KJARVALSVERK Í KOLAPORTINU

Útskýringar Landsbankans í Borgunarmálinu hafa verið misvísandi frá upphafi.  Fyrst þegar Steinþór Pálsson bankastjóri útskýriði hina knýjandi þörf á að selja Borgunarhlutinn „undir borðið“ ef svo má að orði komast.   Það var einstakt.

Kaupendur sem komu fram þarna voru stjórnendur að stórum hluta. Og þeir höfðu þá ákveðna hagsmuni. Þeir ætluðu sér að ná í þetta. Þannig að við vildum ekki fara að opna þetta fyrir aðra aðila, við ekki með neina aðkomu að félaginu, enga stjórnarmenn og enga innsýn inn í félagið og takmarkaða þekkingu, að fara að opna það og segja „við erum að fara að selja, en við ætlum að treysta á upplýsingar frá samkeppnisaðila og stjórnendum sem vilja kaupa félagið“. Þannig að við töldum að þarna væri ákveðinn ómöguleiki.

En núna þegar í ljós hefur salan á hlut Landsbankans í Borgun var miklu verðmætari en endanlegt kaupverð og eftir mikla pressu frá Alþingi, fjölmiðlum og almenningi. . . . Fer Steinþór Pálsson bankastjóri fram á útskýringar frá þeim sem keyptu Borgun (á þessu hlægilega verði)  Ágætt er að hafa í huga að téðir kaupendur voru fyrrverandi stjórnendur félagsins og þekktu það manna best.

Landsbankinn virðist hafa áttað sig á því að hann var plataður og fer frá á útskýringar og ætlar að „leita réttar síns„.

-Það er ekki skafið af þessu.

Sambærilegt dæmi væri t.d…

Maður selur nokkur málverk sem hafa verið ofan í kjallara í nokkur ár.  Hópur listaverkasala sýnir þessum myndum áhuga og gegn öllum ráðum og eðlilegri skynsemi, ákveður maðurinn sem á myndnirnar að selja þessum listaverkasölum myndirnar og selja þær ekki í gegnum uppboðshús þrátt fyrir áeggjan allra sem þekkja til málsins

Listaverkasalarnir og maðurinn komast að niðurstöðu og myndirnar eru seldar á 10 miljónir.

Líður svo og bíður þangað til ári seinna kemur í ljós að myndirnar eru miklu verðmætari en 10 miljónir.  Safnari í Bandaríkjunum hefur lengi haft áhuga á þessum tilteknu myndum og þegar hann frétti af þeim í fórum listaverkasalanna bauð hann tífalda upphæði í myndinrnar.

Maðurinn sem átti myndirnar upphaflega verður mjög sár og fer fram á skýringar og segist ætla að leita réttar síns.

Eins og sjá má af þessari sögu er allt tal um að „leita réttar síns“ út í hött.  Hann seldi einfaldlega verðmætan hlut á alltof lágu verði.  Það gerist stundum og það er ofur-eðlilegt þótt maður gæti ætlað að heill banki myndi ekki láta plata sig svona.

Kaupendur Borgunar segja auðvitað að þeir hafi ekki vitað af miljarðatugunum sem biðu hlægjandi handan við hornið.  Þó það nú væri.  Er það líklegt að þeir komi fram og viðurkenni að hafa haft grun um að díllinn sem þeir voru nýbúnir að landa væri ígildi happadrættisvinnings?  Heldur Steinþór Pálsson að kaupendur Borgunar muni bakka út úr dílnum þegar ljóst er að hann er miklu verðmætari en Steinþór gerði ráð fyrir?

Hver myndi skila Kjarvalsverki sem keypt var í Kolaportinu fyrir slikk?

Því miður er þetta ekkí fyrsta skipti í Borgunarmálinu þar sem Landsbankinn felur sig bakvið eigin fávisku.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið en gamanið kárnar þegar haft er í huga að þessi hlutur sem Landsbankinn seldi á útsölu, var í eigu allra landsmanna. Í eigu ríksins og með sölunni verðum við skattgreiðendur af tugum miljarða.

 

Nú er þetta komið gott.  Svona gengur ekki lengur. Einhver viðbrögð önnur en „við vorum göbbuð“ verða að koma fram.  Boltinn er hjá eigendum Landsbankans.

Site Footer