SVAR FRÁ UMBOÐSMANNI ALÞINGIS

Á dögunum þá sendi ég inn erindi til umboðsmanns Alþingis.  Nú hefur svar borist og sá telur ekki ástæðu til að afhafast ekkert í málinu.  Þessar málalyktir eru þó ekkert sérstaklega svekkjandi því að í niðurlagi í bréfinu frá Umboðsmanni, kemur fram að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki farið eftir reglum sem varðar tímaramma og ætti að huga að því í framtíðinni.  Það er reyndar svolítið ósanngjarnt því að Úrskurðarnefndin sendi inn 6 fyrirspurnir til Innanríkisráðuneytisins en fékk aldrei svar.

Málið snýst um frekar einfalda fyrirspurn sem ég sendi inn þegar Lekamálið var í deiglunni.

Það snýr að fundum Innanríkisráðherra og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.  Í hamaganginum í kringum afsögn Stefáns Eiríkssonar kom í ljós að hann hafði fengið heimsókn frá Innanríkisráðherra, símtöl og þessháttar.  Mörgum kom þetta spánskt fyrir sjónir því að í huga flestra sem eitthvað vita um uppbyggingu vestrænna stjórnkerfa, eiga ráðherrar ekkert mikið að vera að tala við lögreglustjóra. Þetta snýst um að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eiga að vera óháð hvort frá öðru.  Einn orðað það þannig við mig að á milli þessara sviða ætt að vera „eldveggur“.

Svo kom bara í ljós að ráðherra lögreglumála var á stöðugum fundum við lögreglustjóra og var í stöðugu símasambandi við hann á meðan . . .

. . . Já haldið ykkur nú. . .

. . . . .  á meðan lögreglan var  að rannsaka ráðherrann sem um  ræðir!

 

Aðspurð sagði ráðherra ekkert hafa rætt rannsóknina á hendur henni sjálfri en spurt nokkuð út í andlega líðan lögreglustjórans og einnig hafi starfskjör hans borið á góma*

Þetta vakti athygli mína og ég fór fram á að fá yfirlit um fjölda þeirra funda sem fyrrverandi innannríkisráðherra átti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.  Ég fór því fram á að fá yfirlit um fundi Ögmundar Jónassonar og Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Það svar fékkst ekki þanng að ég leitaði til Umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður ýtti á eftir málinu við Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem sér um svona lagað.  Hérna kemur svolítið merkilegt.  Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendir Innanríkisráðuneytinu bréf með spurningum mínum þann..

-15. október 2014

–27. janúar 2015

—10. mars 2015

—-20. mars 2015

—–6. ágúst 2015

——19. oktober 2015

Sem sagt 6 bréf frá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem öll voru hunsuð.

Svo fær ég loksins bréf frá Innanríkisráðuneytinu (apparatinu sem Úrskurðarnefnd um upplýsingamál beindi fyrirspurn minni ítrekað til) og þar kom fram að upplýsingar sem vörðuðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur væru komnar fram og yfirlit um fundatíði lögreglustjóra og Ögmundar Jónassonar væru ekki til.  Þetta svar Innanríkisráðuneytisins var svo sent til Umboðsmanns Alþingis sem afgreiddi málið sem lokið.  Svarið fékk ég í pósti þann 30. október og ljóst að Innanríkisráðuneytið ætlar ekki að eyða tíma í að grafa upp svörin við þessari spurningu minni.

 

svarirr2

Eftir stendur frekar skrýtin staða sem lýtur að því að engar reglur eru til um það hvernig og undir hvaða kringumstæðum þessi mikilvægu embætti, Innanríkisráðherra og Lögreglustjóri, hittist.  Mér þykir það eiginlega fáránlegt.  Ég er eignilega jafn hissa eftir þetta svar Innanríkisráðuneytisins og Umboðsmanns að það sé í rauninni allt í lagi að Innanríkisráðherra taki upp tólið og skammi lögreglustjóra. . . .Eða krefjist þess að tilteknu máli skuli flýtt. . . Eða jafnvel að tiltekið fólk ætti að rannsakast.

Ég skil ekki að til séu reglur um að sérstakra aðstæðna sé krafist þegar æðstu fulltrúar framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins fundi.  Það ætti að vera lítið mál að koma því á.  Í fljóti bragði myndi ég ætla að slíkir fundir ættu að vera skipulagðir með löngum fyrirvara (einmitt til að koma í veg fyrir að ráðherra sé að skipta sér af málum sem eru í gangi) og að téðir fundir séu ritaðir og jafnvel teknir upp.  Lágmarkskrafa ætti svo auðvitað að vera að ráðuneytisstjóri sitji þessa fundi.

Það er skelfileg tilhugsun að einhverjar gáttir liggi milli ráðherra og lögreglustjóra og ennþá sturlaðiri staðreynd að ráðherra hafi virkilega haft ítrekað samband við lögreglustjóra meðan embætti hans var að rannsaka ráðherrann og aðstoðarfólk hennar.  Það er eiginlega glæpsamlegt.

 

Eldveggur á milli þessara mikilvægu stofnana er nauðsynlegur og lítið mál að kveikja hann.

 

 

*Starfskjara-afsökun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er alveg út á túni því ráðherra hefur nákvæmlega ekkert að gera með starfskjör undirmanna sinna. Starfskjör æðstu embættismanna ríkisins eru í höndum Kjaradóms. Þetta hlýtur Hanna Birna að vita og mögulega er þessi skrýtna vörn hennar dæmi um rakaþurrð á ögurstundu

Site Footer