UPPÁHALDS SJÁLFSTÆÐISMAÐURINN MINN

Uppáhalds Sjálfstæðismaðurinn minn, Tryggvi Þór Herbertsson setti ræðuna sína frá eldhúsdagsumræðunum á Alþingi á bloggið hjá sér.  Eins og venjulega þá er ég ósammála Tryggva Þór en það var eitt atriði sem stuðaði mig.

Ekki síst vegna þess að ég hef séð hann halda þessu fram áður.  Tryggvi Þór Herbertsson gerist hér uppvís af öðru hvoru, einfeldningshætti að hætti galgopa eða vísvitandi sundursnúningi á alvarlegu máli sem varðar okkur öll.

Þarna tekur Tryggvi mitt árið 2008 sem einhvern punkt sem gæti talist eðlilegur grundvöllur fyrir viðmið. 2008 ágætu lesendur.  Korteri fyrir hrun.

Nú dreplangar mig að setja broskall, en það væri hótfyndni af verstu sort.

Óglöggum til útskýringar var árið 2008 ekkert sérstaklega dæmigert fyrir efnahag Íslands. Á þessum tímapunkti var efnahagskerfið um það bil að springa í tætlur vegna þenslu.  Það var skortur á vinnuafli í öllum geirum atvinnulífsins og erlendingar flykktust hingað vegna hárrar krónu og hagstæðra skatta.

2008 var ekkert venjulegt ár og ég er alveg hand-viss um að hagfræðioprófessorinn viti það vel.  Það vekur því upp þá áleitnu spurningu, hvort Tryggvi Þór herbertsson sé að nota þetta ártal vegna þess að þannig er hægt að búa til mesta sensasjónina í röksemdafærslunni um hvað ríkisstjórnin hafi staðið sig illa við að „búa til ný störf“..  Hinn möguleikinn er að Tryggvi hafi bara tekið eitthvað ártal til viðmiðunar.

-Nokkuð sem ég tel nánast útilokað.

Það sem ég á við með þessari hugleiðingu er að ódýr trikk eins og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður og hagfræðiprófessor notar, skilar engu fyrir umræðuna.  Svona trikk festa bara umræðuna á stigi sem flestir Íslendingar eru búnir fyrir löngu að fá leið á.

-o-o-o-

Lesendum til upplýsingar þá ætla ég ekki í meiðyrðamál við Tryggva Þór Herbertsson þótt hann hafi kallað mig „brunnmíg“, „rugludall“, „þvottekta flón“ og „genuine fool í öllum skoðunum“.  Mér dettur það ekki í hug.  Ég þoli vel svona gusur.

-Ég er meir að segja nokkuð viss um að Tryggvi Þór haldi pínulítið með mér í Gunnlaugsmálinu sem ég er að berjast í gegnum þessa dagana.  Þetta er prinsippmál sem snýr að málfrelsi og það er hafið yfir persónur.

Enginn trix duga til að snúa upp á þá staðreynd.

 

Site Footer