REIÐUMST !!

Guðrún H. A. Eyþórsdóttir skrifaði mjög athyglisvert blogg um daginn.  Þar fór Guðrún yfir nokkur atriði sem hún upplifir sem sér-íslensk og tók sértaklega fram þessa hóp-þöggun sem á sér stundum stað þegar einhver fer algerlega yfir strikið.  Guðrún nefndi dæmi úr kjörbúðinni að enginn gerir athugasemd við það þegar innkaupakerru er ekið á fólk.  Enginn segir neitt.  Ekki sá sem ók kerrunni og ekki sá sem varð fyrir henni.Mjög gott dæmi satt best að segja.

Ég man eftir öðru dæmi úr kjörbúðinni sem átti sér stað þann 24 desember klukkan svona 14 í Hagkaupsbúðinni í Skeifunni jólin 2006.  Ég var ásamt tugum ef ekki hundruðum viðskiptavina að kaupa eitthvað smálegt sem vantaði í jólamatinn.  Stemningin var ágæt þrátt fyrir langar ráðir.  Flestir voru með nokkra hluti og því gekk afgreiðslan fljótt fyrir sig.  Kemur ekki einhver kelling sem ruddist fram fyrir alla og staðnæmdist nánast fremst í röðinni.  Ég varð hvumsa og sagði við konuna sem var fyrir framan mig hvað þetta ætti eiginleg að þýða hjá kellingarálftinni.  Sú sá þetta auðvitað en sagði eitthvað á þá leið að „sumir væru bara svona merkilegir“ eða eitthvað í þá áttina.  Ég varð svona álíka hissa og ég varð reiður við þessa ofsalegu frekju í kellingunni.  Ég gerði þó ekki neitt frekar en aðrir í röðinni sem vissu alveg hvað var að gerast.  Ég leit aftur fyrir mig og benti á konuna og sagði hátt og snjallt að þessi þarna (og benti) væri að svindla sér í röðinni.  Enginn gerði neitt og freka kellingin fékk afgreiðslu eins og hver annar.Ömurlegt.  Þegar ég fattaði að kellinginn var ekki bara að stela frá mér tíma, heldur öllum sem voru í röðinni, bullaði í mér gremjan.  Hún stal frá öllum svona 5 mínútum.  20 manns eða þar um bil?  Það er einn og hálfur klukkutími!

Konan mín lenti í svipuðu í Bakaríinu okkar við Hringbraut fyrir nokkrum árum. Þá var frekar löng röð en kall vindur sér inn, fremst í röðina og byrjar að panta.  Viðskiptavinur fyrir aftan vogaði sér að segja að það væri röð og hún væri ekki komin að honum.  Sá freki svaraði með skæting og fékk afgreiðslu frá unglingunum sem voru að afgreiða.

Það sem er skrýtið við þetta er að samfélagið á Íslandi er gegnumsýrt af þessum hugsunarhætti hugleysisins.  Allir eru að kóa eins sagt er í alkafræðunum.  það vill enginn rugga bátnum og það vilja allir forðast átök.

Hérna kemur að kjarna málsins og takið þið nú vel eftir.

Þetta eru kjöraðstæður fyrir frekjudollur og siðleysingja.  Svoleiðis fólk veður bara áfram í frekjunni sinni því það er ekki nokkur sem stoppar þau.  -Enginn.  Ekki ein einasta manneskja stoppar þessar frekjudollur.  Ísland er gósenland siðleysingjanna.

Ágætis dæmi um þetta er blogg sem ég birti í gær.  Þar sagði ég frá smá ævintýraferð á útrásarvíkingaslóðir og tók ljósmyndir af 300 miljóna króna húsinu hans Bjarna Ármannsonar.  Mér fannst ekkert að þessu í raun og veru.  Ég var jú bara að taka mynd af húsi.  Húsi sem tengist efnahagshruninu á Íslandi nokkuð sterkum böndum.  Ég tók m.a mynd af póstkassanum fyrir utan húsið því að nöfn fjölskyldumeðlimanna voru þar skrifuð og þar með taldi ég ljóst að Bjarni Ármannson byggi í húsinu, en leigði það ekki út eins og talið var.  Ég tók út nöfn krakkana á póstkassanum einhverra hluta vegna en lét standa eftir nöfnin á hjónunum Bjarna og Helgu.

Ekki stóð á viðbrögðunum.  Fullt af athugasemdum og sumar voru akkúrat á pari við frekjudollu-dekrið sem ég upplifið í Hagkaup þann 24 desember.  Ég var sagður hið mesta fól og „vega að friðhelgi einkalífsins“.  Einn sagði það sorglegt og „pathegic“ að fara í svona leiðangur.   “Eltihrellir” sagði einn og svo framvegis og svo framvegis.

Enginn þessara tekur upp hanskann fyrir eigin börn.  Enginn tekur upp hanskann fyrir sjálfan sig.  Enginn sér neitt athugavert við það að ljósmyndir birtast í blöðunum af húsum á nauðungaruppboði vegna m.a tryllingsins sem Bjarni og vinir hans kokkuðu upp, en bilast úr hneykslan þegar ég tek mynd af húsi höfuðpaursins í öllu ruglinu!

Þeir sem sjá ekki samhengið milli Bjarna Ármassonar, eigna hans og íverustaða, og efnahagshrunsins á Íslandi, eru óvitar.

Þegar tiltölulega fámennur hópur fólks, eyðileggur gjaldmiðil heillrar þjóðar og sökkvir efnahagskerfinu aftur um 10 – 15 ár, þá byrja Íslendingar að tala um friðhelgi einkalífsins hjá bófunum.  Þetta er algerlega stórkostlega bilað.
Ég er alveg handviss um það, að ef það birtist mynd af húsi sænsks fjárglæframanns í einhverju bloggi í Svíþjóð, myndi umræðan ekki snúast um friðhelgi þessa fjárglæframanns.
þetta þurfum við Íslendingar að laga.  Næst þegar einhver treður sér fram fyrir okkur í Hagkaup eða bakaríinu.  -Hættum að hneykslast.
-Verum reið.

Site Footer