VANDALISMI Í REYKJAVÍK

Ég á heima í Gautaborg. Hún er næst stærsta borg Svíþjóðar með 515.000 íbúa. Í „Stór-Gautaborg“ búa um það bil miljón manns. Höfnin í Gautaborg er risastór og borgin er hard-core iðnaðarborg. Í borginni slær hjarta hins mikla sænska iðnaðar. Samt er hreinni og umgengni íbúana um borgina sína er mikið betri en í Reykjavík.

Það er ekki svo aumur veggfermeter í Reykjavík, að hann sé ekki útbíaður með óskiljanlegum skilaboðum frá einhverjum veggjakroturum. Þetta er böl og hefur lengi verið. Nú vil ég áður en lengra er haldið taka fram að ég er hrifin af graffiti. Sumar myndir sem eru sannarlega til prýði og lífgar upp á (d)auða veggi. Sumir graffarar eru geysilega flinkir og ég tek hatt minn ofan fyrir þeim Graffið er líka skotspónn veggjakrotsins. Flottar myndir eru eyðilagaðar af veggjakrassandi skemmdarvörgum.

Veggjakrot er stundum kallað „tagg“ og Reykjavík er útbíuð í svona taggi. Fyrir vikið virkar borgin skítug og niðurdrepandi. Veggjakrotarar skirrast einskis og skrifa á hvað sem er og skeyta engu um verðmæti eða vinnu fórnarlamba þeirra.

Til er aðferð í múrbransanum sem heitir „steinun“. Það er afar dýr framkvæmd og tímafrek. Félagi minn á litla íbúð í húsi sem er verið að steina, og reikningurinn fyrir húsið hljóðar upp á margar miljónir. Steinun felst í því að steinmulningi er kastað á blautan múr sem festist þegar múrinn harðnar.

Þegar einhver veggjakrotari sprautar bílalakki á steinað hús, er hann að eyðileggja alla þá hlið hússins því útilokað er að lagfæra steinað hús með háþrýstiþvotti á einangruðu svæði. Blæbrigðamunur sést alltaf þegar lagfæringar eru reyndar á steinuðum múr. Til að vel sé gert, þarf að hreinsa alla hliðina með þrýstiþvotti og steina upp á nýtt. Tjón vegna veggjakrots á steinuðu húsi er því gífurlegt og hleypur á miljónum!

Þetta hús stendur við Vonarstræti. Nýsteinað og fínt en einhver fáviti sá sér leik á borði og krassaði það út með spreybrúsa. Ég finn til með eigendum hússins og vona að þetta skemmdarverk verði kært til lögreglunnar.

Ég hvet íbúa Reykjavíkur að skera upp herör gegn þessum ófögnuði með öllum ráðum tiltækum. Höfum í huga að gerendurnir eru þekktur hópur og alveg öruggt að með fundarlaunum er hægt að hafa hendur í hári þessa tiltekna fávita sem eyðilagði nýsteinaðan múr með veggjakroti.

Svo ég endi þar sem ég byrjaði, í Gautaborg. Þar er í gangi stefna sem gengur út á að hart er tekið á veggjakroti og allstaðar þar sem ekki má krota, og krot birtist, er málað yfir það innan 24 klukkustunda. Viðurlög og sektir eru geysiháar við veggjakroti og farið með svona mál eins og hver önnur lögbrot með kæru, fjársektum og refslingu við hæfi.

Site Footer