ÞAÐ SEM STJÓRNMÁLAMENN TALA ALDREI UM

Þrátt fyrir allt þrasið um stjórnmál, er eiginlega aldrei reynt að svara spurningunni um hvernig skapa eigi gott og fagurt samfélag.  Það er eins og umræðan týnist gersamlega í þaranum sem einkennir hafsbotn umræðuhefðarinnar á Íslandi.  Þarinn þvælist til og frá enda háður straumum, vindátt og jafnvel tunglstöðu.

Aldrei sést upp undir yfirborðið og þaðan af siður ofan á það.

En hvernig er fagurt samfélag?  Hvað er það sem einkennir fagurt samfélag?  Ég var að tala við félaga mína um þessa spurningu og svörin voru allavega og umræðurnar gagnlegar og eftirminnilegar.  Dostoyevsky sagði einhvern tímann að besti mælikvarði samfélög fengist með því að skoða í fangelsin. Gott samfélag er það sem hugsar vel um fyrirlitlegustuþegnana.

Þessu ég ég sammála.

Ég held líka að gott samfélag, sé það sem veitir manneskjunni á „kassanum“ í kjörbúðinni sómasamleg laun og langt og gott sumarfrí.  Ég tók eftir þessu þegar ég var nýfluttur hingað til Svíþjóðar. það er fullorðið fólk á „kassanum“ í stórmörkuðunum. Fólk sem fær eftir því sem ég kemst næst, sæmilegt kaup og 5 vikna sumarfrí.

Ég held að gott samfélag líti á öll störf sem „merkileg“ störf sem þjóni mikilvægu hlutverki.

Einn sem ég þekki starfar sem sem einhverskonar stjóri hjá vogunarsjóð. Sá sagði, eins og margir sem vinna í hálaunastörfum, að „við þurfum að halda uppi alltof mörgum opinberum starfsmönnum“. Þetta viðhorf er mjög algengt og mér leiðist það alltaf jafn mikið.  Þessi skoðun er reist á tveimur stoðum, fávisku og yfirlæti.  Það kemur nefnileg í ljós að lang-arðsömustu stofnanir samfélagsins eru leikskólar.

Já. Leikskólar.

Láglaunastörfin sem eru að finna í leikskólum landsins eru nefnilega forsenda þess að starfsmenn  vogunarsjóða geta áhyggjulausir skilið eftir börnin sín í á öruggum og góðum stað, farið í vinnuna, „tekið stöðu“ gegn einhverjum gjaldmiðli, eða einhverju fyrirtæki og hækkað einhverja tölu á tölvuskjá.  Við hvert leikskólapláss sem er til, losnar um heila manneskju á vinnumarkaðinum og árlegar skatttekjur þessarar manneskju eru töluverðar þótt þær séu ómerkilegir smáaurar í augum sjóðsstóra hjá vogunarsjóð.

Ég held að gott samfélag sé það þar sem launamunur milli þeirra hæst launuðustu og þeirra lægst launuðustu sé sem minnstur.  Þetta kallast GINI stuðull á máli hægfræðinnar og þessi stuðull jókst stórum á 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Bilið milli hinna ríku og þeirra láglaunuðu, breikkaði.

Reyndar er það svo að Sjálfstæðismenn telja að því stærra sem bilið milli hinna ríku og fátæku er, þeim mun fegurra samfélag verður til.  Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði þetta tiltölulega ó-innpakkað árið 1997 í viðtali í DV.

Ég er ósammála því að fagurt samfélag einkennist að miklum launamun milli þeirra sem minnstar hafa tekjurnar og þeirra sem mestar hafa tekjurnar.  Ég held að það sé einmitt omvendt eins og Danir segja.  Ekki má þó misskilja orð mín í þá veru að mér finnist að allir eiga að hafa sama kaup.  Það er rétt að taka það fram áður en vitleysan fer af stað.  Sómasamlegt kaup fyrir lægst launuðustu störfin held ég að sé einhver lykill að góðu samfélagi.

Ég held að samhugur og meðaumkun hinna verst settu meðal okkar sé lykilatriði í góðu samfélagi.  Umönnun sjúkra, aldraðra og þeirra sem búa við fötlun hverskonar. Störf í þessum geira, eru áþekk störfum á leikskólum og því með arðsömustu einingum samfélagsins.  Furðulegt að þau séu ekki betur borguð, en það er önnur saga.

Ég held að réttlát skipting auðlinda sé líka lykilatriði.  Það er óþolandi að einn fær allan arðinn af einhverri auðlind ofna í jörðinni eða í sjónum, meðan hinir fá ekkert nema hugsanlega vinnu hjá þeim sem hagnast mest.  Eins furðulegt og það hjómar eru hörðustu vinstri menn á Íslandi þeirrar skoðunar að auðlindir landsins séu best komið fyrir hjá nokkrum útvöldum. Ég held í alvörunni að þessi skoðun sé einskonar sjálfsréttlætingarmál hjá hjá þessum hópi.  Það er eins og ysta vinstrið líti svo á að nauðsynlegt sé að viðhalda órétti, til þess að hægt sé að berjast gegn honum.

Í heimsspeki Paltóns er oft talað um „samstillingu“ eða „samhljóm“ sem ákjósanleg ástand.  Þetta þykir mér ein fínasta skilgreiningin á æskilegu samfélagi.  Þegar öll hljóðfærin eru rétt stillt og engu ofaukið.  Þá gerist kraftaverkið, afurðin sjálf.

-Tónlistin

Íslenska samfélagið hefur verið vitlaust stillt um ára tuga skeið.  Mín kynslóð er verst.  Það er skiljanlegt því við erum alin upp í skugga andstyggilegar hugmyndafræði sem gengur út á að græða á daginn og grilla á kvöldin.  Við erum stórlega sködduð eftir þetta bull og það er sennilega stærsta verkefni okkar kynslóðar að snúa við af braut peningalögmálanna og feta nýja braut þar sem hagsæld hverrar manneskju er í fyrirrúmi.  Fyrir forherta má taka fram að hagsæld eða farsæld er ekkert endilega bundin við peninga þótt þeir skipti sannarlega máli.

Kapítalismi er allt í senn ranglátur, siðferðisskemmandi og hann eyðileggur náttúruna okkar.  Þetta er braut sem ber að varast og við eigum að sýna þessum hugmyndum viðnám.  Og fyrir þá sem leggja trausti sitt á spámanninn Jesús, má nefna að kapítalismi er sannarlega ó-kristilegur.  Það er í raun fáránlegt að kristnir skulu ekki taka sig saman og mótmæla þessari ömurðarvegferð frjálshyggjunnar.

Lagahyggja er annað sem  ætti að forðast í lengstu lög.  Því miður er það þannig að fólk ruglar saman því rétta og ranga saman við lögin sem gilda hverju sinni.  þarna eru tvö svið að skarast.  Hið lagalega og hið siðferðislega.  Þó að lögin segi eitthvað, þýðir það ekkert endilega að þau eru rétt.  Þetta eiga margir erfitt með að skilja.

Fáránleiki lagahyggjunnar er slíkur að við erum hætt að taka eftir honum.  Fólk kippir sér ekkert upp við fréttir af því þegar flóttafólk er fangelsað fyrir það eitt að vísa fram fölsuðum vegabréfum.  Fólk fattar ekki að flóttafólk notar öll ráð tiltæk til þess að fá skjól.  það er beinlínis ömurlegt að fólk skilji þetta ekki en sýnir kannski um leið hversu langt er í land.

Uppskera óréttarins er vel sjáanlegur nákvæmlega núna í íslensku samfélagi.  Núna má nefnilega sjá öryggiskerfi hinna ríku virka eins og smurða vél.  Miljarðar eru afskrifaðir hjá fólki sem gætu alveg borgað allt upp í topp ef það bara kærði sig um.  Flókið net eignarhaldsfélaga ,sjá til þess að persónuleg ábyrgð hefur verið þynnt út og tapið lendir á endanum á almenningi.

Þó að þetta kerfi sé mjög skilvirkt og vinnur eins og smurð vél, er það ranglátt.  Í almennilegu samfélagi þarf að koma því þannig fyrir að svona gerningar verði óhugsandi.  Það stoðar lítið að mótmæla ríkisstjórninni í þessu máli þó að það sé auðvitað sárt að horfa upp á þennan órétt.  Svona kerfi er einfaldlega fylgifiskur hægripólitíkur og við sitjum uppi með þessa skömm.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar fólk fer að spá í „góða samfélaginu“, að padentlausn er ekki til.  Það er ekkert ástand 100% gott. Ef það einvher heldur því fram, myndi ég forða mér.  Ég held að togstreita verði alltaf og ég held að hún sé heilbrigðismerki.  Góða samfélagið þrífst einmitt þarna undir reipitoginu.  Þó að ég vari við padent-lausnum, þá held ég að svörin við stóru spurningunum séu einhversstaðar til.  Zimmerman hitti naglann á höfðuðið þegar hann samdi þessar línur.

-The answer, my friend, is blowing in the wind.
-The answer is blowing in the wind..

Site Footer