VANDRÆÐI STJÓRNLAGAÞINGS

Ég bind miklar vonir við að stjórnlagaþing muni skila af sér tillögum til nýrrar stjórnarskrár sem kosið verður um einhverntíman á næstunni.

Núverandi stjórnarskrá er allt í senn, úrelt og óréttlát.  Úrelt því að mikilvæg atriði eins og t.d þau sem varða forseta Íslands eru óljós.  Þetta höfum við íslendingar fengið rækilega að kynnast að undanförnu þegar núverandi forseti virðist vera í einhverju pópúlista-sólói í erlendum fjölmiðlum og fer jafnan með staðlausa stafi sem blandað er saman viðþjóðrembu.

Óréttlát segi ég og á við 62. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um að allir Íslendingar skuli tilheyra kirkjudeild sem heiti „Þjóðkirkjan“ og að ríkið muni styðja við þetta tiltekna trúfélag.  Þegar ljóst var að breyta átti stjórnarskránni var ég sannfærður um að þessi grein yrði sú fyrsta sem fengi að fjúka.  En auðvitað var það þannig að einörð hagsmunabarátta minnihluta stjórnlagaráðsfulltrúa, stoppaði alla möguleika til þess efnis.

Ég sem hélt að smíði stjórnarskrár ætti að miða að því að búa til nánast tímalaust plagg um réttindi en halda úti hagsmunapoti síbreytilegra þrýstihópa. Eins furðulegt og það hjómar sumir stjórnlagaþingsfulltrúar (sem eru kosnir til að smíða nýja og réttlátari stjórnarskrá) hlyntir því að áréttuð sé í stjórnarskrá afstaða borgaranna til ósýnilegrar veru í himninum.

Þetta á þó að vera með ákveðnum snúningi því í stað núverandi ákvæðis um að ríkið skuli vernda trúfélagið Þjóðkirkjuna, á að koma inn annað sem kveður á um að ríkið skuli vernda ÖLL trúfélög.

-Talandi um að fara úr öskunni í eldinn.

Reyndar má kætast aðeins yfir því að trúaða fólkið komi auga á óréttinn 62. greininni og að nauðsynlegt sé að breyta henni.  En að útvíkka óréttinn til allra trúfélaga er einfaldlega „mindblowing“ eins og amríkski maðurinn myndi segja.

Það er nefnilega svo að allar þær stjórnarskrár sem taldar eru framsæknar og réttlátar hafa afar skýr skil á milli hins veraldlega og hins andlega.  Í ríkjum eins og Íran og Pakistan eru þessi skil óljós og öllu blandað saman.

-Með hroðlalegum afleiðingum.

Mér óar við þeirri tilhugsun að á fót verði sett ríkisapparat sem skrái hvaða  trúfélög séu „þóknanleg“ til  þess að „vernda“ og hver séu það ekki.  Svo má spyrja sig í hverju þessi vernd sé fólgin.  Erum við að tala um að ríkið borgi kaup safnaðarhirða eða presta eins og gert er í Þjóðkirkjunni?  Á ríkið að vernda stjórnsemis-brálæðinga sem lita á sjálfa sig sem „tæki almættisins“ til þess að framkvæma paradís á jörð.

-Mætti ég afþakka slíkt með hraði.

Mannkynsfrelsandi stjórnsemis-brjálæðingar hafa reynst illa á öllum tímum og allstaðaar og gersamlega fáránlegt að ríkisvaldið skuli „vernda“ svoleiðis.  Mér þætti óbærilegt að tilheyra samfélagi sem „verndar“ einhver félög sem grundvölluð eru á afstöðu til ósýnilegar veru í himninum.

Slíkt á ekki heima í stjórnarskrá.

Ég held að vandinn í þessu máli sé fólgin í einhverjum grundvallar misskilingi á tilgangi stjórnarskráa. Ég held að sumir stjórnlagaþingsfulltrúar haldið að stjórnaskrá sé spurning sem varði þjóðina í heild sinni.  Það er auðvitað misskilniingur.  Stjórnarskrá varðar fyrst og fremst einstaklingana sem mynda þjóðina.

Stjórnarskrá er einn risa stór samnefnari.  Samnefnari um réttindi.  Afstaða til ósýnilegar veru í himninum passar ekkert þarna inn.

-Ekki boffs.

Site Footer