RÉTT HJÁ JÓNASI

Uppáhaldsbloggarinn minn, Jónas Kristjánsson, keng-neglir þetta í síðustu færslu sinni.  Hann krefst rannsóknar á undanfara hins alræmda stuðnings Íslands við stríðið í Írak.  Hann krefst þess ennfremur að stjórnmálamenn hætti að tala í dylgjum um þessi mál.

Össur er ekki sá eini sem hefur talað undir rós um þennan ósóma.  Jónína Bjartmarz hefur líka talað eins og vérétt um Davíðs-tímann. Hún var Umhverfisráðherra meðan á þessu stóð og hún orðar þetta svona í bloggi sem hún skrifaði.

„- Það sem ég ekki gerði var að selja vinum mínum ríkisbanka eða styðja innrásina í Írak.  Ég hvorki tilheyrði meintu flokkseigendafélagi – hvað þá að hafa hitt eða talað við flesta þá sem þar eru nefndir til sögunnar – né þáði ég eða leitaði eftir styrk frá fyrirtækjum þeirra eða annarra.  Ég hvorki veitti né þáði bitlinga eða greiða

og

„Seinna og í betra tómi kann að vera að ég upplýsi um afleiðingarnar, refsinguna fyrir það að spila ekki alltaf með eða taka ekki þátt í alltumvefjandi meðvirkni-dansi í kringum Davíð og flokkinn hans“.

Alltaf sama stefið.  Ég var Albert Speer.  Ég var góði nasistinn.  Og svo þetta yndislega í lokin.  Ég segi ykkur frá þessu í „betra tómi“. Þetta „í betra tómi“ þýðir einfaldlega:  Þegar ég er ekki lengur hrædd við Davíð.  Sem aftur lesist sem „Þegar Davíð er dauður“.

-Hann hefur ennþá heljartök á heilli kynslóð stjórnmálamanna.

Site Footer