Skammarbréf


Eimreiðinni barst skammarbréf. Í bréfinu var ég skammaður fyrir að hrósa Helga Seljan fyrir vasklega framgöngu í viðtali við Ólaf F. Magnússon sem ku vera borgarstjórinn í Reykjavík. Bréfritari taldi að ómaklega hafi verið gengið að Ólafi F og að Helgi Seljan hafi truflað og gripið frammí fyrir Borgarstjóranum.

Þessu er ég að sjálfsögðu ósammála. Mér fannst framganga Helga vera fagleg enda er tilgangur með svona viðtölum að fá svör við spurningum en ekki einhvern „við-höfum-gert-frábæra-hluti-vaðal“.

Þótt að stjórnmálafólk fari stundum í mínar fínustu taugar þá hafa spyrlar gjarnan farið meira í taugarnar á mér. Það er eins og þeir átti sig ekki á að það er munur að fá svör við spurningum og að fá svör sem eru í tengslum við téðar spurningar.

Ég man eftir að einu sinni var Guðni Ágústsson spurður út í hátt verð á íslensku grænmeti. Hann svaraði því til að íslenska paprikkan væri afar bragðgóð.

-OG ÞAR VIÐ SAT.

Spyrillinn sætti sig við þetta svar Guðna. Með því að sætta sig við fáránleg svör við góðum spurningum er fréttamaður að bregðast hlutverki sínu og ætti að fást við eitthvað annað. Flest viljum við jú fá gild svör við spurningum þegar við spyrjum. Að sætta sig við hugleiðingar um bragðgæði paprikku þegar spurt er um verðlagningu á grænmeti er út í hött.

Helgi Seljan er að mínu mati besti spyrill sem íslenskt sjónvarp hefur átt og hann ætti að fá sem flesta í þáttinn til sín. Stjórmálafólk hefur alltof lengi komist upp með það að röfla eitthvað um paprikkur þegar það er spurt út í landsins gagn og nauðsynjar. Ólafur F ætlaði sannarlega að auglýsa sjálfan sig í stað þess að svara spurningum. Það er ótækt. Svoleiðis gengur ekki upp lengur.

3 comments On Skammarbréf

 • Uhh…

  tilsvar „Guðna Ágústssonar“ um að íslenska paprikan væri bragðgóð, var í áramótaskaupi.

  Þetta þótti svo hnyttið að menn fóru að hafa það fyrir satt að Guðni hefði sagt þetta. Jóhannes eftirherma viðurkenndi þó síðar í viðtali að hann hefði bara spunnið þetta upp á staðnum.

  Þig er því hressilega að misminna varðandi Guðna og paprikuna (án þess að ég vilji fara að leggja það í vana minn að verja Framsóknarmenn).

 • ó-nei.

  Þetta gerðist. 🙂

 • Í sjálfu sér skiptir litlu hvort paprikusagan sé sönn eða ekki. Ég las og fannst sennilegt – enda til mun grófri dæmi hvar stjórnmálamenn komast upp með svör sem eru í engu tengd viðkomandi spurningu.

  Þá má nefna hið sér-íslenska „þetta er ekki svara vert“, sem fréttamenn virðast bera óheilbrigða virðingu fyrir.

Comments are closed.

Site Footer