SJÁLFSTÆÐISKONUR SAFNA

Hafið þið einhverntíman fengið svona tilfinningu að þið séuð að hrapa þegar þið lesið eitthvað? Fengið svona tilfinningu eins og Vertigo-plagatið úr Hitskokk myndinni frægu lýsir svo vel?

Ég fékk svona tilfinningu þegar ég las að Sjálfstæðiskonur með Erlu Ósk Ásgeirsdóttur í fararbroddi, væru að safna fé fyrir Mæðrastyrksnefnd.

Ekki misskilja mig. Ég styð þetta framtak heilshugar en það eru hlutir í þessu sem trufla mig. Það er svo margt sem truflar mig í þessu sérkennilega sambandi. Sjálfstæðisflokksins og Mæðrastyrksnefndar. Í desember árið 2003 eða fyrir 6 árum síðan þá voru biðraðir fyrir utan Mæðrastyrksnefnd eins og oft er í desember, og Davíð Oddson, þáverandi forsætisráðherra var spurður af fréttamanni RÚV hvað honum fyndist um þetta í fyrirmyndarríkinu. Davíð fyrrtist við spurninguna og sagði svo eftirminnilega að það mynduðust alltaf biðraðir þegar eitthvað væri ókeypis.

-Já hann sagði þetta um fátæka fólkið á Íslandi.

Hann sagði þetta og ég verð ennþá reiður þegar ég hugsa til baka upp á hanabjálkann þar sem ég bjó á Ásvallagötunni þennan blauta vetur 2003. Ég var nefnilega sjáfur í biðröðinni þarna. Ég var sjálfur fátækur, ráðviltur og á botninum í lífinu mínu.

-Já ég var þarna.

Sporin voru þung í biðröðina. Ég var þarna. Beið eins og hinir. Hugrekki mitt brast þegar ég sá myndatökulið frá einhverri sjónvarpsstöðinni nálgast. þá gat ég ekki meir. Ég bara gat ekki meir. Það var svo um kvöldið sem ég heyrði skoðun forsætisráðherra landsins míns fólkinu í biðröðinni að mér féllust hendur. Það er svolítið skrítið að upplifa þetta. Að upplifa að æðsti maður embættismannakerfisins, sá sem ræður öllu, sá stóri, sá sterki, fyrirmyndin, samnefnarinn okkar, hefði þessa skoðun á mér.

-Að ég væri snýkjudýr.

Samband mitt við Sjálfstæðisflokkinn og Mæðrastyrksnefnd blandast þarna einhvernvegin saman. -Þannig er það nú bara. Þess ber að geta að hvorki Davíð Oddson né Sjálfstæðisflokkurinn eða Sjálfstæðiskonur ef því er að skipta, hafa aldrei nokkurntíman beiðist afsökunar á þessum orðum. -Aldrei. Það truflar mig svolítið.

Það er annað sem truflar mig varðandi Sjálfstæðiskonur og Mæðrastyrksnefnd. Það er hún Erla Ósk Ásgeirsdóttir varaþingmaður Sjálftæðisflokksins, formaður fjölskyldunefndar sama flokks og driffjöður þessara söfnunar. Hún hafði nefnilega þann starfa ásamt öðrum varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, Þórlindi Kjartansyni að markaðssetja Icesave reikninganna í Englandi og Hollandi. En tjónið af þessum svikareikningum lendir að hluta til á Íslendingum öllum.

Upphæðin er óklár og tölur hafa verið nefndar á blinu 1 milljón, allt upp undir 5 milljónir á hverja fjölskyldu í landinu. Allir sem eitthvað hafa fylgst með þjóðmálum á Íslandi undanfarin 10 ár vita að Sjálftæðisflokkurinn og Landsbankinn fléttast saman eins og teinar í kaðli. Nokkuð sem útskýrir hversvegna Landsbankanum einum var leyft að hafa þessi svikareikninga með heimilisfang á Íslandi en ekki í Hollandi eða Bretlandi. Það truflar mig að manneskjan sem vann við að markaðssetja þessa svikareikninga sé nú að safna fyrir fólkinu sem Icesave-fúskið verkar hvað mest á. Erla Ósk hefur aldrei útskýrt hlutverk sitt eða þáttöku þegar hún vann hjá Landsbankanum við markaðssetningu á Icesave. -Hún ætti að gera það áður en hún fer að safna.

Nú er ég ekki að segja að Erla Ósk sé höfðupaurinn í Icesave, að hún sé „sek“. Hinu er ekki að leyna að Erla vann við þetta og hún sleppur ekki frá því. Ekki frekar en ég þegar ég stóð í biðröðinni við Mæðrastyrksnefnd. Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og náttúrulega Sjálfstæðiskvenna á Icesave er óyggjandi.

Það er annað við söfnun Sjálfstæðiskvenna fyrir Mæðrastyrksnefnd sem truflar mig. Formaður Velferðarráðs Reykjavíkur, Sjálfstæðiskonan Jórunn Frímansdóttir gat ekki svarað því hversvegna framfærslustyrkur til handa fólki í fjárhagsvanda, væri lægstur í Reykjavík. Að sérstök desemberuppbót tæki ekki mið af barnafjölda og greiddist aðeins út ef viðkomandi fjölskylda hafi verið styrkþegi í 6 mánuði. Hún gat ekki svarað því og varð það sem stundum er kallað kjaftstopp. Ég hvet ykkur til að horfa á þessa frétt. Afhjúpun gæti einhver kallað viðbrögð Jórunnar því alveg óvænt sést inn í hugsanaferli hennar. -Hún skilur ekki vandann.

Sjálfstæðiskonan Jórunn Frímannsdóttir og formaður Velferðarráðs Reykjavíkur sagði hinsvegar að „hjálparstofnanir væru yndislegar“. -Þar höfum við það. Mér sýnist ekki vera eðlismunur á skoðun Jórunnar á fátækum Reykvíkingum og skoðunum Davíðs Oddsonar. það er blæbrigðamunur á skoðunum þessa tveggja. Stefnan er að gera sem minnst og láta einkaframtakið um það að hjálpa. Formaður Velferðaráðs Reykjavíkur er sannarlega í stöðu til að hjálpa.

-En gerir það ekki.

Ég leyfi mér hérmeð að endurtaka spurninguna sem Sjálfstæðiskonan Jórunn gat ekki svarað. Hversvegna er ekki veittur sérstakur jóla-styrkur fyrir barnafjölskyldur sem er eyrnamerktur hverju barni?

Það væri frábært ef Jórunn svaraði þessu. Ennþá frábærara væri ef að Reykjavíkurborg sýndi í verki samhug til fátækra Reykvíkinga og setti svona styrk á laggirnar.

Þó að þessi atriði sem ég hef talið hér upp að ofan trufli mig svolítið þá hvet ég alla til að taka þátt í því að safna fyrir Mæðrastyrksnefnd. Framtakið er gott þótt að safnararnir sjálfir séu vafasamir.

27 comments On SJÁLFSTÆÐISKONUR SAFNA

 • Þetta er nákvæmlega það sem er að Íslandi…

  Það má enginn gera neitt, því hann er afi, bróðir eða frænka þessa, eða hann er með vitlaust flokkskirteini, las vitlausa bók eða hann og allir í kringum hann eru vitleysingar skv. netinu o.s.frv.

  Þetta er vangefinn stofn, þessi íslenski stofn…

  kv,
  Einn Vangefinn

 • Þeir eru aumkunarverðir flestir íslenskir "blaðamenn". Ég hef hvergi séð að þeir hafi athugað ofan i kjölinn, ummæli Jórunnar?
  Ólafur S.

 • Þótt höfundur hrunsins sé ekki stór í sniðum, þá er fallið hátt.

  Hjörtur Hjartarson

 • hehe… skondið að sjá hvað hún verður kjaftstopp.

 • Já ég lenti einmitt í þessu þegar ég las fréttina í Fréttablaðinu. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta. Kannki hvort tveggja. En þetta er náttúrulega snilldar áróðursbragð hjá sjálfstæðisflokknum, alveg brilljant og fólk mun einmitt hugsa: "Jú þeir kúkuðu á sig, en nú er komið nýtt fólk með nýjar lausnir og er að gera eitthvað í samfélagsmeinum landsins." Þetta er sú hugsun sem er svo skaðleg og þeir munu vinna sitt fyrra fylgi aftur.

  En ég hafði ekki hugmynd um þátt hennar Erlu í Icesave. Gott að rifja það upp.

 • Minni á skýrslu Hörpu Njáls þar sem fram kom að helsta orsök þarfar á aðstoð góðgerðasamtaka á Íslandi hefði verið niðurskurður á félagsaðstoð R-listans.

  Steinþór

 • Það væri hugmynd að hækka útsvar Reykjavíkur um þá upphæð sem ætti að duga til að styrkja mæðrastyrksnefndina fyrir næstu jól… en nei það má ekki hækka útsvarið, það er nefnilega svo ótrúlega slæmt að borga samfélagslega skatta.

 • Ég man eftir þessum orðum Davíðs eins og þau hafi verið sögð í gær. En hann sagði eftirfarandi ,,Íslendingar hafa svo gaman að því að fá eitthvað fyrir ekki neitt" svo glotti hann af því hvað hann væri fyndinn. Og þetta er átrúnaðargoð margra, alveg með ólíkindum hvað fólk getur fundið sér mikla hálfvita til að líta upp til.

  Kveðja, Valsól

 • Steinþór 15:34.

  Pillastu upp úr skotgröfinni. Það skiptir engu máli þótt Samfylkinin hafi skorið niður í þessum málaflokki. Þetta blogg er ekki um það þótt þú sjáir það kannksi enni, enda lítið útsýni neðan úr drullupollinum í botni skotgrafarinnar.

  Þetta er ekki hægri/vinsti. Þetta er bara hugleiðing mín um þess söfnun.

  Það að ég gagnrýni Sjálftæðisflokkin gerir mig ekki að Samfylkingarmanni. Ef þú fattar það ekki ættir þú að fara í meðhöndlun. Ágætis byrjun væri að skoða síðuna http://www.uppurskotgrofunum.is

  Þetta er óþolandi skotgrafaástand. Og taktu eftir að stjórnmálamennirnir nota það sér til skjóls þegar það hvessir.

  Gísli Marteinn var drjúgur að benda á að ISG hefí LÍKA verið á launum frá borgarbúum á meðan hún var í námi.(hefur þú hugsað út í hversu banalt það er, hversu mikil frekja þetta er?) Svo skal böl bæta með þvi að benda á annað. En ég skal segja þér eitt. Ingibjörg Sólrun hafði LÍKA rangt fyrir sér.

 • Ótrúlega veruleikafirrtar kellingar. Myndi ekki treysta þeim fyrir einseyringi.

  Ég treysti flokknum þeirra löngum fyrir atkvæði mínu. Það traust er farið. Meðan ekki er tekið til í flokknum, þá kemur það atkvæði ekki til baka.

 • Sammála þér að söfnun fyrir mæðrastyrksnefnd er gott mál, en ráðlegg heldur fólki að gefa sitt framlag beint til nefndarinnar (Kt. 470269-1119 – Banki: 0101-26-35021). það er engin þörf á að nota "sjálfstæðiskonur" í því sambandi. Þær ættu heldur að vinna að réttlátara þjóðfélagi, þar sem ENGINN þarf að standa í biðröð, til að fá mat.

 • Heyr Heyr! Snæbjörn

  þetta ástand (engar biðraðir)er reyndar viss draumsýn en við eigum að setja meiri kraft í það að hjálpa þeim verst stöddu. Samfélagið allt. Sumstaðar á ekki að spara. Þetta er spurning um FORGANGSRÖÐUN.

 • Hættu eineltinu Teitur.

 • Ég gæti "bíbb" þessa "bíbb, bíbb, bíbb" Jórunnar "bíbb".

 • Flott færsla.

  Hvet alla til að gefa sína peninga beint til Mæðrastyrksnefndar en ekki í gegnum þessar Sjálfsæðiskonur. Ætli IceSaveErla sofi betur á nóttinni eftir að þessi söfnun fór af stað.

  Þetta er soldið eins og einhvern hafi kveikt í húsinu þínu og mæti síðan seinna og aðstoði þig við að grafa eftir einhverjum verðmætum í rústunum. Þvílíkir hippókratar!

 • Já… góð skotgröf sem þú bjóst þér til á Silfrinu áðan samt…

  Skil ekki hvað þú ert betri…

  ————————-

  Annars er þetta einfalt, hvort sem það er D, S, VG, B eða Y… þá ráða núverandi Þingmenn ekki við verkefnið…

  D, S og B eiga sök á hruninu,

  S og VG munu eiga sök á gjaldþrotinul…

  allt saman skítapakk…

  Skál…

 • Þessi Jórunn mynnir á Söru Palin enda innrætið eftir því.

 • Iceslave-stjórnin rústar efnahag Íslands og Teitur er fúll yfir því að Sjálfstæðiskonur (sem að hans mati eru mjög vondar konur eins og allir sem eru í þeim flokki) hjálpi til við að styðja Mæðrastyrksnefnd. Vælir svo yfir því að hann hafi einhverntímann þurft á aðstoð að halda þrátt fyrir að vera sonur Atla Heimis og fæddur með silfurskeið í munni.

  Hræsnari.

 • Það er réttnefni að kalla blaðamenn í dag hljóðnemastandara eins eða einfaldlega ritara, allaveganna á blaðamennska í daga fátt skylt við gagnrýnaeða metnaðarfulla blaðamennsku. Herra nafnlaus hér fyrir ofan ætti að lesa sér til um hvað það er að vera hræsnari. Ég ætlaði að leyfa mér að verða móðguð fyrir hönd Teits en aumingjar sem geta ekki drullað yfir annað fólk undir nafni eiga bara vorkunn skilið. Þessir pólítíkusar draga í ljósið skipun dagsins fyrir aðdragandi næstkomandi sveitastjórnakosninga, það á að vera aumingjagóður við lítilmagnann korteri fyrir sveitastjórnarkosningingar, þær eru bara svo skynlausar og áhugalausar um málefnið að ég vona að fólk sjái í gegnum þessa hræsni.

 • He he he. Hljóðnemastandara… 🙂

  Helvíti gott hugtak yfir duglausa fréttamenn.

  Annars er mér alveg sama hvað ég er kallaður hérna. Ég hef bara tvisvar eitt bloggi. Morðhótun í garð einhvers útrásarvíking og eitthvað kynþáttahatur.

  -That's it.

  Mér þykja þessar nafnlausu athugasemdir fínar. Þær styrkja bloggið ef eitthvað er því flestar eru í góðu lagi. Sumar mjög fínar.

 • Þetta er nú ekki mjög málefnalegt hjá þér Teitur, og í raun ansi sjálfhverfur pistill. Þín röksemdafærsla byggist á því að af því að DO talaði fyrir mörgum árum mjög ósmekklega um biðraðir nauðþurftra (þegar þú varst í þeim hópi) að þá má ekkert sjálfstæðifólk vinna að því góða málefni.

  Mér leiðist að valda þér og áhangendum þínum vonbrigðum, en þessi söfnun er ekki tækisfærismennska eins og þú vilt láta í ljós skína. Samvinna sjálfstæðiskvenna og Mæðrastyrksnefndar nær til ársins 1939, já fyrir þína tíð og jafnvel DO líka, eins og lesa má á heimasíðu Mæðrastyrksnefndar:

  "Árið 1939 var (Mæðrastyrks)nefndin endurskipulögð og gerð að sjálfstæðri stofnun. Er nefndin nú samstarfsverkefni 8 kvenfélaga sem eru: Kvenréttindafélag Íslands, Hvítabandið, Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna, Félag háskólakvenna, Kvenfélag framsóknarkvenna, Kvenfélag Alþýðuflokksins, Thorvaldsensfélagið og Húsmæðrafélag Reykjavíkur."

  Nær væri að beina þessari neikvæðu umræðu sem á sér stað hér í uppbyggilegri farveg, og sleppa því að gera lítið úr fólki sem er aðeins að reyna láta gott af sér leiða fyrir málefni sem mér sýnist allir geta sameinast um.

 • Nei Hreinn. Þú ert að skila þetta eitthvað vitlaust.

  Ég hvet fólk einmitt til að leggja Mæðrastyrksnefnd lið.

  Ég er ekki að segja að fólk skuli sniðganga Sjálfstæðiskonur vegna þess að DO hafi sagt ósmekklega hluti. Ég segi að það trufli mig að Sjálfstæðismenn hafa aldrei gagnrýnt þessi ósmekklegu ummæli Davíðs.

  Mér finnst þetta skipta máli.

  Ég segji svo hvergi að þessi söfnun sé tækifærismennska. það hefur þú annarstaðar frá.

  Ég segi að það trufli mig að Erla Ósk, ein af höfðupaurum í markaðssetningu á Icesave sé að vinna við þessa söfnum, fyrir m.a fórnarlömb bankahrunsins.

  Ég segi líka að það trufli mig að Jórunn Frímanns, formaður velferðarráðs sé ábyrg fyrir því að framfærslustyrkur er einna lægstur í Rvk miðið við önnur sveitarfélög.

  Sjálfstæðisflokkur getur ef hann vill, lagað stöðuna stórlega fyrir þá mest þurfandi.

  -En hann gerir það ekki.

 • Magnaður pistill, hverju orði sannara.

 • já úff…þetta er bara hryllingur að horfa uppá.

 • Nú virkar ekki lengur linkurinn hjá þér inná fréttina þar sem Jórunn gerir í buxurnar.

  Hann virkaði fínt í gær.

  Athyglisvert.

 • Ég hef grun um að aumingjadómur íslensku blaðamannastéttarinnar skýrist einmitt af þessum skotgrafarhernaði sem eitthvað hefur verið nefndur hér í athugasemdum. Stjórnmálamenn á Íslandi hafa verið duglegir víkja sér undan sannleikanum með því að stimpla alla gagnrýni og rannsóknarvinnu í fjölmiðlum sem vinstri- eða hægrislagsíðu. Blaðamönnum er haldið í skefjum með því að veifa stimplinum ef þeir ganga um of eftir svörum við óþægilegum spurningum eða grafa um of eftir óþægilegum upplýsinum. T.d. þegar RÚV gerist um of gagnrýnið á Sjálfstæðisflokkinn og störf Davíðs Oddssonar "þá sjá allir að fréttastofa Ríkisútvarpsins er höll undir Samfylkinguna." Og fólk gleypir við því. Blaðamenn bakka vegna þess að þeir vita að þeir mega ekki gera of marga of reiða of lengi, annars eru þeir stimplaðir áhangendur hins eða þessa stjórnmálaflokks.

  kv.
  Andrés Björgvin Böðvarsson.

 • Heyr heyr Andrés.

  Nákvæmlega málið. Birtingarmyndir skotgrafanna eru allskonar og þessi sem þú lýsir er af þeim. Fréttastofa RÚV er ýmist kölluð Baugstíðindi eða Bláskjár.

  Enginn. Ég endurtek ENGINN hugsar um hvort sannleikurinn skipti einhverju máli. Hvort staðreyndir skipta einhverju máli.

  Allir eru nefnilega í drullubolta. og voða gaman.

Comments are closed.

Site Footer