OG JAFNFRAMT

Ég hef gaman að íslensku og er svo lánsamur að vinna við fagið.  Ég er svo mikið nörd að þegar ég les þýddar bækur, er ég alltaf með hugann við þýðinguna frekar en innihald sögunnar.  Í því samhengi vil ég vekja athygli á þýðingu Guðbergs Bergssonar á 100 ára einsemd, sem er svo snilldarleg að hún jafnast á við það besta sem skrifað hefur verið á íslensku.

Ég hef yndi af því að velta orðum fyrir mér, sifjum þeirra og merkingu.  Það er endalaus brunnur heilabrota sem oft og tíðum geta veitt nýja sýn á veruleikann.

Samt er það svo að fallegasta íslenskan sem ég heyri og sé, er ekkert endilega sú hátimbraðasta eða með flottustu líkingunum.  Fallegasta íslenskan er sú sem flæðir eins og vatn, auðveldlega, hljótt og líðandi.  Stuttar setningar með skýrri hugsun.

Í Svíþjóð er mikið um orðabrandara og orðaleiki.  Alveg eins og í íslensku.  Þegar ég var unglingur, ég mikið upp í alls konar orðastælum, og skemmtilegheitum.  Við félaganir bjuggum til orð á hverjum degi og hlógum eins og brjálæðingar af sumu því sem framkallaðist þarna hjá okkur.  Flest af þessu er ekkert hægt að hafa eftir þótt sumt lifi okkar í milli.

Ég veit að á Dalvík þróaðist ákveðið tungumál í áþekkri kreðslu og minni, sem laut alveg sérstökum reglum og er ferlega skemmtilegt að hlusta á.  Það er þjóðþrifamál að rita niður þessar reglur dalvískunnar og setja á netið með hljóðdæmum.

Svo er alltaf gaman að rugla sínum eigin talanda með fyrirframákveðnum hætti.  Hafið þið t.d prufað að hætt að segja „já“ i smá tíma og segja í staðinn „það var og“ með djúpri
áherslu.  -það er ferlega fyndið.  Um daginn prufaði ég, konu minni til skapraunar, að segja á eftir öllum „og“-um, orðið, „jafnframt“.  Það heppnaðist stórkostlega

Stína kom í heimsókn og jafnframt dóttir hennar Þórgunnur.  Kötturinn er kaldur og jafnframt svangur.

Prufið þetta.  Afraksturinn er óvæntur

-o-o-o-o-

ps.  Já ég sletti.  Mér finnst það flott.

Site Footer