RÆTNAR OG HEIMSKULEGAR ATHUGASEMDIR

Ég ritaði lítið blogg um gunguhátt Mósesdóttur og Gíslasonar í dag.  Ekkert merkilegt blogg í sjálfu sér.  Bara smávegis hugleiðingar um raggeitarhátt ofangreindra og svo pæling um að kjósendur VG kusu ekki svona flokk, sundraðan og óstarfhæfan.
Viðbrögðin voru hörð.

Ég var sagður ómálefnalegur og svoleiðis.  Mér varð á að rita í hálfkæringi að nú séu öskuraparnir mættir og búrið greinilega opið.  Já óþroskað og allt það.  En ég er bara orðin þreyttur á þessu sama liði sem hangir í athugasemdakerfinu mínu eins og pönkarar í Kringlunni og viðhafa hæpnar fullyrðingar á óvönduð málfari.
Þá ætlaði nú allt vitlaust að verða.
Allskonar fólk tók þetta blogg nærri sér og kvað mig hinn versta mann.  Sem er allt í lagi.  Fólk má alveg halda það.  En það var eitt sem snerti mig. það voru athugasemdir um að ég hafi „flúið land“.  Mér hefur svo sem verið bríkslað um þetta áður, en þarna stóð mér ekki á sama.

Ég flutti til Svíþjóðar ásamt konu minni og drengjunum mínum tveimur í mars árið 2008.  Nokkrum mánuðum fyrir hrunið.  Ég upplifið hrunið úr fjarlægð og bloggaði um það allan tímann.  Ég „flúði“ ekkert og ekki heldur konan mín.   Ég þekki hinsvegar fólk sem „flúði“ eins og sumir athugasemdaskrifarar kalla það í niðrandi tón.  Ég þekki byggingaverkamann sem flutti til Málmeyjar til að leita að betra lífi en það sem í boði var á Íslandi.  hann bjó í kytru í 6 mánuði við þröngan kost og í okurleigu.   Ég þekki verkfræðing sem flutti með fjölskylduna til Stokkhólms eftir að fyrirtækið sem hann vann hjá fór á hausinn.
Hann „flúði„.  Það er höfuðsynd og aumingjaskapur í huga athugasemdaskrifaranna við bloggið mitt.

Ég þekki bankamann sem flutti til Osló.  Hann „flúði“ og er annars flokks hjá fólkinu í athugasemdakerfinu mínu.  Ég þekki tæknimann sem vann á sjónvarpsstöð sem flutti  til  Árósa eftir hrunið.  -Sá er heigull og flóttamaður í huga athugasemda skrifaranna.  Allir þeir sem fara frá Íslandi í leit að vinnu eru að “flýja” i huga þessara athugasemdaskrifara.
Ég hef fengið fjöldan allan af fyrirspurnum um hvernig húsnæðismarkaðurinn sé hérna í Gautaborg frá fólki sem að fara að „flýja“.  Fjöldan allan af tölvupóstum frá fólk sem er þjakað af örvinglan og ótta.  Þið vitið:  Hugleysingjum sem eru að skipuleggja „flótta“. Þetta er andstyggileg innstilling.  Illgjörn og heimskuleg.  Ég vona að ég hætti að sjá svona hroða í athugasemdakerfinu mínu.
-o-o-o-
Í samhengi við þessar illgjörnu og rætnu athugasemdir þá er því einnig gert skóna að þeir sem eru búsettir í öðru landi en á Íslandi, megi nánast ekki hafa skoðanir á samfélagsmálum á landinu sem fóstraði þá?  -Hvaða yfirgengilega heimska er það?  Var ekki sjálfur Jón forseti búsettur í Kaupmannahöfn nánast alla æfi?  Og Fjölnismenn? (sem athugasemdaskrifarar hafa ekki hugmynd um hverjir voru)  Var þeirra innlegg ómarktækt vegna þess að þeir bjuggu í Danmörku?
Ég óska þess að þeir illyrmin sem settu þessar athugasemdir á bloggið mitt, fjarlægi þær hið snarasta og hætti að hrækja á athugasemdakerfið mitt í framtíðinni

Site Footer