Slasaðist lítið.

Ég rak augun í skondna frétt á ruv.is. Fyrirsögnin greip mig samstundis og vakti upp ljúfar minningar um áþekka vitleysu. Fyrirsögnin var á þá leið að kona hafi „slasast lítið“. Áhugaverð spurning vaknar um hvort það sé frétt í sjálfum sér að kona hafi „slasast lítið“. Meiri tíðindi væri sjálfsast í því að konan hefði slasast mikið.

Svona ekki-fréttir vekja kátínu hjá mér.

Rögnvaldur gáfaði, stórskáld frá Akureyri hefur vakið athygli á undarlegum kveðskap sem allir þekkja um að það búi litlir dvergar í björtum sal. Litlir dvergar!.. Auðvitað eru þeir litlir! Þeir eru dvergar!. Enn furðulegra væri ef textinn á þá lund að það byggju stórir dvergar í björtum sal. Hugrenningar vakna um skilgreiningu á dverg. Svoleiðis hugleiðingar eru hollar hverjum þeim sem hefur áhuga á mannlífinu.

Eitt skondnasta ekki-fréttar mál sem ég þekki er þegar Hjalli frændi sagðist næstum því hafa hitt Lionel Richie! Lionel stundaði víst sömu krá í Oxford og Hjalli frændi og var víst nýfarinn þegar frænda minn bar þar að. Ég hló mig máttlausan. Ég veit ekki hvort það var sú staðreynd „að hafa næstum því hitt einhvern“ eða að á þessu augnabliki sá ég Lionel fyrir mér í laginu „Hello“ þar sem hann er með þráhyggju á blinda stúlku. Eitthvert viðbjóðslegasta myndband tónlistarsögunnar.

-Óborganlegt.

Site Footer