POMPEI SPILLINGARINNAR

-Árið 79 gaus eldfjallið Vesúvíus með þeim afleiðingum að þorpin Pompeii og Herculaneum hurfu í eld og eimyrju.  Það var ekki fyrr en árið 1749 að þorpið „fannst“ aftur.  Síðan þá hafa vísindamenn leitt i ljós ómetanlegar upplýsingar um daglegt líf á Ítalíu undir ægivaldi Rómar.  Pompeii er alger fjársjóður fyrir fornleifafræðinga og ennþá eru að koma í ljós uppgötvanir sem breyta sögunni pínulítið í hvert skipti.

-o-o-

-Árið 1977 fundu verkamenn í Síberíu frosin mammúta kálf sem hafði verið dauður í rúm 40.000 ár.  Skokkurinn var ótrúlega heillegur og það var auðvelt fyrir vísindamenn að sjá alla líkamsbyggingu þessa útdauða dýrs, einkenni þess og útlit.  Óhætt að segja að þetta var einhver magnaðasti fundur í fræðum þeim sem snúa að út dauðum dýrum. 

-o-o-

-Árið 2011 uppgötvaðist fullkomið dæmi um hvernig spilling virkar á Íslandi.  Stjórnmálamaður sem var allt í senn stjórnarmaður í byggðastofnunar og stjórnarformaður í „Ökugerði“ (sem er æfingabraut fyrir ökunema) lofaði að veita sjálfum sér 200 miljón króna lán frá Byggðastofnun til Ökuerðis.  Þessi flétta var stöðvuð mjög snögglega og eftir standa ummerki um hugsunarhátt þeirra sem starfa á gráa svæðinu sem á milli stjórmála og viðskipta.

-o-o-

Ég ætla að staldra við Ökugerðið og leiða að því líkum að þessi misheppnaða flétta sem til er nánast ósködduð, er síður en svo ómerkilegri en 40.000 ára loðfíll eða rústir frá  tímum Rómverja í Pompei

Þetta litla dæmi frá Íslandi er vissulega ískyggilegt, en rýni maður í það, er hægt að lýsa upp, með einstakri nákvæmni, alla þætti þessarar spillingartilraunar.  Þetta litla dæmi er í raun fjársjóður fyrir þá sem rannsaka spillingu.

það er nefnilega ekkert svo oft að spilling sé stöðvuð „in its tracks“ eins og amríska manneskjan myndi segja.  Oftast ganga flétturnar upp og gagnrýnis gusunum sem eftir koma, er venjulega mætt með frösum á borð við „á viðkomandi að þjást fyrir ætternið?“ eða „Enginn lög voru brotin í þessu tilfelli“.  Stundum er gagnrýnendum spillingar brigslað um öfundsýki.   Oftast er þó bara þagað.  Það dugar í 95% tilfella og er sú leið sem almannatenglar vísa á.

En aftur að hinni stórmerkilegu spillingartilraun.

Sé tekið inn í myndina að stjórnmálamaðurinn sem er í aðalhlutverki í þessu máli, var samgöngumálaráðherra nokkrum árum áður sótti það fast að svona ökugerði yrði að veruleika verður málið ískyggilegra

Þetta er grein úr Mogganum 15 .júlí 2005. Hafi einhverjum dottið í hug að ráðherrann sjálfur ætti eftir að vera lykilmaður í fyrirtækinu sem atti að reisa og reka téð ökugerðið, hefði sá verið álitin sturlaður.

Árið 2007 var það bundið í lög að allir ökunemar yrðu að kaupa sér tíma í „ökugerði“ vildu þeir ná ökuprófi.  Kostnaður á hvern nemanda átti að vera 35.000 krónur.  Margföldum það svo með heilum árgangi Íslendinga og dæmið lítur bara prýðilega út.  Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem fæddir eru 1995 og er á bílprófsaldri í dag séu 3943.  Ef við reiknum með að 90% af þeim taka bílpróf myndi það þýða árlegar rekstartekjur upp á kr 124.215.000.- (3549 x kr 35.000.- )

Höfum þetta í huga þegar við skoðum reglugerðina.

Endilega „skrollið“ niður og sjáið hver skrifar undir þetta plagg.  Hérna er linkurinn úr stjórnartíðindum
—-

Jú einmitt:  Þáverandi samgöngumálaráðherra, stjórnarformaður ökugerðis og þar til nýlega, stjórnarmaður Byggðastofnunar.

Bætum svo við þessa jöfnu að fjármögnunin í dæminu er fengin frá almannafé, en ráðherrann fyrrverandi var stjórnarmaður Byggðastofnunar og gaf hæsta mögulega lánsloforð vegna framkvæmda við ökugerði þar sem hann var stjórnarformaður!

Þess vegna er þessi misheppnaða flétta  jafn merkileg og fundur 40.000 ára loðfíls í Síberíu.  Öll skúmaskot þessarar fléttu eru til, allar tengingar og auðvelt að lýsa inn í þetta myrkraherbergi íslenskar spillingarsögu.

Staðreyndin er nefnilega sú að þetta mál var alveg tilbúið og það þurfti bara að slá endahnútinn á, þegar það var stoppað af Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.  Fléttan er því frosin á startlínunni. Fullbúin og einstök fyrir marga hluta sakir eins og ég hef sagt áður.

Eitt að því sem mér finnst heillandi, er að fjármagn á gráasvæðinu milli viðskiptalífsins og stjórnmála virðist alltaf leita í vasa skattborgaranna.   Í þessu dæmi með Ökugerðið, áttu ökunemar framtíðarinnar að standa undir fínum hagnaði, ár eftir ár.  Enda voru þau skyldug með lögum að eiga viðskipti við Ökugerði.  Þökk sé stjórnarformanni Ökugerðis og fyrrverandi samgöngumálaráðherra.  -Sem var sami maðurinn.

Ef við hugsum nokkur ár til baka til annars fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóra, Finns Ingólfssonar, þá setti hann peningana sína í…..
—-

Jú í bílaskoðunarbransann sem er ökumenn eru skyldaðir að nota. Frumherji er líka með skoðunarsamning  við Orkuveitu Reykjavíkur (díll við Alfreð Þorsteinsson) þar sem fyrirtækið hans leigir mæla til Orkuveitunnar.    Ef þú ert Reykvíkingur ágæti lesandi þá er rafmagnsmælirinn í húsinu þínu, eign Finns Ingólfssonar sem fær borgað mánaðarlega fyrir að hafa hann þarna.

Peningarnir leita alltaf í opinbera vasa.  Þeir leita þangað þar sem einokun ríkir, eða þar sem fákeppni ríkir. Markmiðið er alltaf að koma upp einskonar áskriftarkerfi að skattpeningum þjóðarinnar

Það eru einmitt svona pælingar sem vakna þegar Ökugerðis-málið er skoðað og sú dýrmæta innsýn sem það gefur inn í hugarheim sem flest okkar þekkja ekki. Ég er ekki í vafa um það að Ökugerðis-málið muni verða rannsakað í þaula, bæði af starfandi fræðimönnum sem og þeim sem nema viðskiptafræði, stjórnsýslufræði eða félagsfræði í framtíðinni.

-Ökugerðis-málið er einstakt í sinni röð og ég er svo hrifnæmur og gamaldags að ég held að það  verði einskonar rósettusteinn fyrir fleiri spillingarmál og muni auðvelda skilning almennings og yfirvalda á eðli pólitiskrar spillingar og þeim hugsunarhætti sem stýrir henni..

Site Footer