VARNIRNAR BRESTA Í LANDSBANKANUM

Ég hef að undanförnu bloggað um Borgunarmálið  enda er það mál svolítið sér á parti af ýmsum ástæðum.   Í fyrsta lagi er það frekar einfalt.  Í öðru lagi tengist það formanni Sjálfstæðisflokksins og í þriðja lagi eru óvenju miklir peningar í spilinu.

Nú er best að taka fram að því meira sem ég velti þessu máli fyrir mér, hallast ég að eftirfarandi niðurstöðu.

  1. Bjarni Benediktsson er ekki tengdur inn í þessi viðskipti.
  2. Landsbankinn var gabbaður rækilega þegar hann seldi hlutinn í Borgun til fyrrverandi stjórnenda Borgunar.

Varðandi fyrsta lið þá er það bara staðreynd að stjórnendur Borgunar voru á höttunum eftir hlut LB í Borgun.  Þeir hópuðu saman hópi fjárfesta í þessari viðleytni og svo vildi til að einn þeirra var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum. Ef að Bjarni Benediktson er með puttana í þessu þá væri hann skyggn eða ófreskur.

Varðandi punkt 2 þá held ég að tímalína samningana varpi ljósi á hvað gerðist þegar Landbankinn ákvað skyndilega að hafa ekki fyrirvara um mögulegan hagnað af sölu á VE til stjórnenda Borgunar en ákvaðu að hafa fyrirvara um hagnað af sölu Visa Europe til Arion banka (sem er keppinautur Landsbankans).  Það er vitað að LB stóð í samningaviðræðum við stjórnendur Borgunar um Borgun og við Arionbanka um hlut í Valitor á sama tíma.

Líklegt má telja að stjórnendur Borgunar hafi áttað sig á því að kaup Visa Inc á Visa Europe hafi verið yfirvofandi og ákveðið að drífa í að loka samningnum áður en það yrði um seinan.  Þeir hafa sjálfsagt komið með gott tilboð með þröngum tímaramma og lokað dílnum.  Þá voru þeir í höfn.

Og hvað gera stjórnendurnir þegar þeir eru með dílinn og vita af yfirvofandi kaupum Visa Inc á Visa Europe og skilmálum mögulegra arðsemisgreiðslna sem tengdust veltu Borgunar?

Jú þeir settu allt á fullt og óðu af stað í frekar áhættusöm viðskipti sem tengjast internetklámi og þessháttar.  Ástæðan var til að stækka veltu Borgunar enda var hún ráðandi breyta í mögulegum arðgreiðslum þegar Visa Inc keypti Visa Europe. . . Þetta er mjög áþekkt því þegar útgerðir fara af stað eins og enginn sé morgundagurinn til þess að veiða einhvern fiskistofn, sem vitað er að er að fara í kvóta og úthlutun hans er tengd veiðireynslu.

Nákvæmlega sama upp á teningnum hjá Borgun þegar fyrirtækið var komið í eigu stjórnendanna fyrrverandi.  Allt sett á fullt og efnahagsreikningurinn stækkaður í miklu áhættubrjálæði.

Þetta segir sig eiginlega sjálft enda er þetta raunin. Þessi atburðarás átti sér einfaldlega stað.

 

Landsbankinn var hinsvegar eftir að loka samningnum um Valitor.  Þá er eins og eitthvað hafi gerst.  Eitthvað hafi fréttst og skyndilega er kominn inn fyrirvari um að ef Visa Inc keypti Visa Europe  myndi arðurinn af þeim viðskiptum renna til Landsbankans.

-Er Það furða að fólk tortryggi þessi viðskipti.  Einn færi súperdíl, ekki hinn.

Þetta þýðir að hér er annaðhvort að ræða grófa spillingu sem mun færa nokkrum köllum alveg shitload af peningum (talað um tugi miljarða) og samkvæmt þessari sviðsmynd er Landsbankinn hluti af fléttunni og þar með ofinn inn í spillinguna með ósvífnum hætti.

Eða

Að Landsbankinn hafi áttað sig á því að hann hafi veirð plataður og sett inn fyrirvarann sem þeir klikkuðu á, inn í söluna á Valitor. Þetta stemmir við tímalínu atburðanna.

Aðrir möguleikar eru ekki í stöðunni. Ekkert annað getur útskýrt þessa hróplegu furðu, að stjórnendur Borgunar fái súperdíl, en ekki Arionbanki.  Ég sé að minnsta kosti neina aðra möguleika.

Þá er bara að skoða hvað sé líklegra. . . .Svindl eða fúsk

Til að komast til botns í þessu mál þarf að skoða rækilega samningamenn Landsbankans í þessum viðræðum. Það hefur aldrei verið gert og nöfn þessa fólks aldrei komið fram. Líklegt má telja að um sé að ræða lögfræðideild Landsbankans og svarið við óeðlilegum tengslum samningafólks Landsbankans við fyrrverandi stjórnendur Borgunar fæst aðeins við skoðun á staðreyndum sem eru óhagganlegar.

lögfr

Varnir Landsbankans eru að bresta og eftir að hafa flúið úr einu horninu yfir í annað, viðurkennir bankastjóri Landsbankans að salan á Borgun hafi verið þess eðlis að slik verði ekki endurtekinn.  Forsætisráðherra hefur sagt söluna klúður og sömuleiðis fjármálaráðherra.  Nýlegt endurmat á verðmæti Borgunar staðfestir að  verðmæti Borgunar hefur þrefaldast eftir að fyrirtækið fór úr eigu Landsbankans.

Allt leiðir að sama brunni.

Í kvöld kom svo undarleg yfirlýsing frá Steinþóri Pálssyni þar sem hann allt að því viðurkennir að hafa verið plataður af stjórnendum Borgunar.  Segist ætla að „leita réttar síns“.  Sérkennilegt miðað við að fyrir tæpum tveimur vikum skrifaði Steinþór Pálsson bankastjóri grein í Fréttablaði þar sem hann kallaði áleitnar spurningar vegna Borgunarmálsins, „fráleitar“.

Og núna ætlar Steinþór að „leita réttar síns“.

-Gangi honum vel.

……Hér set ég broskall 🙂

 

Staðan er hinsvegar eftirfarandi og óumdeild:

Landsbankinn svo laskaður eftir Borgunarmálið að fráleitt er að sama stjórn og sami bankastjóri stýri þessari eign okkar skattgreiðenda.

 

Site Footer