STARFSMAÐUR Á PLANI?

Þeir sem gripið hafa til varna í Bankasýslumálinu hafa sagt að Páll Magnússon hafi bara verið starfsmaður í Viðskiptaráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur þegar Búnaðarbankinn var afhentur hinum alræmda S-hóp á silfurfati.

Stafsmaður á plani?  Vikapiltur?  Messagutti?  Gaurinn sem hellir upp á?

Þegar ráðning Þorsteins Davíðssonar var kærð til umboðsmanns Alþingis var niðurstaða hans þessi um starf aðstoðarmanns ráðherra

[starf aðstoðarmanns ráðherra] hefur hins vegar þá sérstöðu að það er fyrst og fremst pólitískt starf og aðstoð við ráðherra í stefnumörkun og ákvarðanatöku í einstökum málum en ekki starf embættismanns að úrlausn stjórnsýsluverkefna á hlutlægum og lögfræðilegum grundvelli.“

Verður þetta eitthvað skýrara?  „Fyrst og fremst pólítískt starf og aðstoð við ráðherra í stefnumörkun og ákvarðanatökum í einstökum málum“

Páll var enginn starfsmaður á plani í skaðræðisráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur.  Í fyrsta lagi var hann virkur þáttakandi í atburðarásinni og í öðru lagi þá var Valgerður veikur ráðherra og völd Páls því meiri að sama skapi.  Heimildafólk mitt segir mér að reglan hafi verið sú að fara beint í Pál með erindi og tillögu að fléttum og hann hafi síðan fengið „go-a-head“ frá Valgerði.

Þetta er eitt af tveimur lykilatriðum í því hversvegna Páll Magnússon er ónýtur í starf forstjóra Bankasýslunnar.  Hann tók virkan þátt í skaðræðisráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur og af og frá er að segja að hann hafi verið messagutti með hor í nös þegar samið var við Finn Ingólfsson, Ólaf Ólafsson Helga S. Guðmundsson og Þórólfi Gíslason um „sölu“ á Búnaðarbankanum.

Hitt lykilatriðið snýr að trúverðugleika.  Í ljósi innvínklunnar Páls við S-hópinn og skaðræðisráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur mun aldrei ríkja trúnaður eða friður um störf Páls Magnússonar. Allt sem hann gerir verður sett í annarlegt samhengi, jafnvel þótt að hann geri allt rétt.  Hlutverk forstjóra Bankasýslunnar er nefnilega að selja ríkisbanka. Nokkuð sem Páll er búin að prófa með skelfilegum árangri.

Já svo má bæta við að Pall er vanæfur í kringum alla umsýslu með 5% hlut Bankasýslunnar í Glitni.  Bróðir hans er einn stjórnenda þar.

Svo má enn bæta við að nýlega var verið að afskrifa 63 þúsund miljónir hjá ofangreindum Ólafi Ólafssyni.  Páll er líka vanhæfur um öll mál sem tengjast honum sem og hinum vörgunum í S-hópnum.

Málið er að planið sem Páll Magnússon er á, er ekki malbikað og rigningarblautt malbik sem speglar merki olíufélags.  Planið sem Pall vinnur á er ofar.

-Mikið ofar

 

Site Footer