kdkdkdkdkdkkdkdkdkdkd

ÖRLÍTIÐ UM HEIMSKU

Ég heyrði tvo menn tala saman í heitapottinum á dögunum.  Það var mjög merkilegt.  Ég hlustaði með ákafa.  Þetta er reyndar kosturinn við heitu pottana.  Maður getur ýmist blaðrað eða hlustað.

Ég hlustaði.

Þeir voru að tala um Donald Trump eins og allir.  Þetta voru “venjulegir” menn.  Meðalstórir. Meðalþéttir og meðal jafningja þarna í grunnapottinum.  Þeir voru að tala um Trump og sögðu hann sannarlega vera ruglaðan og hættulegan og svona og hinsegin en voru samt alveg vissir um að Trump hefði nú ýmislegt til síns máls og hefði aðgang að leyniupplýsingum og þessháttar.  Voru svo alveg sammála um að þeir hefðu kosið Trump -hefðu þeir þess kost- því frú Clinton væri miklu verri en tuttugu Trumpar sem staflað væri upp réttsælis.  Fjölmiðlar væru hluti af gyðinga-samsæri og eitthvað.

Þetta blaður kom mér ekki á óvart.  Það hefði átt að gera það, en ég þekki orðið gargið í bjarginu og veit nokkurn vegin við hverju má búast.  Það er fullt af fólki sem talar svona.  Mótmælir staðreyndum.  Rís upp gegn sannindum og blæs út moðreyk við hvert einasta, örsmáa og ómerkilegasta tækifæri.

Nú er ágætt að halda einu til haga.

Vitlausar staðhæfingar og hæpnar fullyrðingar eru hluti af umhverfinu okkar.  Vitleysingar hafa alltaf verið til og verða alltaf til.  Alveg eins og lélegir dansarar eða þau sem kunna að ríma.  Ég fæ samt einhvernvegin á tilfinninguna að vitleysingarnir séu fleiri í dag og þau séu af einhverjum orsökum vissari í sinni sök.

Ris heimskunnar er staðreynd.

Og núna er sjálfur forseti Bandaríkjanna einn af þessum sem mótmælir staðreyndum, skáldar upp atburði, rífur niður og veður fram í hroka þess sem allt þykist vita.  Það veit svo sem enginn hvar þetta endar.

Ég er forvitinn um hvernig þetta gat gerst. Hvað fær venjulega menn til að tala eins og fábjánar? Fullyrða eitthvað bull og alhæfa um flókin mál?   Það er alveg ljóst að eitthvað hrun hefur átt sér stað í því hvernig við metum staðreyndir.  Þetta gerist á saman tíma og menntun fólks er meiri og betri með hverju árinu.  Fleiri spurningar vakna en hægt er að svara með góðu móti.

Lýðskrumarar allra tíma hafa notað notað svona orðræðu sér til framdráttar og barið sér á brjóst fyrir að vera sú/sá eini/eina   sem hugsar um “litla manninn” og að NÚNA sé loksins komin tími til að rétta af hið ranga.

Kannski er ástæðan fyrir risi heimskunnar í heiminum sú að fólk kann ekki við svörin sem fást við notkun hefðbundina fróðleikskerfa?  Kannski er ris heimskunnar því um að kenna að ungt fólk hefur verið fóðrað með fábjánalegum “fróðleik” um geimverur, píramíta, og yfirnáttúru-þvælu í alltof langan tíma.

Ef við skoðum söguna og reynum að læra af henni þá mætti segja mér að þessi heimskubylgja endi í braki og bestum.  Þannig endar þetta alltaf.  Svo róast hinir fávísu í nokkra áratugi og rísa svo upp aftur.

 

 

Leave a reply:

Your email address will not be published.

Site Footer