VANDIÐ VALIÐ

Ég hef undanfarin kvöld verið að raða á stjórnlaga-þings-atkvæða-seðilinn minn.  Það er mjög skemmtilegt og útfærslan á kosning.is er algerlega til fyrirmyndar.  Ég hef aðeins tvennt til viðmiðunar þegar ég ráða inn á listann minn.


a)  Fulltrúarnir mínir verða að vera andstæðingar ríkiskirkjukerfisins.
b)  Jafnmargar konur og kallar verða á listanum mínum og raðað eftir fléttukerfi.
Ástæðan fyrir því að ég vil fólk sem eru andstæðingar ríkiskirkjukerfisins er svo sem einföld.  Þetta kerfi er ranglátt.  Það er fáránlegt að tekið sé fram í STJÓNRARSKRÁ einhvers ríkis um afstöðu þegnana til ósýnilegar veru í himninum.  Trú er einkamál en stjórnarskrá er ekki einkamál.  Ég hef um langa hríð verið andvígur ríkiskirkjukerfinu og verið meðlimur í Vantrú frá 2005.Ég veit vel að þetta mál er sannarlega ekki aðalmálið í nýrri stjórnarskrá, en ég held að þeir sem hafa spekúlerað í þessum hlutum af einhverju ráði hafi komist að sömu niðurstöðu og ég.  Ég held að við séum skoðana systkin á fleiri vígstöðvum en bara þarna.   Þetta snýst nefnilega um réttlætisskilning og þetta er hafið yfir allt flokka-kjaftæði.Vegna þessarar kröfu minnar um aðskilnað ríkis og kirkju hef ég sent nokkrum frambjóðendum einfaldan tölvupóst þar sem ég vinsamlega fer fram á afstöðu þeirra til málefnisins.  Sumir hafa nefnilega ekki gefið neitt upp um afstöðu sína í þessu máli.  Það eru þó að finna ágætis síður sem þar sem fjallað er um afstöðu frambjóðenda til ríkiskirkjufyrirkomulagsins en ég rak mig á að suma frambjóðendur vantar á listana.

Svörin voru ágæt. Sumir svörðu eins og ég bað um, með einföldum hætti, skýrt og klárt.  Aðrir svöruðu á þann hátt sem ég er alveg skíthræddur við.   Þau svörðuð með moði.  Svöruðu í löngu máli þar sem þau sögðu að málið væri flókið en þau væru tilbúin til að skoða allar hliðar þess en um leið að gæta að sérstöku sambandi milli þjóðarinnar og trúfélaga.  Eitthvað svona…

Þetta er einmitt það sem þarf ekki.  Stjórnarskrá á að vera skýr og auðskilinn.  Ég held líka að sumir stjórnlagaþings frambjóðendur skilji ekki hlutverk stjórnarskráa.  Ég fékk á tilfinninguna að sumir frambjóðendur vilji bara „taka þátt í vinnu“ við nýja stjórnarskrá.  Hlusta á tillögur og vega þær og meta í þverfaglegum vinnuhópum.   -Þetta er af og frá.

Við eigum að kjósa frambjóðendur vegna skoðana þeirra en ekki hæfileika í þverfaglegum vinnuhópum í tvíþættu þríhyrningsteymi.  Ég er sannfærður um að vinna við nýja stjórnarskrá þarf ekkert að taka mikinn tíma, en auðvitað þingið að fá eins mikinn tíma og það vill.  Stjórnarskrár eru ekkert flóknar í eðli sínu.  Stjórnarskrár eru grundvallarplögg.  Sumt á ekkert heima þar þótt það sé mikið réttlætismál.  Mér finnst t.d fáránlegt að taka fram í stjórnarskrá að vernda íslenska tungu eða að gera táknmál jafnhátt íslensku á hinu opinbera sviði.   -Sumt á ekkert heima innan vébanda stjórnarskrárinnar..

Allt  í kringum okkur eru fínar stjórnarskrár.  Sérstaklega myndi ég líta til Austur Evrópu  þar sem er að finna splunku-nýjar stjórnarskrár. Suður Ameríka hefur löngum verið suðupottur fyrir mannréttindahugmyndir og full ástæða til að skoða vel stjórnarskrár þeirra ríkja sem telja álfuna.  Svo er stjórnarskrá Bandaríkjanna gulls í gildi þrátt fyrir nokkuð háan aldur og furður á borð við ákvæði um vopnaburð.

Í núverandi stjórnarskrá er mikið moð og hún er í þversögn við sjálfa sig á mörgum stöðum.  T.d er kveðið á um í 62. grein að þjóðin skuli tilheyra trúfélaginu „Þjóðkirkjan“, en svo kemur klausa um að allir skuli njóta trúfrelsis !!!  Einnig er talað um að engan skuli neyða í félög, en það skarast líka á við 62. grein.  Auðvita hafa sprottið upp allskonar útskýringa-sérfræðingar um þessar þversagnir og sagt þetta vera „farsælt kerfi“ en stjórnarskrá ágætu lesendur, er samansafn grundvallarreglna.  Og þær mega aldrei vera huldar moðreyk.

Þær verða að vera kristal-skýrar.

Site Footer