UMSÆKJANDI: FINNUR INGÓLFSSON

Ráðning Páls Magnússonar í embætti forstjóra Bankasýslu ríksins hefur óteljandi fleti.  Það er hægt að nefna að hann var eini umsækjandinn sem ekki fyllti skilyrði þau sem sett eru í lögum um stofnunina.  Það má nefna að formaður stjórnar Bankasýslunnar, maður að nafni Þorsteinn Þorsteinsson, sagði að ákveðið hefði verið að horfa framhjá þætti Páls við sölu ríkisbankana á sínum tíma.  En eins og allir vita þá voru bankarnir afhentir vildarvinum Framsóknarflokks (Búnaðarbankinn) og Sjálfstæðisflokks (Landsbankinn).

Þetta er álíka og að segja að ákveðið hefði verið að horfa framhjá sakfellingu einhvers fjárdragara þegar valið er í embætti bókara í einhverju fyrirtæki.

Svo má nefna einn punkt sem mér þykir merkilegur.

Ímyndum okkur að Finnur Ingólfsson hafi verð einn umsækjanda.  Samkvæmt sömu kríteríu og varð þess valdandi að Páll Magnússon var ráðinn í embættið, er ljóst að Finnur hefði skorað hærra og verið valin fram yfir Pál. -Og hina umsækjendur náttúrulega.

Finnur Ingólfsson væri þá formaður bankasýslu ríkisins.—-

Þetta sýnir að það er ekkert hægt að horfa framhjá pólitískum tengslum þegar kemur að þessari ráðningu.  Páll Magnússon er engin léttvigtarmaður í stjórnmálum þótt hann hafi sagst vera hættur afskiptum af stjórnmálum 2006.  Í því ljósi er spélegt að hann  bauð sig m.a fram til formanns Framsóknarflokksins árið 2008. Í yfirlýsingu sem fylgdi framboðinu sagði hann m.a „Segja verður skilið við samtryggingu stjórnmálanna og ógagnsæ vinnubrögð“.

-Takið eftir orðunum „samtryggingu stjórnmálamanna“.

Ég horfði á Silfrið í gær og varð eiginlega kjaftstopp þegar Ómar Valdimarsson sem kynntur var sem gamalreyndur blaðamaður, sagði að það ætti bara að „gefa Páli tækifæri á að sanna sig“.  -Það á einmitt ekki að gefa honum tækifæri. Það sætir furðu að gamalreyndur blaðmaður skilji ekki grundvallar réttlætis prinsipp samfélagsins.

Þeir sem eiga að fá tækifæri í þessu máli eru þeir umsækjendur sem uppfylla hæfisskilyrðin.  -Engir aðrir og sértaklega ekki þeir sem áttu þátt í því að eyðileggja efnahagskerfið með samblæstri viðskiptalífsins og stjórnmálalífsins eins og Páll beinlínis vann við í ráðuneyti Finns Ingólfssonar og Valgerðar Sverrisdóttur.

.
..

….
…..
……
…….

Á morgun klukkan 06 birti ég upplýsingar sem gætu haft afgerandi áhrif á þróun þessa máls.

Site Footer