PERSÓNUR OG LEIKENDUR

þetta blogg mitt er og hefur alltaf verið blogg, sem á ensku útleggst, web-log = blogg.  Einskonar
dagbók á netinu.  Vissulega geri ég mér grein fyrir því að þessar hugleiðingar mínar eru opnar öllum og það setur klárlega skorður við það sem ég skrifa.Þegar ég byrjaði að blogga, þá hafði ég þá reglu að kalla fólk ekki ónefnum og reyndi mitt ýtrasta til þess að sneyða hjá því með allskonar stílbrögðum.  Þetta er aðferð sem er svolítið óheiðarleg.  Hver er eiginlega munurinn á því að kalla einhvern „vitleysing“ eða segja hann „ekki skarpasta tólið í skúrnum“.

Æ ég veit það ekki.  Sennilega er best að fjalla ekkert um persónur, heldur „vandamálin“ í heild sinni.  Gallin við þá aðferð er sú að maður breytist í Þorstein Pálsson og stíllinn verður jafn þurr og morknasta múmían í Þjóðminjasafninu í Kaíró.Það gengur ekki.Það er nefnilega svo að samfélagsmál eru persónuleg.  Þau bæði snúa að okkur sjálfum og snúast líka um persónur. Sjáið þið bara nýjustu mannaráðningarskandalinn hjá VG ráðherranum Jóni Bjarnasyni.  Auðvitað snýst þetta mál um persónur. Ekki bara fúsk og viðhald á langvarandi ósið íslenskrar stjórnsýslu.  Hvernig á að vera hægt að fjalla um þetta mál án þess að blanda persónunni Jóni Bjarnasyni inn í umræðuna?  Jú eða Bjarna Harðarsyni?  Hvernig er hægt að fjalla um þetta mál án þess að fjalla um VG og fyrir hvað það ágæta fólk stendur?

Samfélagsmál eru persónuleg og snúast um persónur.

Annað dæmi:  Núna eru framboð í Stjórnlagaþing að raðast inn.  Allskonar fólk býður sig fram eins og gengur.  Hvernig á að fjalla um frambjóðendur án þess að persónur þeirra séu skoðaðar, viðmið og gildi?  Auðvitað er þetta persónulegt!  Mig rak eiginlega í rogastans þegar ég sá að Inga Lind Karlsdóttir ætlar að bjóða sig fram í Stjórnlagaþing.  Ég hafði nefnilega alltaf ímyndað mér að stjórnlagaþing ætti að vera einskonar þverskurður að þjóðinni, ekki hobbý hjá hinum ríku og fallegu.  Ég hef voða lítið að segja af þessari konu nema að ég veit að hún er að byggja sér 1000 fermetra einbýlishús í Garðabænum.  Keypti sér hús og lét rífa það við undirritun og hófs svo við að grafa grunn fyrir höllina.

Ég á ekkert sameiginlegt með þessari Ingu Lind.  Ekki bofs.  Ekki einu sinni tungumálið.  Ég skil ekki hvernig svona fólk hugsar.

Hinsvegar hefur Inga Lind ekkert verið kosin á Stjórnlagaþing.  Hún er í framboði.  Ég ætla ekki að kjósa hana.  Ég ætla að kjósa fólk sem er eins og ég.  Fólk sem skilur mig og hefur baslað, bölvað, borgað, elskað og grátið.

Ég held samt sem áður að töluvert stór hluti Íslendinga treysta hinum ríku og fallegu til að móta stefnuna og marka kúrsinn.  Það gleymist fljótt að þetta sama fólk fór með landið til fjandans.  Glans-þingmenn, glans-viðskiptamenn og glans-líf.  Laust við raunveruleikann en þeim mun nærri hinu skáldaða.  Bókfell útrásarinnar var ekki skinn eða pappír.  Bókfellið var Exel-skjal með hreyfimyndum og allskonar línuritum.  Allt „presenterað“ af fallegu ungu fólki í ítölskum fötum.

Nú er ég ekki að segja að fallegir frambjóðendur eigi að gjalda þess að vera fallegir, heldur er ég kannski að segja að venjulegt fólk eigi heldur ekki að gjalda þess að vera venjulegt.

Þetta með fegurðina er ekkert ný pæling. Það er langt síðan amerískir félagsfræðingar komust að því að ef að Abraham Lincon hefði farið í stjórnmál í dag, ætti hann ekki sjens í helvíti.  Hann var of ljótur.  Risa stór, alltof mjór, toginleitur, beinaber, sambrýndur og andlitsljótur.  Þessi risi ameríska stjórnmála.

Nú veit ég ekkert hvert þessi bloggfærsla er að taka mig.  Kannski er ég að brýna fyrir fólki að kjósa með heilanum, ekki augunum.

-Það er sennilega farsælast.

Site Footer