er það í anda hinnar íslensku umræðuhefðar.  Þegar virkjanadeilurnar stóðu sem hæst var þessi staða uppi:  Þeir sem settu spurningamerki við risavirkjanir, eðli þess að vera hráefnisútflytjandi, mengun, náttúruskemmdir var mætt með þessari spurningu:  „Ertu á móti rafmagni“.  Eða „Það geta ekki allir verið grasafræðingar“.

Þegar Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra,  gerði grín af fólki fyrir í biðröðinni fyrir utan Mæðrastyrksnefnd, var þeim sem gagnrýndu hann fyrir þetta, mætt með hugmyndinni um málfrelsi.  „Má forsætisráðherra ekki tjá sig“ var sagt af hneykslunarþótta.

Núna, þegar fólk stillir upp spurningum við hið nýja löggjafarvaldsmódel Ólafs Ragnars, er þeim mætt með tuskunni „viltu að Íslandi sér stjórnað frá Brussel“.  þegar fólk setur 20 ára valdatíma eins  forseta í sögulegt samhengi, er svarið: „Ertu að vonast eftir starfi hjá ESB?“.  Þegar minnst er á kynþáttahyggðar ræður Ólafs Ragnars á alþjóðavettvangi er svarið „Viltu að börnin okkar sé fallbyssufóður hjá ESB hernum“  Svona hefur þetta verið og því miður sé ég litla breytingu hér á.  Það er eiginlega bara ein skýring á þessu hörmulega ástandi.

Lélegt fjölmiðlauppeldi og inngróið hreppa-mentalítet –  sem margir rugla saman við ættjarðarást.

Í félagi við Baldur Kristjánsson hef ég skipt mér af flóttamannamálum á Íslandi.  Þetta höfum við gert með greinaskrifum, bréfaskrifum og óteljandi símtölum.  En þeir sem ekki vita, eru flóttamannamál í algerum ólestri á Íslandi.  Börnum er stungið í fangelsi, alþjóðlegir sáttmálar rofnir og skammarleg framkoma viðhöfð við fólk sem leitar til Íslands með lífið í lúkunum.

Í athugasemdakerfinu við bloggið mitt kristallaðist forheimska hinnar íslensku umræðuhefðar.  Sumir athugasmda-setjarar höfðu miklar skoðanir á flóttamannamálum en vissu ekki einu sinni hvað hugtakið flóttamaður innifelur.  Umræðan fór beint inn í einhverja samanburðarþvælu á islam og kristni.  Rann beint ofan „umskurn kvenna“ umræðuna og fátækrahverfin fyrir utan Gautaborg.

Það er eins og sumir skilji ekki – eða geti ekki skilið – að til er fólk sem hrekst hingað til lands í örvæntingu sinni, umkomulaust og einasta hálmstrá þess er góðvild ókunnugra. Hér fyrir neðan er dæmi um íslenska umræðuhefð þegar kemur að málefnum flóttafólks.

Nú þarf ég auðvitað að bæta við að í hugum margra er risastórt samasem merki milli þess að fá stöðu flóttamanns og að gerast íslenskur ríkisborgari.  Margir gera engan greinarmun á þessu tvennu.  Í tilfelli drengjanna sem dæmdir voru til fangelsisvistar, mæli ég með að við snúum dæminu við.  Hvernig yrðu viðbrögðin ef að íslenskir drengir sem gætu
ekki sannað aldur sinn, yrðu dæmdir í fangelsi í einhverju öðru landi? – Eða –  Hvernig myndu íslenskir dómstólar bregðast við 3 hvítum strákum sem ekki gætu sannað aldur sinn?

Skoðum það.  Spyrjum okkur að því.   Tökum svo næsta skref og spyrjum okkur spurninganna sem eru komast ekki uppúr  vaselínsmurðum skotgröfunum.

Byrjum á spurningunni um hvort það sé sniðugt að hafa pólitískan forseta sem stöðugt er í andstöðu við þingið.  Spyrjum okkur hvernig sú mynd endar?  Var það hugmyndin að forsetaembættið yrði á pari við það sem er í Hvíta Rússlandi?  Getur verið að stór og erfið mál, eyðileggist í meðförum þingsins, vegna þess að vitað er að forseti mun vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu?  Til hvers erum við þá með lýðræðislega kjörið þing?  Er valdamikill forseti fleinn inn í þingræðið?  Leiðir þetta tvöfalda löggjafarkerfi til harðari átaka?  Er það til gagns eða ógagns?

Gagn eða ógagn.  Lykilhugtök í allri pólítískri greiningu.

Sé reynt að svara þessum hugtökum í samhengi við hitamál, gæti umræðan batnað til muna.  Er gagn af þessu, fyrir hvern og hversvegna.  Gerir þetta ógagn, fyrir hvern og hversvegna.

Site Footer