SKJÓTUM YFIR HANN SKJÓLHÚSI

Eva Haukdsdóttir bloggari hefur verið að segja sögu Mohammed Lo á blogginu sínu.  Hún ásamt fleirum eru að reyna sitt ýtrasta til þess að fá íslensk stjórnvöld til þess að veita honum hæli sem
flóttamanni við litlar undirtektir yfirvalda. 

Mohammed er nú í felum einhversstaðar á Íslandi vegna þess að það á að senda hann aftur til „upprunalandsins“.  Mohammed er sem sagt ekki nógu góður eða eitthvað fyrir Ísland. Hann var reyndar í boði íslenskra stjórnvalda fyrstu 30 daganna sem hann var á landinu en honum var kastað í fangelsi á Íslandi fyrir þann stórglæp að framvísa fölsuðum skilríkjum.  Ég legg reyndar aðra merkingu í orðið „skjalafals“ en það þegar flóttafólk er að reyna að bjarga sér.

Sú árátta stjórnvalda að fangelsa flóttafólk er okkur Íslendingum til ævarandi skammar.  Ég og Baldur Kristjánsson höfum verið að skipta okkur að áþekku máli.  Í því máli var par frá Írak, stungið í fangelsi fyrir sömu sakir.  Ekkert hefur gengið að fá upplýsingar hvar þetta fólk er niðurkomið þrátt fyrir miklar fyrirspurnir.

Ég hvet alla til þess að skipta sér að flóttamannamálum því þau eru í molum á Íslandi.  Við eigum að skipta okkur af samfélaginu sem við búum í.  Þannig og bara þannig getum við breytt heiminum. -Hann verður ekki góður að sjálfum sér.

Í Gautaborg þar sem ég bý, kom frétt í gær sem snerti mig svo mjög að hálfpartinn beygði af.  -Ég 42 ára gamall maðurinn, klukkan 07:20 við eldhúsborðið í húsi númer 2F í Birkikjarri.  Það fæddust þríburar í sjúkrahúsi  í borginni.  Nokkuð sem er alltaf svolítð fréttnæmt, en þessir voru heimilislausir.

Litlu krílin og mamma þeirra og bróðir voru nýkomin frá Sómaliu þar sem eiginmaður konunnar var drepin af morðvörgum.  Hún komst til Svíþjóðar eftir einhverjum krókaleiðum og eignaðist þessa sólargeisla fyrir rúmum mánuði síðan.  Ég leit á þessa mynd og það fór um mig stormur af allskonar tilfinningum.  Hvað heimurinn er ljótur og fallegur í senn og svo hvað vonin er sterkur þáttur í mannlegri tilveru.  Vonin um að allt fari vel.  Ég vona innilega og með öllu hjarta að þessir þrír spjari sig. Kannski má segja að ein leið til hamingjunnar sé að reyna eftir fremsta megni að breyta von í vissu.

Þríburar

Ég veit að þett fer allt vel..   -Ég er alveg viss.

Ég er ekki svo viss með Mohammed Lo.  Það er eins og kerfið á Íslandi sé einhverra hluta vegna mannfjandsamlegra.  Það er eins og fordómar séu meiri og illskeyttari.  Það er eins og regnið sé kaldara í Reykjavík.  Ég er samt vongóður um að við Íslendingar getum breytt þessu um leið og við skiljum að við berum ábyrgð á því að kerfið er mannfjandsamlegt.

Við berum ábyrgð á því.

Þetta er einfalt.  Ef að flóttamaður er í hættu og yfirvöld á höttunum á eftir honum, eigum við að fela hann og skjóta yfir hann skjólshúsi.  Það er skylda okkar sem manneskja og skylda okkar sem borgara. Tilvera Mohammeds er nú undir góðvild fólks eins og Evu Hauksdóttur.  Ekki stjórnvalda sem leynt og ljóst túlka lagabókstafi eftir þrengsta og smásmugulegasta farvegi.  Ég hvet alla sem vetlingi geta valdið að hringja í Útlendingastofnun og lýsa yfir áhyggum vegna þessa máls  Síminn er 510-5400.  Það er líka hægt að senda tölvupóst.  utl@utl.is

Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson er með netfangið ogmundur.jonasson@irr.is og aðstoðarmanneskjan hans, Halla Gunnarsdóttir er með halla.gunnarsdottir@irr.is.

Tökum þetta….

…..Breytum heiminum.

Site Footer