SKRIFAÐI Í FRÉTTABLAÐIÐ

Í dag birtist grein eftir mig í Fréttablaðinu á bls 34. Í greininni er ég að brýna fólk um að líta á sig sem borgara í staðin fyrir að líta á sig sem þegna. Ég er all sáttur við þessa litlu grein en ég tók eftir því að ég er titlaður guðfræðingur. Það er ekki rétt því ég er aðeins með B.A gráðu frá guðfræðideild. Þar sem ég er trúleysingi, er svolítið pínlegt að vera alltaf að leiðrétta það að ég sé verðandi prestur eða þvíumlíkt. Ég titla mig því oftast sem trúarbragðafræðing (þótt mig vanti masterinn) eða B.A í guðfræði. Ég verð að drífa í að fá mér master í e-u fagi svo ég sleppi við þetta prestabríksl… 🙂

Hérna er greinin:

Þegar Samfylkingin sveik á dögunum loforð um að ekki yrðu fleiri virkjanir byggðar á kjörtímabilinu gafst ég upp einhvernveginn. Ég hef fylgst náið með stjórnmálum frá því ég var u.þ.b. 15 ára og hef eins og allur almenningur horft upp á óteljandi viðsnúninga stjórnmálamanna í þennan tíma. Á sama tíma og umhverfisráðherra sagði pass við frekari virkjunaráformum, þvert á gefin loforð, var borgarstjórinn í Reykjavík að svíkja loforð um að ekki skyldi selja Fríkirkjuveg 11. Maður sem þó hefur gefið sig út fyrir að standa fyrir málefnin umfram allt annað.Þegar kosningasvik opinberast fer af stað sérkennilegt leikrit. Almenningur reiðist, blaðamenn komast í stuð. Letrið stækkar í dagblöðunum og almenn gremja fangar samfélagið. Stjórnmálamenn þekkja vel þetta leikrit enda eru þeir í aðalhlutverki og hafa margir hverjir verið í rullunni heilu og hálfu mannsaldrana. Þeir bíða bara. Bíða eftir að Lindsay Lohan detti í það eða næsta tapleik hjá landsliðinu. Svona mallar þetta uns komið er að kosningum og loforðalistinn er settur fram til þess að svíkja. Svo heldur leikritið áfram Á Íslandi hefur alltaf verið gjá á milli almennings og fulltrúa þessa sama almennings. Þessi gjá hefur breikkað með hverju árinu sem líður og nú er svo komið að mér sýnist algert rof hafi orðið milli almennings og stjórnvalda sem þó hafa það hlutverk að þjóna þessum sama almenningi. Stjórnvöld líta á sig sem útvalda elítu sem þiggur ofurlaun og þurfa ekki að standa reikningsskil orða sinna og almenningur lítur á sig sem stétt máttlausra og raddlausra plebea sem engu geta breytt. Þetta ástand er með sönnu ömurlegt og er skrípamynd af raunverulegu lýðræði. Prýðilegt dæmi um þetta rof milli almennings og efstu laga hins opinbera kerfis eru nýleg kaup Seðlabankans á jeppabifreið af dýrustu gerð. Aðspurður sagði fulltrúi Seðlabankans eitthvað á þá leið að þessi kaup hafi verið nauðsynleg því að það snjóaði svo mikið í vetur. Enginn fjölmiðill fjallaði um þetta fáránlega svar. Almenningur fattaði ekki hversu absúrd það er að seðlabankastjórar með margar miljónir í mánaðarlaun fái skaffaðan bíl frá ríkinu. Tvenns konar misskilningur var þarna að verka saman. Í fyrsta lagi upplifa bankastjórar það sem sjálfsagðan hlut að almenningur borgi fyrir þá jeppa af dýrustu gerð og í öðru lagi upplifir almenningur það sem sjálfsagðan hlut að keyptur sé jeppi fyrir bankastjóra. Hvort tveggja er dæmi um þetta rof. Bankastjórar þurfa ekki jeppa frá almenningi. Þeir búa að mér skilst flestir í Kópavogi ellegar í Skerjafirði og fara aldrei út fyrir bæjarmörkin í embættiserindum. Rökin um hinn snjóþunga vetur sem afsökun fyrir þessum kaupum eru hvort í senn ósvífin og ruddaleg. Það þarf engan jeppa til að komast úr Skerjafirði niður í Kolaport þegar snjóar.Viðsnúningur Þórunnar Sveinbjarnardóttur í stóriðjumálum er sárari en tárum taki og mun ekki bara skemma fyrir Samfylkingunni heldur íslenskum stjórnmálum almennt um ókomna tíð eða þar til almennilegt fólk tekur við. – Ef það þá gerist nokkurn tímann.Það er nefnilega til lögmál í íslenskum stjórnmálum og það er svona: Um leið og stjórnmálamenn komast í áhrifastöður þá miðast allur tími þeirra við að halda sér í viðkomandi stöðu hvað sem það kostar. Allur fagurgalinn og loforðaflaumurinn, baráttublikið í augnaráðinu, hnefinn á loft með sannfæringu þess réttláta, allt þetta hverfur í skuggann af milljónatékkanum sem kemur mánaðarlega inn um lúguna. Hverfur inn í vélarhljóðið á embættisdrossíunni, kafnar í hvininum í einkaþotunni, heyrist ekki fyrir skvaldrinu í kokkteilboðunum. Undantekning frá þessu lögmáli hefur enn sem komið er ekki komið fram.Afhverju er þetta svona? Hversvegna er þetta lögmál í gildi? Ég held að svarið sé ekki að finna í persónum stjórnmálamannanna heldur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Við Íslendingar lítum nefnilega á okkur sem þegna frekar en borgara. – Það er stór munur á þessu tvennu. Þegninn lítur svo á að opinberir starfsmenn séu drottnarar ellegar ósnertanlegir stjórnendur. Borgarinn lítur á opinbera starfsmenn sem þjóna. Um leið og við förum að líta á okkur sem borgara, hættum við að kvarta og förum að krefjast. Valdahlutföllin umturnast. Við ættum að fara að líta á konuna sem afgreiðir í tollinum sem þjón, ekki yfirvald. Við ættum að fara að líta á að LandCruiserinn í Seðlabankanum sé bíll í eigu Íslendinga allra, og við ættum síðast en ekki síst að líta á alþingismenn og ráðherra sem þjóna, ekki sem stjórnendur.

1 comments On SKRIFAÐI Í FRÉTTABLAÐIÐ

Comments are closed.

Site Footer