SÉRKENNILEG AFGREIÐSLA

Lekamálið var fyrir margar sakir merkilegt. Ekki bara fyrir vegna þess að í því afhjúpaðist grimmileg afstaða æðstu valdastéttanna gagnvart fólki sem hefur enginn völd og þarf að reiða sig á aðstoð annarra.

Í Lekamálinu afhjúpaðist einnig ruddaleg ósvífni ráðherra sem beitti fyrir sig embættiskerfinu  í þeirri viðleitni að hylja óafsakanlegar árásir gagnvart hælisleitenda og vanfærri konu sem enga björg gat sér veitt.

Þar afhjúpaðist líka einbeittur brotavilji ráðherra sem laug blákalt úr ræðustóli Alþingis og var staðin af sí-endurteknum ósannindum á öllum stigum málsins.  Þekktur lögfræðingur orðaði það þannig að Hanna Birna væri eins og hross sem fest hefði sig í mýri og þvi meira sem hún böðlaðist áfram, því meira festi hún sig.

Lekamálið var reyndar miklu alvarlegra en svo að afsakanlegt væri að nota léttúðugar líkingar.  Á lokastigum málsins komu fram upplýsingar um að Hanna Birna hefði staðið í hótunum við Lögreglustjórann í Reykjavík.

Það er graf-alvarlegt.

Eiginlega svo alvarlegt að sæmilega innréttuðu fólki ætti að blöskra.  Samskipti Innanríkisráðherra og Lögreglustjóra ættu að vera mjög formföst og „eldveggur“ ætti að vera á milli þessara tveggja.  Mér er sagt að þegar þessir hittast ættu þeir fundir að vera skipulagðir með góðum fyrirvara og vegna „eldveggsins“ ættu öll samskipti þeirra að vera í viðurvist og undir ritunarskildu ráðuneytisstjóra eða einhvers annars.  Sama ætti að gilda um símtöl.  Blaður um daginn og veginn eru tilgangslaus og umræður um einstök mál ættu alls ekki koma upp á milli þessara mikilvægu embættismanna.  Innanríkisráðherra á alls ekki að geta ýjað að því við Lögreglustjóra að taka fyrir þetta máli eða hitt eða flýta rannsókn á einhverju máli. Sér í lagi ef téð mál snýr að beinum hætti að ráðherra sjálfum eins og var uppi á teningnum í Lekamálinu.

Ég ákvað að gera eitthvað í málinu annað en að bölva í hljóði og þann 13. ágúst 2014  sendi inn svohljóðandi erindi til Innanríkisráðuneytisins.

Sæl verið þið ágætu viðtakendur   Ég heiti Teitur Atlason og er „freelance“ blaðamaður og bloggari. Ég óska eftir upplýsingum úr IRR og vísa þar með til upplýsingalaga frá 2013.

 

Ég vildi fá yfirlit yfir fjölda funda sem núverandi innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur átt með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu frá því að hún tók við embætti árið 23.maí 2013 til dagsins í dag, 11. ágúst 2014.  Ég vildi fá að vita hvenær þessir fundir voru haldnir, hvar þeir voru haldnir og hve lengi þeir stóðu yfir.  Ég vil líka fá yfirlit yfir þau símtöl sem innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir og  lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa átt saman  Ég vil vita dagsetningu og tímalengd téðra símatala

 

Ég vildi fá yfirlit yfir fjölda funda sem fyrrverandi  innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur átt með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2011 til 2013.  Ég vildi fá að vita hvenær þessir fundir voru haldnir, hvar þeir voru haldnir og hve lengi þeir stóðu yfir.  Ég vil líka fá yfirlit yfir þau símtöl sem fyrrverandi innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson og  lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa átt saman  Ég vil vita dagsetningu og tímalengd téðra símatala Með fyrirfram þökk

 

Ég hringdi í upplýsingafulltrúa IRR og fékk þau skilaboð að ég skyldi nota staðlað form sem er að finna á vef ráðuneytisins. Þetta eyðublað passar ekki við fyrirspurn mína enda er ég að fara fram á samantekt upplýsinga frekar en einstakt eða einstök mál.   Ágætur upplýsingafulltrúi benti mér að að fara þessa leið sem ég er nú að fara og sendi ykkur þessa fyrirspurn með vísan í upplýsingalög á netfangið postur@irr.is Með fyrirfram þökk og von um jákvæða úrlausn

 

Ég fékk svo senda til baka staðfestingu á að þessi póstur hefið borist Innanríkisráðuneytinu.

-Ekkert gerðist.

Ég sendi aftur þennan póst viku síðar eða 2. september 2014.   Titillinn var hinn sami nema ég hafi bætt inn orðinu „ítrekun“ eftir heiti bréfsins.

-Ekkert gerðist.

Þann 12. september sendi ég svo inn sama póst aftur en bætti inn „Endurtekin ítrekun“ í efnisdálkinn.

-Ekkert gerðist.

Þann 26. september sendi ég svo inn fyrirspurn til Fjölmiðlanefndar vegna þessa máls og bað um aðstoð eða leiðbeiningar um hvernig best væri að snúa sér í því þegar ráðuneyti neitar að afgreiða erindi sem sent er inn með tilvísun í upplýsingalög.  Ég fékk kurteislegt bréf þar sem áréttað var um að snertiflötur Fjölmiðlanefndar og fyrirspurnar minnar væri vandfundinn en var bent á að ég gæti sent inn kvörtun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem heyrði undir Forsætisráðuneytið. Sama dag sendi ég svo inn kvörtun til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Þremur dögum síðar fékk ég svo bréf frá Forsætisráðuneytinu. Það má sjá hér fyrir neðan.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál2

Í síðustu málsgreininni segir að ég geti búist við því að úrskurður í málinu gæti fallið innan 90 daga.  Bréfið er skrifað fyrir rúmum 240 dögum þannig að úrskurður hefði átt að falla í lok desember eða byrjun janúar.  Núna er ágúst nýhafinn eins og flestum er kunnugt um .  Janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí og svo núna ágúst.  Úrskurður hefði átt að falla fyrir u.þ.b 210 dögum og þá er miðað við ýtrasta frest Úrskurðar um upplýsingamál.

Þetta er afar slök frammistaða svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Mér finnst þetta skipta máli. Mér finnst skipta máli að farið sé eftir upplýsingalögum og hverjum sem óskar þess, séu veittar upplýsingar svo fremi sem þær brjóti ekki í bága við einkalíf eða þjóðaröryggi og þessháttar.  Mér finnst skipta máli að upplýsingar um fundi Innanríkisráðherra og Lögreglustjóra komi fram í dagsljósið, sérstaklega þar sem eldveggur á að ríkja á milli þessara embætta.  Ég held að það sé gott að fá upplýsingar um fundi Hönnu Birnu og Lögreglustjórans og bera þær saman við sömu fundi hjá fyrirrennara hennar.

Upplýsingar um fjölda slíkra funda, lengd þeirra og dagsetningu ætti ekkert að vera neitt leyndarmál.

Ef ekkert gerist í þessu máli fer ég með það fyrir Umboðsmann Alþingis því afgreiðsla málsins hingað til hefur verið sveipuð þagnarmúr.

 

 

 

Site Footer