STEINUNN ÓLÍNA SVARAR

Ég hef þekkt Steinunni Ólinu um árabil.  Hún er jafngömul mér og þegar við vorum unglingar vorum við ásamt einhverjum fleiri, fengin til þess að lesa inn á spólu, leikhljóð sem átti að nota í leikriti. Ég man að mín setning var:  „Þú ert ömurleg“.  Steinunn sagði einhverja aðra setningu.  Sá flutningur var ekki ömurlegu því tæknimennirnir voru geysilega hrifnir af frammistöðu hennar.  Þar með lauk afskiptum mínum af leiklist.

Ég gæti trúað því að hennar afskipti hefðu akkúrat hafist þarna.  Steinunn hefur verið að gefa eitt og annað í skyn varðandi mögulegt forsetaframboð og ég sendi henni spurningalista til að fá á hreint hvað hún ætti eiginlega við.

Hversvegna ertu að fara í forsetaframboð?

Ég er að velta því fyrir mér. Hver sá sem fer í framboð gerir það af augljósum ástæðum. Að bjóða fram krafta sína og hugsjónir, ekki satt?
Hvenær ákvaðstu þetta
Engin ákvörðun hefur verið tekin. Þetta er allt á vangaveltustiginu ennþá.
Hvað segir fjölskyldan þín við þessu?
Fjölskyldan er steinhissa en styður mig í þessu sem öðru.
Glanni glæpur í vínkjallaranum á Bessastöðum? Er það traustvekjandi?

Mér finnst ólíklegt að Glanni yrði tíður gestur á Bessastöðum nema þá til að skemmta börnum. Glanni er eins og allir vita bindindismaður á allt nema sælgæti og kökur. Lítil hætta á að hann legðist í léttvínssull.
Þú varst áberandi í skemmtanalífi Reykjavíkur á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Mun ballið halda áfram þar sem frá var horfið þegar þú fluttir til Hollýwood?
Við skulum segja að það verði með töluvert öðru sniði. En skemmtilegt verður það.
Þú hefur minnst á beljur á Bessastöðum. Hvað áttu við með því
Mig myndi langa til að hefja bússkap aftur til virðingar á Bessastöðum
Sitjandi forseti er umdeildur. Verður þú eitthvað skárri?

Ég yrði ekkert skárri, ég yrði miklu betri.
Nú hefur Ólafur Ragnar stundum verið nefndur „maðurinn með teflon hárgreiðsluna“
. Hvaða skilning setur þú í þessa hugleiðingu.
Enga sérstaka merkingu. Mér leiðast uppnefni. Mér er hinsvegar     meinilla við teflonpönnur.
Finnst þér kynþokki skipta máli þegar kemur að forsetaembættinu?
Nei, ekki nokkru máli. Ég held hinsvegar að það sé nauðsynlegt að eiga góð og slitsterk stígvél.
Hversvegna í ósköpunum?Það er gott að vera vel skóaður þegar maður þarf að ganga til ýmissa verka.
Nú hefur þú gagnrýnt Herra Ólaf Ragnar fyrir að vera hipp og kúl en ertu sjálf ekki í þeim fróma hóp?
Mér hefur aldrei þótt Ólafur hipp eða kúl, ef ég var einhverntímann hipp og kúl þá er það liðin tíð. Ég er dæmigert has-been og sátt við það.
Þekkir þú einhvern útrásarvíking?
Engan náið. Við Jón Ásgeir unnum bæði í Austurveri þegar við vorum krakkar. Hann seldi popp og ég seldi blóm. Hann græddi meira en ég.
Þú ert leikkona á leiðinni í forsetaframboð. Er leiksviðið ekki nógu stórt fyrir þig?
Listamönnum er oft brigslað um athyglissýki en það er bara þreytt tugga. Ég hef ekki stigið á leiksvið í sjö ár og hef ekki í hyggju að vinna meira í leikhúsi. Ég vann sem leikkona í tuttugu ár.  Ég er hinsvegar óhrædd við það að koma fram og það mun reynast mér vel ef ég býð mig fram. Ég er hugsjónamanneskja og veit að ég gæti látið gott af mér leiða. Þar aðauki er ég vinnusöm og ósérhlífin. Ég þykist ekki öðrum fremri og er óhrædd við að leita mér aðstoðar hjá þeim sem betur vita.
Þú hefur talað um að normalvæða Bessastaði.
Hvað áttu við? Normalvæða? Þetta orð nota ég aldrei en það er satt að mér finnst embættið í núverandi mynd bæði tilgerðarlegt og fyrirferðarmikið. Embætti forseta Íslands er fyrst og fremst táknrænt. Hann ber sáralitla ábyrgð á stjórnarháttum. Hinsvegar getur starfandi forseti gert gagn frekar en ógagn, innanlands sem utan, ef henni tekst að vinna náið með kjörnum embættismönnum og fólkinu í landinu.
Ætlar þú að leyfa unglingunum á heimilinu að halda partí á Bessastöðum ef þú verður kosin?
Mér finnst ólíklegt að henni finnist það eftirsóknarvert. En þetta yrði ósköp venjulegt heimili og hún fengi vonandi gesti eins og aðrir unglingar.
Ef þú verður kosin forseti, Hverjar verða áherslu þínar?
Vinna að þeim málum sem brýnast er að sinna. Þeim málum sem snúa að daglegu lífi og vellíðan fólks í landinu.
Hvað verður þitt fyrsta verk sem forseti?

Að bjóða alla velkomna á Bessastaði.   
Ertu trúuð?

Nei
Ólafur Ragnar varð allt í einu trúaður þegar hann varð forseti og yfirmaður Þjóðkirkjunnar.  Vissir þú það?
Nei. Vegir Ólafs eru órannsakanlegir.

Site Footer