SÆNSKUR LANDBÚNAÐUR OG ESB

Fyrsta kúltúrsjokkið sem ég fékk eftir að ég flutti til Svíþjóðar, voru gæðin á matnum hérna.  Búðirnar hérna eru æðislegar.  Meir að segja „bónusinn“ í Svíþjóð (sem heitir Willy´s) er dúndur flottur.  Flottustu búðirnar heita ICA og Hemköp.

En kjötið hérna. -Maður minn góður. Það er æðislegt.  Sænskur landbúnaður er sterkur og vörurnar eru frábærar.  Alveg sama hvar maður treður niður. Smjör, ket, mjólkurvörur, kjúklingar.

Svíþjóð er í ESB eins og margir vita, en tala lítið um, og verandi í þessum ágæta samstarfi, þá verða Svíar að opna markaðinn sinn fyrir landbúnaðarvörum frá öðrum evrópuþjóðum.  það innifelur í sér t.d danska kjúklinga sem eru sirka 30% ódýrari en þeir sænsku.

En hvernig bregðast sænskir kjúklingabændur við þessum ódýru kjúklingum. Jú það er gert með upplýsingum.

Það kom inn um lúguna bæklingur sem vakti athygli á muninum á kjúklingum frá á fyrirtækinu Kronfågel og ódýrum kjúklingum frá Danmörku (oftast þaðan)

Það er hamrað á því að sænskar kröfur eru harðari en þær í ESB og að eftirlit sé betra.  það eru tiltekin mannúðarsjónarmið varðandi ræktun og slátrun og minnt á að salmonellusýkingar eru mikið fátíðari í sænskum kjúklingum en þeim ódýru frá Danmörku.  Svo er það orðið á götunni sem er á eina lund. Þegar maður steikir danskan kjúkling, rýrnar hann um svona 30% en ekki sá sænski. þar með er verð-trompið Dananna fokið ofan í Eyrarsund.

Þetta gerir það að verkum að um 70% allra kjúklinga sem keyptir eru í Svíþjóð, eru sænskir.  Hinu má svo ekki gleyma að sænskir kjúklingar eru líka fluttir út, t.d til Danmerkur, þar sem þeir eru álitnir lúxusvara.

Svona er þetta út um allan landbúnaðargeirann.  Svíþjóð nýtur virðingar annara landa fyrir strangar kröfur enda eru vörurnar eftirsóttar og öðrum framleiðendum til eftirbreytni. Styrkur sænskra landbúnaðarvara liggur ekki í verðinu, heldur gæðunum.

Ég veit að ef að íslenkar landbúnaðarvörur kæmust á markað hér í Svíþjóð, myndu þær slá rækilega í gegn.  Þetta er nefnilega EKKI spurning um verð eins og dæmið um dönsku kjúklingana sannar.  Það eru aðrir hlutir sem ráða.

-o-o-o-o-

Nú má ekki skilja þessa hugleiðingu mína á þann hátt að allar landbúnaðarvörur frá Danmörku séu ódýrar og vondar.  Það er bull.  Danskur landbúnaður er í fremstu röð.  Ég er að velta fyrir mér þessum ofur-búum sem finna má í Danmörku.  Einver sagði mér að í Danmörku sé slátrað yfir 30 miljón kjúklingum árlega.  Þetta er yfirgengileg tala

Site Footer