kdkdkdkdkdkkdkdkdkdkd

UMHUGSUNARVERÐ BLAÐAGREIN

Í Fréttablaðinu í gær birtist athyglisverð grein eftir ríkiskirkjuprestinn og borgarfulltrúann, Bjarna Karlsson. Í greininni skammast Bjarni út í ný-afgreidda tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur um samskipti leik og grunnskóla við trúfélög hverskonar.Af lestri greinarinnar mætti ætla að Mannréttindaráð Reykjavíkur væri að slíta á eldgömul tegnsl milli trúfélaga annarsvegar og skólastarfs hinsvegar.
Staðreyndin er reyndar sú að ásókn trúfélaga er tiltölulega ný af nálinni. Ásókn ríkiskirkjunnar inn í skólana virðist standa í beinu samhengi við fækkun safnaðarmeðlima hennar. Ríkiskirkjan lítur á aðkomu inn í skólana sem „stórkostlegt sóknarfæri“ eins og Karl Sigurbjörnsson sagði ekki fyrir svo löngu. Í þessi samhengi er einnig gott að minnast orða ríkiskirkuprestsins Guðmundar Guðmundssonar sem sagði í samhengi við trúboð ríkiskirkjunnar í leikskólum: „Það vill nú svo heppilega til að börn eru gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus„.Trúgjörn og grandalaus börn. – Verum þar!

Í grein Bjarna Karlssonar segir hann að Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar sé verið að jaðarsetja öll börn og allar þær fjölskyldur sem rækja kirkjustarf í Reykjavík. Það er eiginlega sama hvað ég reyni. Ég kem ekki auga á „punktinn“ i þessari röksemdafærslu. Ég skil ekki hvernig jaðarsetning það er, þegar trúfélögum er meinaður aðgangur að krökkunum á skólatíma.

Ég skil ekki heldur erindið sem prestar eiga að hafa við skólabörn á skólatíma. Hvað eru þau eiginlega að vilja krökkunum? Erum við að tala um að fulltrúar ríkiskirkunar séu innan um krakkana í frímínútum? Í hádegishléinu? Inn í kennslustofum í stærðfræðitíma? Hvernig er þessi aðkoma trúfélagana eiginlega hugsuð? Því hefur Bjarni aldrei svarað nema eins og véfréttin í Delfí.

Ein af grunnforsendum fjölmenningarsamfélagsins og nútíma réttarfarshugmynda er sú einarða krafa að að allir séu jafnir fyrir lögum og að eitt hið sama skuli yfir alla ganga.

Þetta er svolítið sérstakt, því að Bjarni Karlsson virðist bæði vilja halda í þessa kröfu og sleppa henni á saman tíma. Hann mærir fjölmenningarsamfélagið og fjölbreytinleikann en um leið gerir þá kröfu að önnur trúfélög sem kunna að hafa aðrar skoðanir á eilífðarmálunum skuli hafa takmarkaðan aðgang að skólunum. Talar um að „skakka leikinn“ í þessu samhengi.

Ég þekki ágætlega til hugmynda kristindómsins í gegnum tíðina og hef meir að segja lokið BA prófi úr guðfræðideild. Ég get því alveg fullyrt að túlkanir á kristindómnum eru óteljandi og enginn réttari en önnur. Innan Þjóðkirkjunnar sjálfrar er mikil meiningamunur á guðfræðilegum áherslum sem skýrist kannski best á deilunum um réttindi samkynhneigðra innan kirkjunnar.

Gefum okkur að hugmyndir Bjarna verði að veruleika og fulltrúi ríkiskirkjunnar sé með einhverskonar eftirlit eða sálusorgun á göngunum eða inn í tíma. Hvernig myndu foreldrar taka í það að vita af íhaldssömum svartstakki vera að leiðbeina eða sálusyrgja nemendur grunnskólanna? Ég er ekkert viss um að slíkt myndi falla vel í nokkurs kram.

Þessar hugmyndir Bjarna um óheftan aðgang trúfélaga innan skólana er í raun stór furðuleg. Ég sé fyrir mér allskonar andans leiðtoga vappandi um skólalóðina, inn í frímínútum og inn í tímum að „vera til staðar“ fyrir þennan og hinn. Múhameð litli fær heilan múlla meðan Jósafat í 7-B er með fulltrúa hvítasunnusafnaðarins til halds og trausts. Meirihluti nemenda er svo með Vilbert úr barnastarfi ríkiskirkjunnar sem „sholder to cry on“ enda er hann alveg frábær. Hann huggaði samkynhneigðu stelpuna í 10-T á því aðsegja að guð hataði hana ekki fyrir tilfiningarnar sem hún ber í brjósti enda umber guð allt.

Sjáiði hvert ég er að fara? Þetta verður einn risastór basar þar sem prestarnir keppast um sálir hinna „heppilega leiðitömu og trúgjörnu“.

Með þvi að reyna að troða sjálfri sér inn í skólastarf, er ríkiskirkjan komin inn á hugmyndafræðilegt sprengjusvæði. Því lengra sem stigið er, þeim mun fleiri varnaðarorð verða hrópuð. Það er svo sérkennilegt að helstu rökin gegn þessari átroðslu ríkisskirkjunnar, eru byggð á mannréttindasjónarmiðum. Mannréttndasjónarmiðum sem ríkiskirkjan þykist hafa í heiðri en er um leið grundvöllur fyrir átroðslunni.

Orðrétt segir Bjarni:

„Loks vil ég benda á þá alvarlegu rökvillu sem fólgin er í hugmyndinni um hlutlausan, ógildishlaðinn vettvang í skólum borgarinnar. Það er almenn félagsvísindaleg vitneskja að hvert félag og stofnun hefur sín gildi, meðvituð og ómeðvituð. Hver persóna ber með sér sinn skilning á heiminum og ber vitni þeirri heimsmynd sem hún hefur eignast“.

Þarna er Bjarni að kynna okkur fyrir alveg hroðalegri hugmynd. Hugmyndinni um félagslega afstæðishyggju. Hugmyndin gengur út á, eins og Bjarni nefnir, að hver og einn hafi sinn skilning á heiminum. Þetta þýðir líka að skilningur á t.d hlutum eins og réttu og röngu, er lika undirorpið persónulegri skoðun. Stundum er hugmyndin yfirfærð á menningu ólíkra svæða og kallast þá menningarleg afstæðishyggja. Hana má vel greina í trúarlegri umræðu á Islandi og þá aðallega í trúvarnarskyni.

Í Svíþjóð þar sem ég bý, eru afleiðingar menningarlegrar afstæðishyggju einfaldlega skelfilegar og Svíar loksins búnir að átta sig á því. Kynbundið ofbeldi sumra innflytjandahópa er t.d afgreitt sem „menningarleg afstæðishyggja“ og verður einhvernvegnin léttvægara í meðförum lögreglu og dómstóla. Ólæsi kvenna og barnagiftingar sömuleiðis. Umskurður stúlkubarna var á tímabili vandræðamál þótt ótrúlegt megi virðast og afgreitt sem „menningarlegt afstæði“ -og var látið ótalið þó það sé ekki gert núna.

Í stuttu máli gengur menningarleg afstæðishyggja út á að engin sérstök skil séu á milli hins rétta og þess ranga. Allt sé einhverstaðar á gráa svæðinu. Hugsum okkur nú aðeins um hvort menningarleg afstæðishyggja sé eitthvað sem æskilegt sé að nota sem leiðarljós í skólum landsins! Hugsum okkur að skólar innprentuðu nemendum að ekkert sé rétt og ekkert sé rangt. Að skilin milli staðreynda og lygaþvælu séu óljós. Svona heimsmynd myndar kjöraðstæður fyrir trúarstofnanir sem geta með góðu móti og ágætri samvisku, sagt við fólk að heimurinn sé 6000 ára gamall, og að geimverur séu reglulegir gestir á Snæfellsjökli.

Ég get ekki undirstrikað nógu skýrt hvað félagsleg afstæðishyggja er slæm og hvað systir hennar menningarleg afstæðishyggja sé ill. Hafandi sagt þetta er ég ekki að taka einarða afstöðu með raunhyggju eða efnishyggju.

-Það er af og frá.

Alveg eins og að er fráleitt hjá Bjarna Karlssyni að halda því fram að það sé einhver sértök trúarleg afstaða fólgin í því að banna trúboð innan veggja skólanna í Reykjavík. Það er einmitt ekki -ekki trúarleg afstaða. Það þarf hugmyndafærðilegt flikk flakk til þess að komast að þeirri niðurstöðu og alveg sérstaka heimssýn þar sem svart er hvítt og rétt verður rangt.

-Allt eftir því hvað „manni finnst“.

Bjarni Karlssyni er tíðrætt um „menningarlegan tepruskap“ sem fólgin á að vera í því að banna trúboð í skólum og hindra aðkomu trúfélaga hverskonar í skólum landsins. Ég veit eiginlega ekki hverju á að svara, en ég myndi aldrei telja það menningarlegan tepruskap að halda frá skólum trúarboðskap eða innrætingu svartstakkanna í ríkiskirkjunni eða heimsendadýrkun hvítasunnusafnaðanna.

Með því að fara eftir hugmyndum Bjarna Karlssonar um aðkomu trúfélaga í skólum landins, er farið þvert á grunnskólalög og siðareglur kennara. Það er farið þvert á lög um persónuvernd. En það var einmitt á grunni persónuverndar sem að svokallaðri „Vinaleið“ var hætt í Garðabæ. Þá voru nefnilega þeir nemendur sem voru í meðlimir í ríkiskirkjunni, teknir frá að „tala við guð“ meðan aðrir sátu eftir að gera eitthvað annað. Skólastrjórnendum fannst þessi afhjúpun á lífsskoðun foreldra barnanna ekki vera til vegsemdarauka fyrir skólann og hættu við Vinaleið. Svo ekki sé talað um misununina.

-Kannski að Bjarna þyki þessi afstaða líka vera tepruskapur.

Í stuttu máli er þessi hugmynd Bjarna Karlssonar og félaga geysilega vond frá öllum hliðum séð. Hún er á gráa svæðinu þegar kemur að góðri stjórnsýslu. Hún er á gráa svæðinu fyrir samviskusama kennara sem vilja nemendum sínum allt hið besta og fara eftir siðareglum kennara. Hugmyndin er meir að segja á gráu svæði í guðfræðilegum skilningi. Fríkirkjur hafa t.d engan áhuga á að fara inn í skólastofurnar. Kennslufræðilega er hugmyndin tæp því markmiðið er óljóst og skortir skýran tilgang. Sálgæslulega er hugmyndin vond því að í öllum tilfellum væri aðstoð fagfólks miklu æskilegri. Út frá sjónarhóli vinnuréttar er hugmyndin fáránleg eins og sýndi sig í Garðabæ þegar skólasálfræðingi var ýtt út í horn, og var á lægra kaupi en presturinn sem var að stoða nemendur með óljósum hætti.

Þetta er svo vond hugmynd að undrum sætir.

Sérstaklega þegar horft er til þess að kirkjan á húsnæði, mannskap og þekkingu til þess að veita alla þá stoð sem henni dettur í hug að sé til bóta fyrir æsku landsins. Sú staðreynd er nefnilega hrópandi að nú þegar er kirkjan með kröftugt starf innan sinna vébanda, sem er engum til ama. Sunnudagaskólinn er frábært dæmi um það.

Þetta er nefnilega líka spurning um meiri hagsmuni fyrir minni. Er virkilega vilji fyrir því hjá ríkiskirkjunni að stefna öllu skólastarfi í uppnám fyrir svona vonda hugmynd. Ávinningurinn getur aldrei orðið jafn góður og skaðinn sem hugmyndin myndi valda.

En þá erum við komin að öðru böli. Trúarsannfæringu þeirra sem vita hvað er best fyrir okkur hin.

Hér fyrir neðan er tillagan sem afgreidd var og Bjarni Karlsson agnúast út í

-o-o-o-

Skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál
Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana.
Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að framförum á sviði mannréttinda hjá borginni og hefur verulegur árangur náðst í auknu kynjajafnrétti, í réttindum samkynhneigðra og málefnum innflytjenda. Mannréttindastefnan kveður einnig á um að ekki skuli mismuna borgarbúum
eftir lífs- og trúarskoðunum þeirra.

Árið 2007 kom út skýrsla Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla. Í hópi skýrsluhöfunda voru fulltrúar frá öllum hlutaðeigandi aðilum; skólastofnunum borgarinnar, Biskupsstofu og Alþjóðahúsi. Ein af megin niðurstöðum hópsins var sú að móta þyrfti
skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaráð Reykjavíkur leggur því til að eftirfarandi reglur gildi um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög:

a) Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni. Bænahald og aðrar trúariðkanir með börnum eru hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk borgarstarfsmanna.

b) Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi innan veggja frístundaheimila, leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. (Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripum, fjölfölduðum trúar- og lífsskoðunarritum, bókum, auglýsingum, hljóðritum, prentmyndum og kvikmyndum.)

c) Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.

d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma skulu fyrst hefjast á grunnskólastigi og eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir og samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni. Fræðsla leikskólabarna um kristilegt siðferði og aðrar lífsskoðanir skal fara fram innan veggja leikskólans og vera á hendi leikskólakennara.

e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

f) Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar við starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga eigi sér ekki stað á skólatíma.

g) Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma né leiði til mismununar nemenda utan tiltekinna trúar- og lífsskoðunarfélaga.

h) Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að fagaðilar óbundnir trúar- og lífskoðunarfélögum komi að sálrænum áföllum. Ef sérstakar aðstæður kalla á aðkomu fagaðila frá trúar- eða lífskoðunarfélagi skal það gert að höfðu samráði skólayfirvalda við foreldra þeirra nemenda sem áfallahjálparinnar njóta og á ábyrgð viðkomandi. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu fara fram utan skólatíma.

i) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sínum sess í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla.

Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji Mannréttindaráðs að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við. Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa. Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

 

Leave a reply:

Your email address will not be published.

Site Footer