Orkuveita Reykjavíkur í borðtennis.

Við lestur ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur er ljóst að ekki er um eiginlega skýrslu að ræða, heldur minningagrein. Fyrirtækið er dautt. Skuldir þess eru ofsalegar og dæmið gengur ekki upp, hvernig sem maður reynir.

Ég las í gegnum þessa skýrslu með kennaranum mínum í sem er prófessor í við Handelshögskolan í Gautaborg og hann þurfti ekki langan tíma til að sjá að fyrirtækið er ónýtt. Á þetta benti viðmælandi Silfur Egils einnig í gær. Þetta hefur verið almannarómur um langa hríð og ágætt að undirstrika það. Þessi stoltasta eign Reykvíkinga er ónýt. Ekki nóg með það. Reykvíkingar sitja uppi með skuldahala sem á engan sinn líka. Þessi staðreynd er þó ekki efni þessa bloggs.

-Ónei

Ég ætla að fjalla um þá sem ábyrgðina bera á þessu rosa-fúski. En því miður er það þannig að við engan er að sakast því enginn ber ábyrgð á þessu. Sá sem er ábyrgur fyrir að ónýta þessu stoltustu eign Reykvíkinga er ekki til.

-Ég sver það!

Manneskjurnar sem bera ábyrðina á hruni þessa frábæra fyrirtækis, eru beinlínis ekki til! Enginn ber ábyrgð. Þeir sem eru líklegastir til þess að bera ábyrðina skjóta henni frá sér eins og fimustu borðtennisspilarar.

Hanna Birna borgarstjóri sendir óvinnandi snúningsbolta með gríðarföstu skoti á Hjörleif Kvaran sem hleypur á snilldarhátt bakvið auglýsingaspjöldin og nær, þrátt fyrir að standa ofan á einum áhorfanda, að dúndra boltanum til baka með þvílíkum snilldar tilþrifum. Til varnar er Óskar Bergsson sem tekur boltann á bringuna og þrykkir síðan með, að því er virðist, óvinnandi skoti að Sigrúnu Elsu Smáradóttur. Hún fær í rauninni boltann í hægri mjöðm en nær á gersamlega óskiljanlegan hátt að henda sér í gólfið á eftir boltanum og nær að dúnka boltann með fjaðurmögnuðu skoti rétt yfir netið. Þetta skot kemur Guðlaugi G. Sverrissyni, formanni stjórnar OR og framsóknarmanni í opna skjöldu. Nú er ljóst að stig lendir og ábyrðgarpunktur falli á Framsókn. Guðlaugur reynir því skot sem af mörgum er talið óhugsandi og eina dæmið um slíkt skot er frá árinu 1971 í sýslukeppni í Huan-héraði í Kína. Guðlaugur er í vonlausri stöðu og í stað þess að fá á sig ábyrgðarstig, reynir hann „Huan-lótusinn“. Guðlaugur tekur spaðann og þrykkir honum með óskaplegum snúningi í átt að netinu. Spaðinn þyrlast á svo miklum hraða að ekki festir á auga. Gulrautt ský sem samanstendur af rauðu gúmmíinu og tréskaftinu þeysist með hvini og hið ótrúlega gerist. Skeftið hittir boltann með óskaplegum hvelli og boltinn kýttast upp í stúku þar sem fyrir er Dagur B. Eggerstson, sem er eiginlega ekki keppandi en fylgist með eins og hinir. Boltinn lendir í fögrum haddi Dags. Og festist! Þegar Degi verður ljóst að boltinn er fastur í hárinu. Hleypur hann í átt að keppendum og hrópar: „Þennan kross ætla ég ekki að bera, ég var bara borgarstjóri í 100 daga!“. Þegar hann er í þann mund að rífa í axlapúðana á Hönnu Birnu, losnar boltinn úr krullunum. Boltinn skoppar einu sinni og Hanna, frekar en að klaga við stigavörð, ákveður að skjóta boltanum yfir netið. -Leikurinn heldur áfram.

Svona gengur þetta endalaust.

Enginn ber ábyrgð. Ekkert stig er skorað. Boltinn lendir aldrei hjá öðru hvoru liðinu. Orkuveita Reykjavíkur, stoltið okkar er farið á hausinn og engum er um að kenna. Ekki nokkrum manni.

-Engum.

6 comments On Orkuveita Reykjavíkur í borðtennis.

 • Já já um að gera að tala allt niður

 • Tala allt niður !!!

  Sveiattan Teitur.
  Það mætti halda að þú ynnir hjá Den Danske Bank;-)

 • Flott grein og nokkuð til í þessu.Svarið hér á Íslandi verður.Útlenskur prófessor hefur ekkert vit á þessum hlutum.við Íslendingar erum miklu gáfaðari td. með áralanga reynslu í að afgreiða í Vínbúðinni

 • Það er einmitt vegna þessa vantrausts til útlendinga að mér þykja tillögur þessa Breta sem situr í bankaráði Seðlabankas svo áhugaverðar.

  Viðbrögðin við athugasemd hans að við Íslendingar kynnum mögulega að sleppa við 182 miljarða vaxtagreiðslur voru bara blásnar af borðinu eins og ekkert sé!

  Væri ekki í þjóðarhag að tékka amk á þessu.

 • Orkuveitan er fórnarlamb hrunsins. Eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi sem er rekið skynsamlega með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem það þjónar í fyrirrúmi.

  Auðvitað má alltaf finna eitthvað sem betur má fara en við erum að tala um smáræði.

  Það var ekki OR sem tók ákvörðun að reisa efnahagsstjórn landsins á ónýtum gjaldmiðli.

  Og þess vegna er boltinn hjá Haarde, Ásgrímsson og Oddsson og fávitalýðnum sem kaus þá félaga.

 • Þráinn segir:

  Orkuveitan er fórnarlamb hrunsins. Eitt af fáum fyrirtækjum á Íslandi sem er rekið skynsamlega með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem það þjónar í fyrirrúmi.

  NEI.

  Þeir skitu á sig big-time. Óhæft er að kenna Haarde og Davíð um þetta tiltekna dæmi. Þeir tóku alltof mikla áhættu. Það er svoooo einfalt.

Comments are closed.

Site Footer