Rörtittlingar á AMX

Besti fréttavefur landsins heitir í höfuðið á bifreið hvers framleiðandi er varð gjaldþrota á öndverðri síðustu öld. AMX frá American Motor Company var aðeins framleiddur í 3 ár og þótti misheppnaður.

Fréttavefurinn AMX er ekki gjaldþrota, -síður en svo að vefnum standa fjórir ferskir sveinar, vígmóðir og reifir.

Inn um gluggann á skrifstofunni hjá AMX fljúga stundum fuglar sem sjá allt og heyra allt. Ekki er um að ræða goðverurnar Huginn og Munninn heldur smáflugla sem heita á fræðimáli Pluvialis apricaria en kallast á íslensku Rörtittlingur og eru þekktir meðal fuglaáhugamanna fyrir gríðalega rör-sýni. Þessir fuglar kunna best við sig ofan í gjótu eða opnu röri þar sem aðeins sést í eina átt út .

Sjónsvið rörtittlingar er því afar takmarkað og eignlega ekkert. Bara bein lína eða strik. Því sætir það furðu að nokkrir rörtittlnigar virðast hafa vanið komur sínar á skrifstofur AMX og ljá þeim í eyra sögur sem þeir heyra og sjá úr rörinu. Bansettir rörtittlingarnir hafa nú hvíslað einhverri þvælu í eyru vinar míns Óla Björns Kárasonar því í nýlegri færslu er fullyrti að ég sé ákafur vinstri maður“

Þessu mótmæli ég allur. Ég frábið mér allar bríkslanir um hægri eða vinstri, sér í lagi ef bríkslið á sér rót í smjatti rörtittlinga.

Rörtittlingar halda nefnilega að sá sem gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn sé vinstri maður. Þeir halda líka að sá sem gagnrýnir Samfylkingu eða VG hljóti að vera hægri maður. Þetta er afar einföld heimsmynd og bjánaleg (en skiljanleg í ljósi þröngs sjónsviðs rörtittlinga).

Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá er ég hægri maður. Ég þoli ekki þá staðreynd að ekki sé til flokkur sem ég get samsvarað mig með. Ég er sennilega það sem kallað er „hægri-krati“ en rörtittlnigar skilja ekki hugtakið frekar en annað sem hefur einhverjar dimmensjónir.

Ég er afar svekktur yfir því hvernig Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að blekka kjósendur sínar (og landsmenn alla) um að hann sé einhver sérstakur hægri flokkur. Flokkur sem jók hér skatta á almenning s.l 18 ár, jók öll ríkisafskipti, kom á óréttlátu kerfi þar sem fáum útvöldum var afhentar náttúruauðlindir landsins, flokkur sem þykist vera „flokkur atvinnulifsins“ en er í raun bara flokkur afar þröngrar kreðslu í atvinnulífinu. Flokkur sem einka(vina)væddi ríkiseigur, en passaði upp á að hér væri aldrei til staðar samkeppni.

-Það er einfaldlega ekkert „hægri“ við Sjálfstæðisflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurin er í dag brunninn og tættur eftir Davíðshrunið (sem hann lagði sjálfur grunninn að). Stútfullur af hæfileikalausu og vanhæfu liði sem byrjað hefur stjórnmálaferilinn á því að skúra gólfið í Valhöll, síðan færst sig upp á skaftið og byrjað að afgreiða í sjoppunni. -Eru núna þingmenn. Fólk sem hangir í gjaldþrota hugmyndafræði og galar eitthvað ótrúverðugt þvaður um „frelsi einstaklingsins“. Ekki þarf að renna augum lengi yfir þingmannalista Sjálfstæðisflokksins til að sjá að þar fer um laskað lið.

Ég er svo lítill vinstri maður (þrátt fyrir tístið í rör-tittlingunum) að ég heiti því að ef Bjarna Ben tekst að breyta Sjálfstæðisflokknum í almennilegan hægri flokk þar sem allir eiga að njóta sömu tækifæra og allir hafi sama rétt, að allir fari eftir einföldum, réttlátum og skýrum reglum, þá skal ég glaður styðja þann flokk hvenær sem er.

Sjálfstæðisflokkurinn þróaðist í áttir sem eru svo ógeðfeldar og ólýðræðislegar að það jaðrar við að sé glæpsamlegt. Krukkaði í dómskerfinu, krukkaði í sölu ríkiseigna, krukkaði í embættismannakerfnu. Stjórnarskráin var í huga Halldórs Blöndals bara plagg til viðmiðunar. Björn Bjarnason taldi það sínar ær og kýr að njósna um landsmenn. Útslagið gerði svo Hrafn nokkur Gunnlaugsson, menningar-flokksdindill Sjálfstæðisflokksins með kvikmyndinni „Opinberun Hannesar“, byggða á smásögu Davíðs Oddsonar. Frumsýnt í sjónvarpinu, fyrir skaupið svo enginn missti af snilldinni. -Kim Jong Il hefði ekki gert betur.

Gallinn við Sjálfstæðisflokkinn er að hann er miklu meiri íhaldsflokkur en hægri flokkur. Ég vona að rörtittlingarnir skilji þetta, en trúi því trauðla. Tveggja hugmynda bræðingur er of mikið fyrir rör-fuglana.

4 comments On Rörtittlingar á AMX

 • Pluvialis apricaria er latneska heitið á heiðlóunni og mér finnst hálfgerð móðgun við þann fagra fugl að telja „Smáfuglana“ á AMX tilheyra tegundinni.

  Páll Ásgeir

 • Þá má geta þess að Björn B. neyddi Þorfinn Ómarsson til að styrkja Hrafn Gunnlaugsson um 22 milljónir króna vegna gerðar myndarinnar Opinberun Hannesar. Styrkurinn var veittur eftir að myndin var tilbúin.
  Málið var að Margrét Rún hafði fengið peninginn til að gera mynd um Sölva Helgason en hún fékk ekki fjármagn annars staðar frá og varð að skila styrknum til Kvikmyndasjóðs. Stutt síðar var Kvikmyndasjóður lagður niður og Kvikmyndastofnun Íslands stofnuð í hans stað. Björn Bjarnason náði semsagt að útdeila þessum peningum rétt áður en lögin um Kvikmyndastofnun Íslands tók gildi.
  Hrafn lofaði að hann myndi gera grein fyrir fjármögnun myndarinnar en það kom aldrei til þess enda þurfti víst ekki að leggja fram reikninga opinberlega skv. gömlu lögunum um Kvikmyndasjóð. Vona að menn leiðrétti mig ef ég fer rangt með.

 • Góður pistill.

  Ég er eyland eins og þú. Ég er hægri maður en get því miður engan flokk kosið á Íslandi. Mér þykir miður hvernig x-D hefur náð að markaðssetja sig. Hann hefur aldrei látið skrefin fylgja kjaftinum.

  Ég er hins vegar vonsvikinn, þrátt fyrir góðan pistil, að þú hafir eytt púðri í þennan skítamiðil sem AMX er. Í hann er ekki orðum eyðandi og vona ég að sá stjórnmálaáróður sem þar kemur fram sé sem minnst á milli tannanna á fólki í íslenskri stjórnmálaumræðu.

 • Hér mun vera átt við þann fugl sem á latínu heitir „canalis passer“ eða á grísku „Σπουργίτι σηράγγων“.

Comments are closed.

Site Footer