Sjálfstæðisflokkurinn 80 ára.

Ég man þegar KR varð 80 ára. Eg var þá í 6. flokki í Leikni og keppti við hinn goðsagnakennda 69 árgang í í Frostaskjóli. Við unnum 2-0. Ég skoraði eitt mark. Síðan hef ég eiginlega ekki spilað fótbolta enda hef ég ekki tekið almennilega út hreyfiþroska svo neinu nemi.

Í gær átti Sjálfstæðisflokkurinn 80 ára afmæli. Tilfinningarnar eru blendnar svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Ég veit ekki eiginlega hvað mér á að finnast um Sjálfstæðisflokkinn. Ég held samt sem áður að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo laskaður af fortíðinni að ómögulegt sé að endurvekja flokkinn á sömu nótum og hann er byggður á. Flokkurinn stendur frammi fyrir hugmyndafræðilegu gjaldþroti, ekki ósvipað og kommúnistaflokkar Evrópu við fall Sovíetríkjanna. Stefnan var röng. Sem er kannski ekkert óskaplegt í sjálfu sér en því miður þá tóku þeir þjóðina með sér í fallinu.

Kannski er lærdómurinn sá að 18 ára valdatími sé ekki hollur neinum stjórmálaflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn samanstendur af tveimur kröftugum öflum í samfélaginu. LÍÚ er sterkasta þrýstiaflið í flokknum og þar á eftir kemur frjálshyggjuliðið. hefbundið íhald í Sjálfstæðisflokknum er á undanhaldi og einungis veifað fyrir kosningar.

þegar ég er að reyna að átta mig á samferðafólki mínu þá er ég alltaf að reyna að finna einhvern kjarna, eitthvað sem er dæmigert fyrir viðkomandi. Stundum tekst þetta. Stundum ekki. Ég man í fjótu bragði eftir manni sem ég hafði kynni af og áttaði mig engan vegi á þar til ég heyrði hann tjá sig um kvikmyndina Shawshank Redemption. Hann sagði með einhverskonar fjarlægu bliki í augum að hann „skildi fangelsisstjóran svo vel“ En fangelsisstjórinn var ógleymanlegt illmenni sem Bob Gunton lék stórkostlega. Við þessi orð áttaði ég mig á þessum manni.

Til þess að átta sig á Sjálfstæðisflokknum hefur mér dugað einna best að skoða málflutning Sjálfstæðismanna varðandi hugmyndina um sameign en hún er eitur í beinum þeirra. Samfélag á helst ekki að eiga neitt saman. Einstaklingar í samfélaginu eru alfa og omega hugmyndafræðinnar. Orkuveitur – Landsvirkjun – Ríkisútvarpið – Vegagerðin – Náttúruundur – Strætisvagnaþjónusta – Heilbrigðiskerfið – Skólakerfið – Póstþjónusta – Símalínur landsins og fiskurinn í sjónum á að vera í eigu einstaklinga en aldrei sameign þjóðarinnar. Þetta hatur á sameignarhugtakinu er því lykillinn af skiliningi á afmælisbarninu.

Samfélag fólks byggist upp á einstaklingum sem mynda lið. Lið eins og KR. Samvinna og úrlausn sameiginlegra hagsmuna eru lykilatriði í farsælu samfélagi. Þetta hefur afmælisbarnið aldrei skilið.

2 comments On Sjálfstæðisflokkurinn 80 ára.

Comments are closed.

Site Footer