Svíar byggja 6000 vindrafstöðvar


Svíar ætla að bregðast við aukinni orkuþörf með því að fjölga vindrafstöðvum úr 900 í 6000. Reynslan af slíkum stöðvum er góð og vindrafstöðvabransinn blómstrar sem aldrei fyrr. Efnahagsmálaráðherra Svíþjóðar, Maud Olofson segir að vindrafstöðvar muni hafa afgerandi áhrif í því að ná markmiðum EU um orkuöflun. Sjá hér.

Þetta er ánægjuleg frétt og ætti að vera Íslendingum hvatning um að setja upp nokkrar vindrafstöðvar til reynslu. Ísland er mun heppilegra til fyrir vindrafstöðvar en Svíþjóð. Sambland af vindrafstöðvum og vatnsafslvirkjunum myndi reynast okkur Íslendingum happadrjúgt. Á veturnar minnkar oft raforkuframleiðsla vatnsaflsvirkjanna (vegna minnkandi rennslis og íss) og vindurinn gæti skaffað okkur það sem upp á vantaði. Ég sé t.d fyrir mér að lítil og meðalstór sveitarfélög gætu verið sjálfum sér nóg varðandi orkuöflun með orku úr vindrafstöðvum. Vestmannaeyjar, Selfoss, Hveragerði, Hella og Þorlákshöfn eru staðir sem eru fullkomnir fyrir vindrafstöðvar. Mikill og stöðugur vindur.

Ísland er miklu vindasamara en Danmörk og Svíþjóð þrátt fyrir það enginn vindrafstöð sé til á Íslandi. Mér segir svo hugur að vindurinn skipi álíka flokk og fisktegundir á borð við karfa og steinbítur fyrr á tímum. En þeim fiskitegundum var einfaldlega hent ef hann slæddist með í íslensku trollin. Það var ekki fyrr en síðar að íslendingar fóru að nýta þá auðlind sem aðrar fiskitegundir en þorskurinn var.

Það sem er svo frábært við vindrafstöðvar er það að þær eru ódýrar, umhverfisáhrif vegna þeirra eru afturkræf og þær er hægt að setja upp á flestum stöðum á landinu. Vindrafstöð er hægt að kaupa tilbúna til uppsetningar og virðuleg fyrirtæki á borð við General Electric framleiða slíkar stöðvar og mikil reynsla og þróun hefur átt sér stað í vindrafstöðvum.

Mér finnst að ríkisstjórnin ætti a.m.k að stuðla að því að prófa vindrafstöð á einhverjum góðum stað og taka saman reynsluna. Það kostar smáræði viðað við miljarðana sem vatnsaflsstöð kostar. Við höfum engu að tapa og allt að vinna.

Site Footer