Sjálfstæðisflokkurinn gerir kerin klár.

Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að vera boðinn í doktosvörn vinkonu minnar í háskólanum í Utrecht í Hollandi. Athöfnin var sérstaklega eftirminnileg og þrunginn eldgömlum hefðum. Vinkona mín varðist spurningum prófessoranna fimlega og eftir nákvæmlega 45 mínútur gékk inn einhverskonar tímavörður sem endaði spurningaflóð prófessorana með því að dúndra niður í gólfið einhverju priki sem á voru klingjandi látúns bjöllur og endaði þannig með hvelli 5 ára þrotlausri vinnu.

Hið mjúka Holland eins og Halldór Laxness sagði er frábært land. Lítið, þéttbýlt, ákaflega frjósamt og íbúarnir óskaplega vingjarnlegir. Ég hef komið til Leiden, Amsterdam og nú síðast Utrecht. Allt saman einstaklega frábærar borgir og þá sérstaklega Leiden og Utrecht. Amsterdam er stór og sker sig að ég held aðeins frá öðrum borgum í Hollandi. Þeir Hollendingar sem ég þekki þykir ekki sérstaklega mikið til hennar koma. Hún er hinsvegar ofboðslega sérstök með öllum sínum síkjum og 17 aldar skipulagi. Það var sérstaklega áhugavert fyrir mig sem Gautaborgara að koma til Amsterdam en Gautaborg var einmitt reist af hollenskum kaupmönnum sem grófu síki þvers og kruss eins og þeir voru vanir í heimalandinu. Hollenska var opinbert tungumál í Gautaborg alveg fram undir 18. öld. Tungumál Hollendinga er ekkert sérstaklega erfitt að skilja. Við hjónin skildum amk flestar auglýsingar og hreimurinn venst. G-ið er borið fram með sérstöku kok-hljóði sem venst fjótt. Mér er sagt að hollenska sé einfaldari en þýska og sýnist hún vera blanda af skandinavísku, ensku og þýsku.

Eins og flestir vita þá fóru íslenskir bankamenn ránshendi um Holland með Icesave-reikningum. Málinu hefur reyndar verið snúið á haus á Íslandi og ein mesta fjölmiðla-furða sem ég hef upplifað gengur út á að það voru Hollendingar sem hafa farið illa með Íslendinga! Þetta er fyrir mér þvílík furða að ég fæ einhverskonar tómlætistilfinningu þegar ég hugsa um þetta og get aðeins jafnað þessum lyga-áróðri við að þegar fórnarlambi nauðgunnar er kennt um sjálfa nauðgunina.

Íslendingar eru ekkert sérstaklega vel séðir í Hollandi. Þeir eru álitnir ræningjar. Ég var tvisvar sinnum var við þetta á þessu stutta ferðalagi mínu um landið mjúka. Einu sinni í lest þegar ég og ferðafélagar okkar vorum að tala saman þá stungu einhverjir farþegar nefjum saman og ég heyrði orðið „icesave“ inn á milli óskiljanlegra orða. „A-ha. Íslendingar á ferð“. Svo var það í pósthúsi þar sem ég var að senda dóttur minni pakka. Þegar afgreiðslumaðurinn sá hvert pakkinn var að fara, skaut hann á mig augunum og sagði eins og með kuldahrolli „brrrr“ og ygldi sig.

Takk Landsbanki. Takk. Takk Kjartan Gunnarsson og Sigurjón Árnason. Takk Þórlindur Kjartansson. Takk.

Ég held að fáir hafa gert sér í raun grein fyrir skaðanum sem Icesave-reikningarnir hafa valdið okkur. Ekki bara hið óskaplega fjárhagstjón sem allir eru að rífast um heldur er æra íslensku þjóðarinnar komin ofan í ruslatunnuna og verður þar sennilega í nokkra áratugi. Svo hefur heil atvinnustétt þurkast út. Allur íslenski fjármálageirinn er ónýtur. Enginn treystir Íslendingi í jakkafötum. Tjónið er því óskaplegt.

Meðan ég gekk um tígulsteinslagðar göturnar í Utrecht leiddi ég hugann að því hvernig við Íslendingar gætum afsakað þennan hroða. En það er eiginlega ekki hægt. Ekki dugir að senda forsetann því hann var innvínklaður í allt sukkið og nýtur einskis trausts meðal þjóðarinnar. Væri sniðugt að slá saman í auglýsingu í viðlesnu hollensku blaði? Hvað segja almannategnlarnir?

Það er nefnilega svo að tjón Hollendinga er meira en mögulegt tjón Íslendinga af þessu Icesave-ógeði. Íslendingar ábyrgjast 20þús evrur og svo ábyrgjast Hollendingar 80þús evrur í viðbót. Allt umfram það er tapað fé. Nú veit ég ekkert um hvað margir áttu 100 þúsund evrur eða meira í þessum glæpa reikningum en ég veit að mörg hollensk sveitarfélög og líknarsamtök létu glepjast og fluttu rosa-upphæðir inn í Icesave. (sumir sjálfstæðismenn ganga svo langt að segja að „þeim var nær“ að treysta Icesave. Athugið að aftur er glæpurinn fórnarlambinu að kenna)

Allt þetta fé er tapað.

Hollendingar brugðust við þessum töpuðu skattpeningum á hátt sem Íslendingar skilja sjálfsagt ekki. Þeir sem ábyrgð tóku voru látnir hætta. Nú veit ég sjálfsagt að erfitt er fyrir suma að skilja til hlýtar en í víðast hvar í Evrópu bera embættismenn ábyrgð. Ég ætla ekki að reyna að útskýra þetta nánar en svona er þetta.

Á Íslandi er þessu öðru vísi farið. Svikahrapparnir í Icesave ganga lausir og margir hverjir í sömu stöðum og fyrr. Heilinn bak við markaðsherferð svika-reikninganna var kosin á þing fyrir Sjálfstæðisflokksinn. Í Hollandi eru skúrkarnir látnir gjalda en á Íslandi fá þeir pólitíksa upphefð. -Athugum það! Þegar Hollendingar komast að þessu (sem gerist fyrr eða síðar) mun æra okkar Íslendinga bera enn meiri hnekki þótt erfitt sé að ímynda sér það að hægt sé að falla neðar en þar sem botninn liggur

Hollendingar horfa nefnilega líka á Kastjósið alveg eins og Bretar og eru með fólk sem beinlínis vinnur við að upplýsa stjórnvöld í Haag og London um hvað gerist í íslenskum stjórnmálum. Nei þetta eru ekki njósnarar heldur sendiráðsstarfsmenn. Þetta er vinnan þeirra. Það hefði sparað okkur Íslendinga ófáa miljarðana ef að þáverandi Seðlabankastjóri, Davið Oddson hefði vitað þetta þegar hann gaspraði um að Íslendingar ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar.

Já orðræðan á Íslandi er sú að Icesave var Hollendingum að kenna. Ég er fullviss um að eftir nokkra mánuði verður almannarómur sá að efnahagshrunið hafi verið Steingrími J að kenna. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur stórsigur og Baldur Guðlaugs verður gerður að sendiherra í Hollandi. Náhirðin kætist og vildarvinir FLokksins gera kerin klár. Hrogin eru nefnilega að koma eftir smá brælustopp. Önnur birtingarmynd þessa er að nú kennir FLokkurinn Agli Helgasyni um allt sem miður fer. Hafið pælt aðeins i því? Þetta er af sama meiði. Allt öðrum að kenna nema FLokknum. Aldrei, aldrei, aldrei er horft í eigin barm. Allt er öðrum að kenna. Ef það það hentar, þá eru fórnarlömbin gerð að sökudólgum. Ég hvet ykkur lesendur góðir að staldra aðeins við þá pælingu.

Það vantar margar blaðsíður í þjóðarsál Íslendingsins. Íslendingurinn er í raun „sveitalúði“ eða hillbillí. Fávís og hrokafullur ruddi með ranghugmyndir um sjálfan sig og þúfuna undir fótum sér.

Ég vildi að ég gæti sagt „verði ykkur að góðu“. Ég bara get það ekki. Við eigum ekki að láta hrunshyskið fá landið okkar aftur. -Ekki baráttulaust að minnsta kosti.

33 comments On Sjálfstæðisflokkurinn gerir kerin klár.

 • Ef ég á að segja eins og er, þá er stundum eins og maður sé að berja hausnum við stein, hér heima, þegar kemur að því að tala um þetta við sumt fólk.

  Þessi þjóð er með svo mikla rörsýn á hlutina, stekkur eftir "vondir útlendingar, íslendingar fórnarlömb"-lýðskruminu 1,2 og 3 og virðist stundum ekki hugsa hugsun til enda.

  En það er allavega öruggt að ef þessi svartsýnisspá þín um framtíð undir oki í óréttlátu samfélagi Sjálfstæðisflokksins, að þá verður maður að spyrja: hvert skal flytja?

 • Mikið rosalega er ég sammála þér,ég er hætt,já hætt að taka þátt í þessum "kaffitíma" samræðum hér heima í vinnunni einfaldlega vegna þess að ég nenni ekki að láta kalla mig landráðamann.
  Eins og við þykjumst vera svo klár og mikið menntuð þá getum við enganveginn hrist af okkur "sveitagöngulagið" og viðukennt okkar sök á þessu og auðvitað bylur hæst í ValhallarFLokknum, DO, Hr.Hólmsteini.

  Heiður,fyrrv. Gsutaborgari og Lundúnarbúi og nú fórnarlamb FLokksins – flokksins sem ég hef ALDREI kosið !

 • Átti auðvitað að vera fyrrv. Gautaborgari 🙂

 • Það hefur margoft sýnt sig þegar áföll dynja yfir, sem krefjast uppgjörs af einhverju tagi, þá virðast sumir álíta að betra sé að snúa upp á veruleikann og laga hann að óhagganlegri skoðun, fremur en laga skoðun sína að breyttum aðstæðum. Kannski þjónuðu slík viðbrögð einhverjum tilgangi þegar maðurinn þurfti að berjast við óblíð náttúruöfl, en hinsvegar þegar meta þarf spillingu og rangsleitni í mannlegu samfélagi eru þau bæði heimskuleg og varasöm.

 • að upplifa svipað og þú héðn frá Torreviejasvæðinu á Spáni sem er mjög fjölmenningarlegt samfélag. Það er ekki með stolti sem ég kynni mig sem íslending, takk davíð oddson og Co.

  Ég upplifi íslendinga sem hrokafulla óagaða monthana með mikilmennskubrjálæði.

  Nú er slæmt að alhæfa svona, auðvitað fullt af yndislegum íslendingum, en eftir allt sem yfir okkur hefur dunið og sjálfstæðis- og framsóknarmennen með stuðning hátt í helming þjóðarinnar segir allt sem segja þarf.

 • Gott ráð: segist vera frá Færeyjum…virkar mjög vel allavega þar sem fólk veit á annað borð að Færeyjar eru til líkt og hér í DK. Búinn að nota þetta í nokkra mánuði og gefst vel. Kaus aldrei flokkinn og sé því ekki hvers vegna ég á að líða fyrir heimsku og glæpi flokksins. Íslendingar eru ekki bara hillibllýar…ég held að skyldleikaræktun spili stærra hlutverk hjá okkur en flestum slíkum.

 • svo rétt en flestir heima kjósa bara að stinga höfðinu í sandinn og vona þetta líði bara hjá. Verst verður ef enginn verður dæmdur af alvöru fyrir þetta og meirihlutinn gefi bara sitt áframhaldandi þögla samþykki.

 • þetta er beinlínis fáránlegur málflutningur. Rétt að minn þá á sem telja að allt sé betra og réttara í útlöndum að Hollendingar eru gömul nýlenduþjóð sem fór ránshendi og kúgaði fjölda þjóða um allan heim. Við almenningur viljum með óbragð í munni borga allar þær skuldir sem okkur ber að réttu. Engar skuldir vegna gallaðrar Evróputilskipunar, engar skuldir vegna trúgirni ríkra útlendinga, ekki frekar en við fáum bætt svik sænskra pýramídafyrirtækja á Íslandi

  kv
  Ólafur

 • Hvað er svona fáránlegt við málflutning minn ágæti Ólafur?

  Mér þykir fáránlegt að spyrða saman nýlendusögu Hollands og Icesave-málinu. Ertu að segja að rányrkja Landsbankans hafi verið í lagi vegna þess að Hollendingar réðu yfir Indókína fyrir 200 árum síðan?

 • Hvað er að okkur Íslendingum? Við höfum mannorð að verja, eða réttara sagt að reisa við. Skilur fólk ekki hvað það er mikilvægt að hafa gott mannorð? ..eða erum við að stóla á að allir gleymi þessu eftir nokkra mánuði, eins og við gerum hér heima?!

 • Sammála Ólafi hérna í athugasemdarkerfinu.
  Bæði Hollendingar og Bretar eru illa þokkaðar nýlenduþjóðir sem kúguðu og fóru ránshendi um þau lönd sem þeir tóku yfir.
  Þetta eru ribbaldaþjóðir. Ég skil ekki hvernig þú getur mært þessar þjóðir.
  Gordon Brown er illa þokkaður "hooligan" enda úr Verkamannaflokknum, systurflokki Samfylkingarinnar.
  Hefði þessi Mr. Brown aldrei sett á okkur óréttmæt hryðjuverkalög, hefðum við aldrei fengið Icesave-skuldbindingarnar í hausinn frá þeim.

  Mikið mun ég fagna þegar þessi Brown og ribbaldaflokkur hans fer frá völdum í Bretlandi.

  Icesave er afurð illahannaðra laga og reglna hannaðra af ESB og troðið var upp á okkur í formi EES-samnings.

  Þessi pistill hjá þér er með endemun vitlaus og naiv og þar að auki gegnsýrður af vinstrimennsku.

  M.k.

  Andrés

 • Ég skil ekki síðasta innlegg. Ef að Hollendingar og Bretar illaþokkaðar nýlenduþjóðir…

  ..er þá í lagi að fara ránshendi meðal þegna þeirra?

  Mér sýnist þetta innlegg skýra betur en öll blogg og blaðagreinar um hve heimskir sumir Íslendingar eru. Heimskir ruddar með ranghugmyndir um sjálfa sig og veröldina í kringum okkur. Verst að þessi heimska endurómar í sölum Alþingis.

 • Fyndið að orðið "heimska" á sér rót í orðinu "heima".

  Hinn heimski er alltaf heima hjá sér í andlegum og veraldlegum skilningi.

 • Sannfærður um að Andrés og Ólafur eru skólabókardæmi um kjósendur sjálfstæðisflokksins. Þeim er t.d hægt að lýsa eftirfarandi:
  Hér er ég,
  um mig,
  frá mér,
  til mín.

 • Mér sýnist síðasti nafnleysinginn hér sem og síðuhöfundur vera dæmigerðir kjósendur Samfylkingarinar og annarra vinstriafla, sem vilja láta útlendinga og þá sérstaklega ESB taka sig í r…gatið af einskærum undirlægjuhætti.

  Íslendingar fóru ekkert ránshendi um Holland og Bretland eins go síðuhöfundur þráfaldlega heldur fram af einskæru skilningsleysi sínu á eðli málanna.

  Og mér finnst ekkert í lagi að Íslendingar fari ránshendi um aðrar þjóðir, í þessu tilfelli Bretland og Holland þó þessi lönd hafi eitt sinn verið nýlenduveldi sem fóru ránshendi um nýlendur þær sem þeir slógu eign sinni á.

  Það er undarlegt að heira "frelsisunnandi" vinstrimenn vera bera blak af gömlum nýlenduveldum. Þessir sömu vinstrimenn styðja ævinlega þau ríki sem eru undir nýlenduoki erlendra velda, (eða amk. þykjast gera það þegar við á).
  En það er svo sem ekkert skrýtið, vinstrimenn hagræða alltaf veruleikanum málstaði sínum í hag.

  Ég segi enn og aftur, ÞAÐ ER MR. GORDON BROWN AÐ KENNA AÐ FJÁRMÁLAKERFIÐ HRUNDI HÉR Á LANDI MEÐ SETNINGU HRYÐJUVERKALAGA, OG ÞESS VEGNA ERUM VIÐ Í VANDRÆÐUM ÚT AF ICESAVE.

  Þetta er ofviða skilningi ykkar vinstrimanna, enda mynduð þið aldrei trúa neinu illu á samherja ykkar í Verkamannaflokknum Breska.

  Mr. Brown hefur gerst sekur um glæpsamlega efnahagslega hryðjuverkaárás í hagkerfi Íslands og ætti að dragast fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól fyrir vikið.
  Í enskærum undirlægjuhætti vilja núverandi stjórnvöld ekki bregðast af hörku gegn Brown og félögum, enda má ekki spilla ESB-ferlinu.

  En eitt er víst. Þegar stjórnvöld með vita komast til valda hér á landi, þá verður þessi Mr. Brown og glæpaklíka hans dreginn fyrir alþjóðalegan stríðsglæpsdómstól.

  Kv.
  Andrés.

  Ps. Vertu ekki að þess hoki þarna úti í Gautaborg. Farðu nú að koma þér heim drengur til að bjarga landi og þjóð. Þú hefur greinilega svo mikið til málana að leggja, að þú hlýtur að geta reddað okkur.

 • Staðreynd:
  Glitnir og Landsbankinn voru hrundir þegar Bretar settu á hryðjuverkalögin. Kaupþing hefði kannski tórt viku í viðbót. Eins og lánabókin þeirra sýndi var Kaupþing bara froða. Prófaðu að lesa fréttir fyrir nýja tímatal Sjálfstæðismanna. (FlokksÁrið 1 = 1. febrúar 2009 samkvæmt Gregoríanska tímatalinu)

  Og nei, ég er ekki Samfylkingarmaður. Ég fyrirlít algjörlega alla íslenska stjórnmálaflokka því þeir eru uppfullir að gerspilltu undirmálsfólki sem aldrei gæti unnið fyrir sér utan opinbera geirans.
  Ísland verður ekki endurreist með liðinu sem nú situr á Alþingi. Rúmlega helmingurinn var djúpt innvinklaður í hrunið. Það sést best á málsmeðferðinni nú fyrir helgi þegar afbrigði voru veitt og allir flokkar sem einn keyrðu í gegn að hægt væri að afskrifa lán til afleiðuviðskipta og hlutabréfakaupa. Rétt náðist að stöðva að það yrði skattfrjálst.
  Gjörspilt Alþingi.

 • Þjóðverjar bönnuðu FLokkinn sem rústaði þeim.
  Hér styðja 35% hann.
  FLokkinn á að banna hér.
  Hinum tveimur á ekki að leyfast að bjóða fram í a.m.k. næstu kosningum.

  Kissinger var orðvar þegar hann sagði Íslendinga hrokafyllstu (most arrogant) þjóð sem hann þekkti.

 • Blablabla breska samfylkingin blablabla illu nýlenduveldin blablabla kúguð örþjóð blablabla.

  Andrés er að gera sitt allra besta til þess að staðfesta niðurstöðu bloggarans um gáfnafar Íslendinga.

  Íslenska fjármálakerfið var loftbóla sem óhjákvæmilega sprakk. Bresk stjórnvöld komu ekki nálægt falli Glitnis eða Ránsbankans. Bresk stjórnvöld veittu Kaupþingi hinsvegar náðarhöggið en sú bankastofnun var sennilega sú af þríeykinu sem var mest rotin að innan og átti aldrei möguleika á að lifa þetta af.

 • Ég er sammála þér Teitur. Ég vil elska landið mitt og réttlæti. Ég vil elska Ísland og réttlætið. En það virðist bara ekki vera hægt og mér líður eins og stungin hafi verið hola í brjóstið á mér. Sút fló í brjóstið inn.

  Annað hvort er að gnísta tönnum í reiði og sorg, gefa skítahyskinu fingurinn, taka pokann sinn og fara. Gerast munaðarleysingi í e-u Skandinavíulandinu, líklegast Svíþjóð því þar ól ég manninn í 5 ár.

  Eða að taka slaginn hérna heima og reyna að breyta e-u. En ég er því miður vondaufur um að ég muni vinna þann slag.

  ..þriðja leiðin, er leiðin sem maður hefur verið að feta síðustu árin er að beygja sig, kyssa vöndinn og… og reyna að hugsa um e-ð annað.

  *sigh*

  Freyr

 • Djöfull ertu góður Teitur!
  Einn besti bloggpistill sem ég hef lesið lengi og ég vil taka það fram að ég er jafnaðarmaður og fyrirlít alla flokka jafnt.

  Þorsteinn Úlfar Björnsson

 • Það sem Ólafur og Andrés hafa til málana að leggja er dáldið lýsandi fyrir það fólk sem er gegn Icesave samkomulaginu.

  Raunveruleikanum er snúið þannig að allur umheimurinn er gegn okkur og þeir sem vilja leita sátta eru aðeins bleiður og landráðsmenn.

  Þetta minnir einna helst á alkahólista sem finnur alltaf nýjar leiðir til að kenna öllum öðrum um drykkjuna sína.

  En það er ágæt þumalputtaregla að þegar maður er komin í þá gryfju að allir eru fífl nema maður sjálfur, þá er kannski vert að athuga hvort það sé reyndar maður sjálfur sem sé fíflið.

  Það eru nokkrar ranghugmyndir sem fólk hefur uppi þegar það æsir sig yfir Icesave samkomulaginu.

  1. Einkafyrirtæki er ekki það sama og einkabanki! Það er enginn að fara fram á að Ísland borgi gjaldþrot allra íslenskra einkafyrirtækja, enda væri það reikningur uppá margfalda þjóðarframleiðslu Íslands.

  2. Bretar og Hollendingar gátu ekki komið í veg fyrir stofnun Icesave reikningana í þeirra landi. Icesave var útibú og ekki dótturfélag með eigin kennitölu. Stofnað á grundvelli íslenska bankaleyfisins. FME var eina yfirvaldið sem hefði getað komið í veg fyrir stofnun reikningana.

  3. Icesave er ekki rót alls okkar vanda! Þetta eru skuldbindingar sem eru minni en það sem svarar áskrift af stöð 2 í 8 ár. Ekki beint verið að setja börnin í óendanlegan skuldaklafa.

 • Eins mikið og ég er sammála þér þá þykir mér þú skjóta langt fram hjá í niðurlaginu.

  "Það vantar margar blaðsíður í þjóðarsál Íslendingsins. Íslendingurinn er í raun "sveitalúði" eða hillbillí. Fávís og hrokafullur ruddi með ranghugmyndir um sjálfan sig og þúfuna undir fótum sér."

  6226 kjósendur í síðustu alþingiskosningum gerðu sér ferð á kjörstað til þess að skila auðu. Persónulega finndist mér eðlilegt að á hinu háa alþingi væru auðir stólar til vitnisburðar um það. Fullt af góðu fólki hefur barist gegn viðbjóðnum sem hér hefur grasserað meginhluta ævi sinnar.Þó að í prósentum talið sé það lítill hluti þjóðarinnar.

  Trúa meðlimir Vantrúar almennt á "þjóðarsál"?

  kv. Árni

 • Hefur hugtakið "þjóðarsál" eitthvað með átrúnað að gera? Ég hélt að því væri ætlað að lýsa karaktereinkennum sem þykja einkenna þá þjóð sem er til umræðu hverju sinni, hvort sem einhver raunverulegur grunnur er undir slíkum alhæfingum eða ekki.

  Hver er það sem telur "þjóðarsál" vera yfirnáttúrulegt hugtak?

 • Ísland á meira heima með Búlgaríu(mafían ræður) eða Simbawbe.hörður halldórs

 • Það er aumt að heyra alla þá sem hér mæla með því að við greiðum fyrir Icesave og eru hér að mæra þennan hlægilega og barnalega pistil hjá síðuhaldara.
  Þeir sverja af sér að vera Samfylkingarmenn eða VG.
  Maður les á milli línanna hjá þeim að þeir segja; "ég er ekki Samfylkingarmaður, ég er ekki VG; ég kýs bara þessa flokka".

  Þeim finnst sem sagt í lagi að hlýða Bretum og Hollendingum og borga bara Icesave skuldirnar án þess að leita réttar síns.

  Þetta er svona svipað og þegar einhverjir tveir óþokkar ráðast þig og krefja þig um peninga sem einhver ættingja þinna skuldar þeim.
  Þeir kýla þig niður og sparka í punginn á þér krefja þig um peningana, annars hóta þeir að senda handrukkara sem þeir þekkja og heita AGS og ESB, og fá þá til að banka þig til hlýðni.

  Hvað mynduð þið gera ef þið yrðuð fyrir svona árás frá einhverjum svona náungum?
  Mynduð þið borga þeim umyrðalaust þá peninga sem þeir krefja ykkur um, eða mynduð þið kæra þá til lögreglunnar og leita réttar ykkar?

  Svarið nú þessu, þið Icesave-unnendur.

  Kv.
  Andrés

 • Mér langar að bæta við þökkum til Samfylkingar og Framsóknar…

  Einnig vil ég þakka hinni skeleggu stjórnarandstöðu sem var greinilega við völd á þessum árum…

  En ég hætti ekki að vera Íslendingur og segi því FOKK Jú Holland og UK…

  í bili allavega…

  ps: ekki eins og þeir séu eitthvað betri, lítandi hornauga á þig fyrir eitthvað sem gjörspilltir viðskiptamenn og stjórnmálamenn gerðu…

  Greinilega allir með jafnmikla rörsýn og við "vitlausu" og "óalandi" Íslendingar þínir…

 • Takk fyrir góðan pistil, ég tek undir hvert orð.

  Það er vel hægt að færa sæmileg rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu, en þeir Ólafur og Andrés eru þess ekki umkomnir með upphrópunum sínum og tuldri.

  Við erum ábyrg fyrir þessum lúsablesum sem stýrðu okkur í kaf með klíkubræðrum sínum og verðum að borga brúsann. Þannig er það nú bara.

  Davíð lofaði þessu fólki að ríkið myndi borga þetta að fullu og hann var Seðlabankastjóri. Hvernig eigum við að halda andliti ef við ætlum ekki að standa við orð Seðlabankastjóra landsins – sem við erum þó í raun ekki að gera, því ekki er greitt að fullu.

  "Landráðamenn", "ESB sleikjur" Hann er ekki merkilegur flaumurinn sem vellur upp úr þessum snillingum.

  Haltu áfram að taka á málunum Teitur, þetta er gott mál.

 • Þeir sem kusu stjórnarflokka t.a.m. síðustu 19 ár ættu að borga Icesave einir.
  Alla vega þeir sem kusu stjórnarflokka 2002 og 2006

 • Orðið Icesave heyrist í lest og starfsmaður á pósthúsi gefur til kynna að það sé kalt á Íslandi; Ergó, Íslendingar eru illa séðir og álitnir ræningjar í Hollandi.

  Læknirinn á örugglega eitthvað gott handa þér við paranojunni.

 • Hugtakið "þjóðarsál" var fundið upp af Hegel og er mjög nærri því að vera yfirnáttúrulegt.

 • Samfylkingin ber mesta ábyrgð á hruninu. Imba Solla Og Bjöggi G fóru á kostum

 • Æ, æ

  Íslendingur sem býr í Gautaborg fer til Hollands og fær kaldar kveðjur. Víðlesinn veit hann að það vantar margar blaðsíður í Íslendinga. Heimskingjarnir heima eiga auðvitað að borga Icesave braskið. Þá losna þeir við þjóðarsyndina og frelsast en góði Gautinn fær aftur að ferðast frjáls í fasi.

  PS Þetta er DO að kenna

 • Sæll aftur Teitur
  Þegar ég segi að Hollendingar séu fyrrum nýlenduþjóð er ég eingöngu að benda á að kastljós samtímans er ekki það sama og dómur sögunnar.
  Ég les það svo að þú sért þeirrar skoðunar að Hollendingar og Bretar hafi án nokkurs vafa rétt fyrir sér í Icesave málinu. Evrópulöggjöfin sé gallalaus og við berum alla ábyrgðina. Það réttlæti að hinn sterki skuli ráða yfir hinum veikari og að öll bolabrögð séu leyfð í þeirri glímu. Ég er ekki á þeirri skoðun. Hún tengist ekki á nokkurn hátt stjórnmálaskoðunum mínum heldur lífsskoðun og réttlætiskennd. Við hérna heima á Íslandi erum sannarlega að róa lífróður til að bjarga því sem bjargað verður og þú getur sannarlega tekið þátt í því með því að skýra frændum okkar Svíum (sem komið hafa sér svo notalega fyrir í hlýju Evrópusambandsins) frá því að við séum enn þessi harðduglega Norræna þjóð sem við höfum alltaf verið. Við ætlumst ekki til neinnar ölmusu en við viljum njóta fyllstu sanngirni.

  með vinsemd
  Ólafur

Comments are closed.

Site Footer