REKUM GÍSLA EINARSSON! – – UPDATE – –

Fréttaskýringarþátturinn Landinn er búinn að bíta á ESB-agnið því á sunnudaginn var fjallað með málefnalegum hætti um byggðastefnu Evrópusambandsins. Rætt var við nokkra viðmælendur innanlands og utan, kostir og gallar reifaðir á yfirvegaðan en jafnframt auðskiljanlegan hátt og reynt að svara því hvaða tækifæri kunna að felast í byggðastefnu ESB fyrir Íslendinga. Von er á frekari umfjöllun næsta sunnudag.-Málið er allt hið alvarlegasta.

Gísli Einarsson, Ragnhildur Thorlacius og Sigríður Halldórsdóttir, sem bera ábyrgð á og unnu innleggið, kunna „hins vegar ef til vill að hafa lokið ferli sínum á sjónvarpi ríkisins“ með því að fjalla með vönduðum hætti um þetta mikla hagsmunamál.  Gsli svarar dylgjum Björns Bjarnasonar af krafti.

Eftirfarandi grein er svar við aðróttunum Björns Bjarnasonar í kjölfar umfjöllunar Landans um Evrópumál í gærkvöldi. Greinin komst ekki í gegnum vefmúra ritsjórnar Evrópuvaktarinnar, hver grein Björns birtins. Hún er því birt hér í staðinn.

 

Að skjóta fyrst og spyrja svo….eða spyrja alls ekki!

Einhverjum mínútum áður en sýningu RÚV á Landanum lauk í gærkvöldi hafði Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi dagskrárgerðarmaður á sjónvarpsstöðinni ÍNN, sett inn á vef Evrópuvaktarinnar pistil þar sem hann fjallar á nokkuð áhugaverðan hátt um efni þáttarins. Skjót viðbrögð og snör handtök vekja gjafnan aðdáun mína en stundum, ekki síst þegar ritstörf eru annars vegar, er betra að dvelja lengur við og vanda til verka. Það átti í það minnsta við þess ritsmíð Björns.

Pistil sinn, sem ber yfirskriftina, „Landinn í RÚV bítur á ESB agnið“ byrjar höfundur svo: „Evrópustofa er líklega farin að láta að sér kveða gagnvart RÚV og stjórnendur Landans hafa bitið á agnið eins og sást í þættinum að kvöldi sunnudags 25. mars þegar ESB-áróðri sem braut algjörlega í bága við almennt efni þessa vinsæla þáttar var troðið inn í hann. Er með ólíkindum að stjórnendur RÚV og ritstjórn Landans taki í mál að flytja slíkt efni í þættinum.“
Í fyrsta lagi kýs Björn, án þess að rökstyðja það með neinum hætti, að kalla vandaða og hlutlausa umfjöllun um byggðastyrki Evrópusambandsins: „ESB áróður“. Því hafna ég að sjálfsögðu enda var fjallað um þetta efni frá öllum hliðum og dregnir fram bæði kostir og gallar þessa hluta byggðastefnu ESB.
Í öðru lagi þá segir Björn að efnistökin brjóti í bága við almennt efni þáttarins. Ég tel mig hafa þokkalega yfirsýn yfir efnistök þáttarins, enda hef ég yfirumsjón með þeim. Staðreyndin er sú að Landinn hefur ítrekað fjallað um byggðamál með ýmsum hætti. Hugsanleg aðild að ESB myndi væntanlega hafa umtalsverð áhrif hér á landi, ekki síst á landsbyggðinni. Það deila menn hinsvegar um hvort þau áhrif yrðu til góðs eða ills en hvort sem er, þá er það byggðamál!
Í þriðja lagi lætur Björn að því liggja að ritstjórn Landans hafi verið fengin til „að flytja efnið í þættinum“. Það hljómar líkt og við höfum fengið innslagið tilbúið, sent utan úr bæ (eða kannski frá Brussel) og sett það inn í þáttinn. Að sjálfsögðu fer því fjarri. Innslagið um ESB styrkina var að öllu leyti unnið af dagskrárgerðarmönnum og tæknimönnum RÚV. Ég sá reyndar á prenti (ekki frá Birni þó, svo því sé haldið til haga) eftirfarandi fullyrðingu: „…,grafisk vinna og framsetning gerð af EU, augljóslega!“ Það vill hinsvegar til að hjá RÚV starfa afar færir grafískir hönnuðir og hefur Landinn ekki þurft að leyta til annara landa eftir aðstoð, hvorki á því sviði né öðrum. Því er við að bæta að ákvörðunin um að vinna þetta innslag var tekin af mér, án nokkurra utanaðkomandi afskipta eða örvunar!
Það sem er athyglisverðast í grein Björns er hinsvegar þessi setning: „Það ætti að gera kröfu til þess að þættir sem þessir séu merktir kostunaraðila svo að áhorfendur átti sig á því hvers kyns er.“ Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en fullyrðingu um að umrædd umfjöllun hefði verið kostuð að hluta til
eða öllu leyti af utanaðkomandi aðila.
Björn telur það greinilega sér sæmandi að skjóta fyrst og spyrja svo. Eða öllu heldur að spyrja alls ekki. Hefði hann spurt hefði hann fegnið að vita að kostnaður við gerð innslagsins var að öllu leyti greiddur af RÚV, að sjálfsögðu. Bara rétt eins og með öll önnur innslög sem gerð hafa verið fyrir Landann. Björn hefði líka getað fengið afrit af fylgiskjölum þar að lútandi, hefði hann bara beðið um það.
Stundum kjósa menn að spyrja ekki vegna þess að svarið hentar þeim ekki. Ég tek þó fram að ég hef ekki hugmynd um hvort það á við í þetta sinn.
Því er við að bæta að Landinn hefur ekki þegið neinar greiðslur af ESB, gjafir eða fyrirgreiðslur af neinu tagi, né hefur þættinum eða stjórnendum hans verið boðið neitt slíkt. Þetta hefði Björn líka fengið að vita hefði hann spurt. Mér þykir hann hinsvegar ekki hafa sýnt sannleikanum neina sérstaka forvitni en í staðinn fór hann þá leið að búa til sína eigin útgáfu af honum.

Undanfarin misseri hafa heyrst háværar kröfur um upplýsta umræðu um helstu hagsmunamál þjóðarinnar og fréttamenn eru vændir um kjarkleysi ef þeir fjalla ekki um ákveðin mál. Een hvað gerist þegar dagskrárgerðarmenn Landans sýna þann kjark að ýta undir upplýsta umræðu um viðkvæmt mál? Jú, þá keppast menn við að væna þá um óheiðarleik og undirlægjuhátt.

Ég kveinka mér ekki undan gagnrýni, að ég tali nú ekki um ef hún er nmálefnaleg. Ég hafna hinsvegar þessari nýju tísku, sem alltof margir ástunda, að smíða samsæriskenningar í tengslum við hvaðeina sem þeim líkar ekki að heyra í fjölmiðlum. Þær samsæriskenningar byggjast gjarnan á því að viðkomandi umfjöllun sé sprottin af illum hvötum fréttamannsins eða hann sé þvingaður, neyddur, plataður eða keyptur til að fjalla um málefni eða setja hlutin fram á ákveðinn hátt.

Landinn er frétta – og þjóðlífsþáttur á vegum fréttastofu RÚV. Okkar hlutverk er að fjalla um hvað eina sem fólki í landinu gæti verið viðkomandi. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá á Ísland í aðildarviðræðum við ESB. Ég, sem ritstjóri Landans, tel að það komi fólkinu í landinu við.
Með fyrirfram þökk fyrir birtinguna.

Borgarnesi, 26. mars 2012
Gísli Einarsson, ritstjóri Landans á RÚV

Site Footer