SMS FRÁ GMS

Gunnlaugur M. Sigmundsson, sá sem stefndi mér vegna skrifa um Kögunarmálið, birti í morgun yfirlýsingu í Fréttablaðinu sem tengist mér aðeins.  Yfirlýsingin er hérna.  Þar viðurkennir Gunnlaugur að hafa sent mér nafnlaus SMS sem innihéldu furðudylgjur og óra sem ég nenni ekki að tíunda.  Ég svaraði þessari yfirlýsingu í dag á sama vetvangi.

Málið má rekja til þess þegar ég var nýkomin heim til Gautaborgar eftir frábært frí á Íslandi.  Ég var eitthvað að nördast á netinu, og heyri dauft píp úr síma sem ég var búinn að pakka ofan í kassa.  Ég opna kassann sem var kominn undir rúm og sé að blessaður Nokia-hlunkurinn minn er á síðasta strikinu að rembast við að segja mér eitthvað.  Jú tólf ólesin SMS.

Ég setti símann á skrifborðið og hlóð tækið.  SMS-in sem ég hafði fengið voru frá einhverjum sem sagðist vera í Gautaborg.  Stafsetningin var þess háttar að íslenska stafi vantaði og réttritun var ábótavant.  Efni þessara SMS-a er svo banal að ég ætla ekki að hafa það eftir hér.

-Ég bara blygðast mín.

Ætli það hafi ekki tekið mig svona klukkutíma vangaveltur að finna út að Gunnlaugur M. Sigmundsson hefði sent þessi andstyggilegu SMS.  Ég lét Sigríði Rut, lögfræðinginn minn vita af þessu og ég var ekki hálfnaður með söguna þegar Rut var búin að leysa gátuna.  Ég giska á að hún hafi fattað þetta á svona 1,5 sekúndu.  -Sem er dágott.  Þess má til gamans geta að konan mín var jafnsnögg og Rut að fatta þetta.

-Ég er með langan „fattara“.

Næsta skref var því að kæra þessa ógeðfelldu sendingu til lögreglunnar og reyna að fá botn í málið sem gæti breytt þessum grun okkar í staðreynd.  SMS-in sem Gunnlaugur sendi mér, voru í gegnum ja.is og þar á bæ er alveg ljóst að öll SMS eru „logguð“ og skýrt kveðið á um að misnotkun varði við lög.  Ég geri ráð fyrir að rannsóknin á þessu máli hafi verið frekar auðveld.

Þegar meiðyrðamálið var svo tekið fyrir á miðvikudaginn í síðustu viku kom í ljós að Gunnlaugur hafði bætt við stefnuna og stefndi mér fyrir einhver ummæli þar sem ég segi hann neyta fjárhagslegs aflsmunar gegn mér!  Þessi auka-stefnu-orð má sjá hér í samhengi.  Endilega látið mig vita ef ykkur finnst þessi setning tilefni til meiðyrðakæru.

Þetta nýja SMS-mál fylgdi minni vörn enda tengdist það því óneitanlega.  Ég stakk upp á því við Rut að bjóða Gunnlaugi sátt í málinu sem fælist í því að ég léti mitt mál gegn honum niður falla, gegn því að hann léti sitt niður falla.

-Við þessu varð ekki orðið.

Það er svolítið spélegt að hugsa til þess að Gunnlaugur Sigmundsson stefnir mér vegna meintra ærumeiðinga, en raunin er sú að hann sjálfur meiðir æru sína miklu meira en nokkur annar hefur gert.  Nafnlausar árásir úr launsátri eru ekki mjög vegsemdaraukandi.  Þessi stefna hefur kostað stórfé og mikið vesen.  Í ofanálag bregður hann sér í líki ímyndaðs Gautaborgara, og sendir mér nafnlausar aðdróttanir og svívirðingar sem er ekki hægt að hafa eftir. Það skal tekið fram að ég hef aldrei stundað níð á persónu Gunnlaugs, hvorki á netinu né með SMS-um og ég er ekki í þeim hópi sem hann nefnir sem einhverskonar réttlætingu á ógeðfelldum SMS-sendingum sínum til mín í yfirlýsingu sinni í Fréttablaðinu í gær.  Ég hef aldrei sent Gunnlaugi Sigmundssyni nafnlaus SMS – og raunar ekki neinum ef út í það er farið. Ég er ekki í þeim bransa.

Ég vil þó að eitt komi skýrt fram, sem kom ekki nógu vel fram í frétt Fréttablaðsins í gær.  Ég er sigurviss í þessu máli.  Ég er viss um að þetta blogg mitt sem byggt var á grein Agnesar Bragadóttur, flokkast ekki sem meiðyrði.  Sama gildir um setninguna sem framhalds-stefnan byggir á.  Það sem ég óttast er að þrátt fyrir að ég vinni þetta mál, muni það setja mig á kaldann klakann.  Þessi staða, þar sem allt er lagt undir þótt vinningslíkurnar er góðar, er þessvegna mjög hrollvekjandi fyrir mig og fjölskylduna mína.

Gunnlaugur Sigmundsson ber fyrir sig að hann hafi í einhvers konar örvinglan eða stundarbrjálæði, sent þessi SMS, vegna óbærilegs þrýstings frá hinum og þessum.  Ég trúi því ekki.  Ég held að Gunnlaugur sé ekki það titrandi smáblóm sem hann segir sig nú vera.  Hér kveður við annan Gunnlaug en þann sem sagði fólki að fara til helvítis í láréttri stöðu og þann sem rak undirmann sinn fyrir einhvern brandara.  Já og þennan hérna.   Þessa yfirlýsingu vildi Gunnlaugur að ég undirritaði.  Yfirlýsingu þar sem ég viðurkenndi að skrif einhverrar annarar manneskju væru „efnislega  röng af stórum hluta“.  Hvar hefur það komið fram?

Þar fyrir utan eru þessi SMS send á þriggja daga tímabili, ávallt á sama tíma dags, á virkum dögum.  Við þessa upptalningu er gaman að geta að þótt ég hafi aldrei ráðist að persónu Gunnlaugs hefur hann kallað mig opinberlega galinn mann.

Þetta mál er allt á einn veg.  Þetta er orðin mannlegur harmleikur og ég vona að Gunnlaugur láti nú staðar numið.  Sjálfs sín vegna.

En því miður óttast ég að þetta mál fer alla leið í Hæstarétt með tilheyrandi kostnaði fyrir mig.  Ég er alveg vissum að hagstæð niðurstaða Héraðsdóms muni ekki stöðva hugarangur Gunnlaugs M. Sigmundssonar í minn garð og annara sem hafa leyft sér að segja og skrifa það sem honum líkar ekki.

Í stóra samhengi hlutana má ekki gleyma því að þetta mál er hluti af uppgjöri við þann tíma í íslenskum stjórnmálum þegar aðliar tengdir Sjálfstæðis og Framsóknarflokki, sölsuðu undir sig ríkiseigur.  Nýlegar upplýsingar um sölu á hlut ríkisins í ÍAV er ágætis dæmi um það.  Ef að þeim sem högnuðust i þeirri ömurðar-refskák, geta með einhverju móti stýrt umræðu um sjálfa sig, erum við komin á vondan stað sem þjóð.

 

Site Footer