SNORRI ÓSKARSSON

Það hefur verð mjög upplýsandi að fylgjast með umræðu í kringum Snorra Óskarsson kennara vegna skrifa hans á bloggið sem hann heldur úti. Viðbrögðin við skrifum Snorra voru ofsafengin og í kjölfarið var hann tekinn á teppið í skólanum þar sem hann vinnur. Snorri óttast uppsögn úr starfi vegna þessa máls.

Þetta voru orðin sem settu fólk úr jafnvægi.

„Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Það sem er svo himinhrópandi furðulegt við þetta mál allt er að Snorri Óskarsson er einfaldlega að greina frá staðreynd. Það er staðreynd að evangelistar telja að hómósexualismi sé synd. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda þegar staðreyndir verða tabú í samfélaginu. Þessi afstaða evangelista er öllum heirum kunn.

Sennilega á þessi ofsafengnu viðbrögð gegn Snorra Óskarssyni sér rót í þeirri staðreynd að fólk veit ekki neitt um kristindóminn. Fólk ruglar honum saman við almenna gæsku manna í milli og heilbrigt umburðarlyndi. Í því samhengi er gaman að geta þess að Guðni Ágústsson sagði einhverntíman á Alþingi að „það væri ekki til neitt siðferði en kristið siðferði“. -Fólk ruglar þessu öllu saman.

Evangelistar eru fleiri en lúterar ef einhver vissi það ekki. Þessi skoðun á samkynheigðum er því ekki einhver sérkennileg og öfgakennd heldur mikið frekar almenn sé miðað við heildarmyndina. Katólar, sem er langstærsta kirkjudeildin er á svipaðri skoðun og evangelistar. -Hómósexualismi er synd. Það væri skelfilegt ef að trúarskoðanir fólks færu að skipta máli þegar kemur að því að meta hæfni þess til vinnu. Sérstaklega í tillfelli Snorra Óskarssonar, sem er mikið meira „mainstream“ en fólk heldur. Maður getur svo spurt sig hvar sú pæling endar eiginlega? Hvað með kennara sem leggur traust sitt á kristalla hverskonar og svoleiðs glingur? Hvað með kennara sem fara reglulega til spámiðla og tala við hina látnu?

Ef að Snorri Óskarsson samsamar sér við hugmyndakefi evangelista þá kemur það engum við. Ef að Snorri Óskarsson greinir frá túlkunum evangelista á tilteknum „vandamálum“, þá á hann að fá að gera það án þess að eiga hættu á að missa vinnuna.Hérna kemur svo grundvallar atriði sem margir eiga erfitt með að skilja. Þó að ég sé algerlega ósammála Snorra í afstöðunni til samkynhneigðra, þyki skoðanir hans skaðlegar, vondar og ég ber á engan hátt virðingu fyrir þeim, er réttur Snorra til að viðra skoðanir sínar miklu mikilvægari en hvað mér finnst um þær.

Site Footer