STINGANDI AUGU FORMANNSINS

þann 22. október næstkomandi verða haldnar kosningar í Neytendasamtökunum.  Ég ákvað í sumar að bjóða mig fram til formanns því ég tel mig þekkja ágætlega til málefnisins enda hef ég verið varaformaður Neytendasamtakanna í 2 ár.

Það hefur verið afar gefandi og fróðlegur tími.

Neytendasamtökin hafa tekið marga slagi þessa 24 mánuði og ég hef staðið í stafni í sumum þeirra.

Ég held að ég geti gert gagn því ég held að ég kunni að rétta af rangindi sem snúa að neytendum.

Einna eftirminnilegast þótti mér þegar hugmyndir voru uppi að rukka fólk fyrir það eitt að nota stafræn skilríki.  Sú hugmynd er auðvitað alveg úti á túni því auðkenning borgaranna í eðlilegu samfélagi á auðvitað ekki að kosta krónu.

Auðkenning á sjálfum sér er hluti af því tilheyra samfélagi.  Ef það á að kosta, þá verður fjandinn laus og um leið opnast glufur fyrir gráðugt fólk að taka gjald fyrir allskonar sjálfsagða hluti.

Þannig var að auðkennismálið var í deiglunni og leikar fóru þannig að ég og Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna vorum kallaðir á fund vegna málsins og útlistaðir voru fyrir okkur hinir ágætu kostir rafrænna skilríkja.

Allt var þetta frábært.

Þegar sýningunni lauk vorum við spurðir hvað okkur fyndist. Við vorum samála um að rafræn skilríki væru framtíðin og að þau spöruðu spor og gerðu lífið að mörgu leyti einfaldara.

En…..

Það  á ekki að kosta að nota þau!

Ég gleymi ekki hinu stingandi augnarráði Jóhannesar Gunnarssonar formans Neytendasamtaknna sem hann skaut á stjórnenda glærusýningarinnar þegar þessi orð féllu.

Á leiðinni út bætti ég um betur og gerði fundarmönnum alveg ljóst að Neytendasamtökin myndu ekki bakka með þessa afstöðu og hölluðust frekar að því að átök um málið gerði samfélaginu meira gagn en ógagn.

Fundarherbergið var fullt af þögn þegar við hurfum á braut.

Nokkrum dögum síðar sá ég í blöðunum að hætt hafi verið við að rukka fyrir það að nota rafræn skilríki.

Ég velkist ekki í vafa um það að þessi fundir okkar Jóhannesar hafi gert útslagið í þessu umdeilda máli.  Þarna sýnd sig máttur samstöðunnar og hinnar einörðu afstöðu að þola ekki órétt og vera viljug að fórna friðinum fyrir að rétta af óréttinn.

-o-o-o-

Hérna má sjá texta sem ég skrifaði um það hversvegna ég er að bjóða mig fram sem formann Neytendasamtakanna.  Þau sem vilja kynna sér framboðið nánar ættu að skoða Facebooksíðuna mína.

 

 

 

Site Footer