NÁLGUNARBANN SEM VIRKAR

Fyrr í vetur fjallaði Kastljós um skelfilegt mál þar sem eltihrellir þröngvaði konu til þess að flytja úr Reykjavík og alla leið til Þórshafnar.  Ofsóknir hrellisins voru mjög óhuggulegar og einkenndust af sífelldum SMS-skilaboðum sem sum hver voru afar uggvekjandi.

Engu skipti þótt konan kærði manninn og fengi á hann nálgunarbann og í rauninn er málið áfellisdómur um gagnleysi svona nálgunarbanna en þau skipta eltihrellana engu máli því viðurlög við brotum á nálgunarbanni eru ekki virk og þar af leiðandi gagnslaus.

Konan fékk frið frá hinum huglausa eltihrelli í 10 mánuði en núna eru ofsókirnar hafnar að nýju.

Þetta er auðvitað skelfileg staða og konan sem flúði norður í land vegna eltihrellisins, er ekki eina dæmið um þegar sturlaðir eltihrellar ofsækja konur.

En hvernig væri að snúa vörn í sókn?

Hvernig væri að í hvert skipti sem eltihrellirinn áreitir fórnarlamb sitt með SMS-skilaboðum,  áframsendast þau til allra þeirra sem vilja fá að sjá þau.  Þannig myndu hundruðir eða jafnvel þúsundir áhugasamra fá þessi skilaboð í rauntíma.

Þannig afhjúpast hrellirinn því skjól verður afar lítið þegar hundruðir fá téð skilaboð.  Og ef hrellirinn ætlar að draga upp persónuleg mál inn til að gera lítið úr fórnarlambinu sínu, afhjúpast algerlega hið sjúklega ástand sem fórnarlambið býr stöðugt við.

Ég kasta hér með þeirri hugmynd fram um að SMS ofsóknir eins og í dæminu af konuninn á Þórshöfn, verði opinberar öllum þeim sem hafa áhuga á málinu.  Þetta gæti verið stuðningsnet konunnar, lögregla, fréttafólk eða bara hver sem er.

Með þessu móti er skömminni sannarlega skilað þangað sem hún á heima.

 

Site Footer