SVIÐIN JÖRÐ

Það er alveg stórfurðulegt að bera saman hvernig ESB umræðan er á Íslandi og hér í Svíþjóð. Hérna er litið á aðildina að ESB sem eitthvað sem er gott fyrir hinn máttuga sænska iðnað og eitthvað sem stuðlar að skilningi þjóða í milli og mikilvægan samstarfsvettvang fyrir hitt og þetta.

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þar snýst ESB umræðan um hvort halda skuli áfram að semja um eitthvað sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslu. -Mjög skrýtið. Það er ekkert á borðinu og þegar það kemur á borðið þá er eftir að greiða atkvæði um það.

Andstæðingar þessarar væntanlegu þjóðaratkvæðagreiðslu eru tilbúin að ganga furðulega langt í því að hindra þessa lýðræðislegu leið til þess að skera úr um mikilvæg mál. Sé síðan horft til þess að þeir sem höfðu sem hæst í Icesave-málinu og kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál, eru nú skyndilega á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega ESB aðild. Við hvað er fólk eiginlega hrætt?

Það er ekki rétt eins og Björn Bjarnason heldur fram að ég sé „ESB-sinni“. Ég er það ekki. Ég hef ekki séð neinn samning. Ég veit ekki (frekar en hann) hvernig væntanlegur samningur lítur út. Mér þykir það brjálæðisleg frekja ef að gamlir kallar á borð við Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson og Davíð Oddson og Einar K. Guðfinnsson og Guðna Ágústsson og Sturla Böðvarsson og Halldór Blöndal skulu reynda að taka af okkur möguleikann að sjá hvað er í boði.

Er komin af stað einhver „sviðin jörð stefna“ hjá þessum stórmennum? Var ekki nóg að koma á ranglátu samfélagi og eyðileggja peningakerfi þjóðarinnar og glutra gjaldeyrisforða þjóðarinnar? -Já og skaffa sjálfum sér ofur-eftirlaun fyrir afrekin. Er einhver með réttu ráði sem tekur mark á heilræðum þessara manna?

Site Footer