UNDARLEG STÍLBRÖGÐ BJÖRNS BJARNASONAR OG VERND HEIMILDAMANNA

Björn Bjarnason heldur áfram að tjá sig um athugasemdir mínar vegna ritsmíðar sem hann og Styrmir Gunnarsson skrifuðu og fengu 4.5 miljón króna Alþingis-styrk fyrir. Björn fer ekki með rétt með þess vegna er nauðsynlegt skoða staðreyndir málsins.

Björn Bjarnason fer í Evrópusambandsför og hittir mikilvægt fólk. Þingmenn, bankatoppa og svoleiðis. Einhverra hluta vegna er ekki vitnað í þetta fólk beint eins og eðlileg heldur dregin leyndarhula yfir viðmælendurna Evrópusambands-andstæðingurinn Sören Söndergard virðist breytast í meðförum Björns í „ýmsir segja“. Hví mátti ekki bara nafngreina manninn? Hann er fulltrúi Dana á Evrópuþinginu? Hefur Sören eitthvað að fela? Hvað skyldu kjósendur hans segja við því? Hvað var svona eldfimt sem varð þess valdandi að nafn Sörens mátti ekki koma fram? Getur einhver svarað því? Voru viðmælendur Björns í hættu? Gátu þeir misst vinnuna ef yfirmenn fréttu af viðtalinu?

Áttu viðtölin sér stað í bílageymslu að næturþeli?

Fólkið sem Björn talaði við er virt fólk á sínu sviði. Klárt fólk sem hefur náð langt. Ég veit það. Björn lét senda mér lista með nöfnum þess. Hvað í ósköpunum var til þess að Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson ákváðu að fela þetta fólk á bak við frasa um „ýmsa menn“ eða „viðmælandi minn“ eða „stuðningsmaður Angelu Merkel“. Þetta verður ennþá skrýtnara þegar haft er í huga að Björn og Styrmir hafa sennilega 50 ára samanlagða fjölmiðlareynslu. Þetta er ekki léttvigtarfólk sem Björn talar við og stórkostlega furðulegt að draga úr trúverðugleika viðtalanna með því að fela fólk eins og Sören Söndargård bak við „ýmsa menn“.

Þetta er þungamiðjan í gagnrýni minni. Ekki hugleiðingar hvort Björn hafi hitt þetta fólk. Ég vil vita afhverju ekki má nefna þessa viðmælendur á nafn. Fréttagrein sem skautar frá nöfnum viðmælenda sinna og styðst við „ýmsir segja“ eða „viðmælandi minn heldur því fram að“ vekja óneitanlega upp tortryggni.

Ég er orðin þreyttur á þessum „ýmsum“ sem Moggaritstjórnarnir eru alltaf að vísa í.

Í lok dagbókarfærslu sinnar sagði Björn mig vilja kenna sér blaðamennsku. Þetta er vel í lagt hjá Birni. Ég sagði þetta aldrei. Björn segir ennfremur að „Virðing fyrir heimildarmönnum og vernd þeirra er eitt grundvallaratriða í blaðamennsku“

Stöldrum nú við og pælum aðeins í hvað átt er við með „vernd heimildamanna“. Höfum í huga að flestir blaðamenn myndi fara í fangelsi áður en að gefa upp svo lítið sem upphafsstafinn í nafni heimildamanna sinna. Þetta er svo mikið grundvallaratriði að um blaðamenn gilda sérstök lög þegar kemur að heimildamönnum. Höfum það í huga þegar Björn spyrðir vernd til handa heimildamönnum saman við ritsmíðina.

Björn birtir nefnilega nöfn þessara 40 sem hann talaði við í hjálögðu plaggi sem Alþingi mátti bara sjá! Hvaða virðring fyrir heimildamönnum er það að leyna nöfnum þeirra fyrir almennum lesendum, en leyfa útvöldum að sjá þau? Virðingin var ekki meiri en svo hjá Birni að hann bað um að mér yrði sendur þessi nafnalisti. Ég segi að sjálfsögðu takk en þetta pukur með nöfn á viðmælendum Björns Bjarnasonar hefur ekkert við vernd heimilmanna að gera.

-Ekkert.

Mér finnst þetta ekkert merkileg vinnubrögð og er sannfærður að ef þetta væri verkefni í skóla, yrðu þeir félagar frá Mogganum að skrifa þetta aftur upp. Ég hef aldrei séð 44 síða grein, eða blogg eða hvað á að kalla það, sem fjallar um spennandi og knýjandi mál, vera með topp-heimildafólk sem ekki er getið í ritsmíðinni sjálfri, en bara í fylgiriti fyrir útvalda að sjá.

Ég held að ástæðan fyrir leyndarhyggjunni er tvíþætt. Það er stemning í henni. Innmúrðaðir gefa hvor öðrum augnagotur og stinga saman nefjum. Þetta er í raun viðbragð gegn leiðindum og ákveðnum manngerðum visst lífsinntak. Þetta er hluti af „við / þið“ samfélagssýninni sem er vinsæl í vissum kreðsum.

En aðal ástæðan fyrir leyndarhyggjunni er að í henni felst vörn gegn gagnrýni. Það er erfitt að hafa samband við „ýmsa menn“ þegar ummæli eftir þá kalla á skoðun.

Það er sorglegt að það þurfi að toga svör við einföldustu spurningum með töngum frá þessum talsmönnum gagnsæis og „heiðarlegrar og opnar umræðu“. Mér finnast t.d. vangaveltur um hvort eðlilegt sé að Alþingisstyrkur sé notaður til þess að greiða yfirvikt fyrir Björn Bjarnason fullkomlega eðlilegar og ekkert þurfa að vera neitt skuggaspil.

Þar erum við Björn ósammála eins og gefur að skilja.

Site Footer