REYKJAVÍK Í AUGUM HINS BROTTFLUTTA

Eins og tæplega helmingur landsmanna er ég Reykvíkingur.  Eins og flestir Reykvíkingar þá liggja ættarþræðir mínir flestir annað en til Reykjavíkur því móðurfólkið mitt eru sunnlendingar og amma mín í föðurætt á ættir að rekja til Flateyjar á Breiðafirði og norðurlands sé farið aftar í söguna.  Afi minn í föðurætt er reyndar fágætt eintak, því hann var Reykvíkingur í húð og hár.  Fæddur á Bræðraborgarstíg þakka ykkur fyrir.  Hann hét Sveinn Þórarsson.  Hann lifði alla tíð í Reykjavík og lengst á Tungötu 49 með ömmu minni.  Ég bloggaði einu sinni aðeins um bókina „Gvendur Jóns og ég“ en í henni kemur afi minn fyrir.

Mér þótti vænt um afa minn og ömmu og hugsa oft til þeirra.  Ég held meir að segja að ég hugsi um ömmu mina á hverjum degi.

Verandi nýkomin til Reykjavíkur eftir rúmlega 2 ára fjarveru, er ég svolítið upptekin af minningum.  Það er gaman og það er hollt.  Borgin mín hefur breystst aðeins eins og gengur, og slær mig sannarlega öðru vísi en Gautaborg þar sem ég bý núna.  Fyrsta sem ég tók eftir var fjöldi bensínstöðva út um allt.  Þetta er ekki svona í G-borg.  Þar eru stöðvarnar færri en stærri og um leið flottari.  Í Reykjavík eru litlar krömmí bensínstöðvar út um allt!.  Fáránlegt fyrirkomulag.  Það er meir að segja bensínstöð hornrétt frá Landsspítalanum og Tjörninni!

-Nýleg bensínstöð meir að segja.

Ég held að endurmenntun skipulagsspesjalista sé ekki nauðsynleg.  Ég held að hún sé knýjandi. Það er verið að skemma borgina með þessari fávsku og minnka lífsgæði borgarbúa.  En það var fleira sem „sló mig“ þessa fyrstu daga.  Aldrei logn (sem er gott) því loftið hérna er einfaldlega betra en í Gautaborg.  Það er erfitt að lýsa þessu en það er einhvernvegin meira „fresh“ að draga andann í Reykjavík en í Gautaborg.

Konan min var að reyna að bakka út úr stæði á Laugaveginum og kom heim alveg í
brjáluðu skapi.  Það gaf henni enginn sjens nema síður sé.  Það var eins og sumir gefi í til þess að gefa ekki samferðafólki sínu sjens í umferðinni.

Alveg stórkostlega furðulegt vegna þess að það græða allir á tillitssemi í umferðinni.

Já þetta voru svona plúsar og mínusar eins og gengur.  Mér þykir gott að koma aftur til Reykjavíkur.  Hún er borgin mín  Reyndar verð ég að taka undir með Jónasi Kristjánssyni bloggara, að ef 101 væri ekki til, væri borgin ónýt.  101 er nefnilega alveg „brimming with energy“ eins og enski maðurinn myndi segja.  Fullt af kaffihúsum, fullt af flottum verslunum og fullt af frábæru fólki.

Virkilega flott hverfi og flottur andi.

Ég tók reyndar eftir einu sem „böggaði“ mig. Það eru fullu kallarnir. Þeir eru út um allt.  Sofandi á gangstéttinni með „plummerinn“ út í loftið.  Ég hef séð fullt af fullum köllum.  Einn var að agnúast út í belgíska eldri borgara og ég var við það að skipta mér að því framganga þess fulla var alveg á mörkunum eins og sagt er.

Svo var það maturinn.

Ekkert jafnast á við kindakæfuna.  Þessa „fitnsnauðu“ (djók)


Ótrúlega góð kæfa.  Svo feit að hún er ljósgrá og ég er viss um að þessi kæfa sé eldmatur og hægt sé að knýja bifreiðar með henni.

Svo er það reykti silungurinn.  Mikið reyktur, ketið þétt og bragðmikið.  Alveg sér-íslenskt.  Í Svíþjóð er reykti fiskurinn minna reyktur og linari allur.  Sá íslenski er miklu betri.

Ég hlakka til að drepa tímann í borginn minni næsta mánuðinn.

Site Footer