SPURNING UM TRÚVERÐUGLEIKA

Össur Skarphéðinsson hefur gripið til varna fyrir Pál Magnússon.  Hann segir að útilokað sé að ráðningin sé af pólitískum meiði sprottinn og bendir á að Páll sé Framsóknarmaður.  Þarna er Össur að misskilja gagnrýnina á ráðninguna.  Það hefur að vísu verið bent á samtryggingakerfi stjórnmálaflokkana í þessu samhengi en gagnrýnin hefur aðallega verið á öðrum forsendum en þeim sem Össur vísar í.

Þegar talað hefur verið um pólitíska ráðningu í tilfelli Páls Magnússonar, hefur verið bent á samband hans við Valgerði Sverrisdóttur og Þorstein Þorsteinsson sem er réð Pál Magnússon.  Hin meinta pólitíska spilling sem felst í ráðningunni er því sú að lítill hópur innvígðra framsóknarmanna, hafi einfaldlega passa upp á „sinn mann“ eftir að Páli var vikið úr stjórn Landsvirkjunar.

Þessi útskýring er ekkert galin ef út í þá sálma er farið.  En ég nenni því ekki hér og nú.

Ráðningarmál Páls Magnússonar hafa ekki snúist um að ráðningin sé „pólitísk“ eins og Össur gerir skóna, heldur að Páll sé vanhæfur vegna tengsla við bankasöluna á sínum tíma. En Páll vann beinlínis við það að selja bankana til hins alræmda S-hóps sem samanstóð af nokkrum valdamiklum framsóknarmönnum.

Taki Páll við stöðunni eins og ýmislegt bendir til, mun Páll sjá aftur um að selja bankana.  Hann er svo innilega vanhæfur í starfið að segja má að það sé sambærilegt að fjármálastjóri gjaldþrota fyrirtækis sé ráðin til þess að vera skiptastjóri þrotabúsins.

Það samræmist ekki hugmyndum fólks um fagleg vinnubrögð að hafa fólk sem er innvínklað í stórskaðlega atburði til þess að sjá um rannsókn á þeim eða lausn á þeim.  Fólki finnst t.d fáránlegt að láta grunaðan glæpamann, sjá um rannsóknina á eigin óhæfuverkum.

Sama má segja um Pál Magússon og aðkomu hans að bankasölunni.  Hann á ekki að vinna við að leysa þann hroðalega vanda sem gjaldþrot bankana skapaði fyrir Ísland.  -Hann átti þátt í því að framkalla vandann

Svo eru sennilega sterkustu rökin af öllum.  Alveg sama hvað Páll sé góður og frábær, mun aldrei ríkja traust til embættisverka hans í þessari viðkvæmu stöðu.  Páll er t.d vanhæfur til að fjalla um mál sem tengjast Glitni því bróðir hans er einn af yfirmönnum bankans.  Páll er líka vanæfur um öll mál sem kunna að koma upp sem tengjast S-hópnum alræmda.

Ráðning Páls mun bara skilja eftir sig vafa, vantraust og almenna gremju um að ekkert sé að breytast og enginn vilji sé til þess að gera upp hrunið.  Ef það þykir eðlilegt að skipa í þetta viðkvæma embætti, mann sem beinlínis, alsendis og einungis, vann við að koma ríkiseigum á silfurfati til vina sinna, er traustið til stjórnsýslunnar einfaldlega farið.

-Það er barasta farið.

Þessi augljósa staðreynd gengur þvert á eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum.  Þessi ráðning heldur ekki verði hún kærð á stjórnsýsluelgum forsendum.  Ráðningin er á gráa svæðinu þegar kemur að þeirri fullyrðingu stjórnar Bankasýslunnar, að hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn því ljóst er að Páll var ekki efstur úr þeim 7 prófum sem Capacent lagði fyrir umsækjendur.

Það sem réð úrslitum að sögn stjórnarinnar var að Páll var góður í framkomu. Sem er ekkert skrýtið.  Maðurinn hefur verið í stjórnmálastússi frá barnsaldri.  Auðvitað kann hann þá list að sannfæra fólk, taka til máls og færa rök fyrir máli sínu.

En eru þetta rétta manngerðin í þetta viðkvæma embætti?  Einhver stjórnmálagaur með reynslu úr ráðuneyti Valgerðar Sverrisdóttur og Finns Ingólfssonar þar sem saman fléttuðust stjórnmál og viðskipti í skelfilegan örlagaþráð sem slitnað með þvílíkum hvelli að enn syngur í.  Í þetta embætti ætti að ráðast manneskja sem hefur ekki eiginleika stjórnmálamannsins.

Í eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum stendur:

„Hafið yfir vafa um pólitísk afskipt af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna“ [sem bankasýslan sýslar með]  Þessari kröfu er útilokað að ná fram með Pál Magnússon i stóli forstjóra.

-Útilokað

-Algerlega útilokað!

.

Site Footer