Óþol

Þegar ég var krakki og unglingur var ég vitlaus í að sjá stríð og ofbeldi í sjónvarpi eða í bíó. Ég reyndi að svindla mér inn á allar myndir sem voru bannaðar börnum. Ég passaði vel upp á að sjá allar myndir eða sjónvarpsþætti sem voru bannaðir börnum. Svo þegar vídeóið kom setti ég mér það markmið að sjá allar myndirnar sem voru bannaðar og gerðar upptækar af lögregluyfirvöldum (bannlistinn svokallaði). Splatterar voru í sérstöku uppáhaldi. Nightmare on Elm Street, Shining, Braindead, Evil Dead, Zombie Flesh Eater og hvað þessar myndir allar hétu.

Samkvæmt fróðustu sálfræðingum átti ég (og allir í mínum sporum) að verða fjöldamorðingar eða þaðan af verra. Nú var ég ekki einn í þessu. Ég held að allir strákar og margar stelpur í Hagaskóla hafi deilt þessari áráttu með mér.

Þessi áhugi einhvernvegin dó út smám saman. Ég hætti bara að hafa gaman að þessu. Sennilega vegna þess að ég horfði yfir mig af splatterum og ofbeldismyndum. Eins furðulega eins og það hljómar þá á ég afar erfitt með að horfa á ofbeldi í sjónvarpi eða í bíó í dag. Ekki það að ofbeldi hafi breyst eitthvað svakalega. Ég hef bara breyst.

Sjónvarpsþættir á borði við CSI og hvað þetta nú heitir alltsaman eiga ekki upp á pallborðið hjá mér. Ég meika ekki að horfa á þátt þar sem fjöldamorðingi er sýndur vera að skera 10 ára strák í búta. Kvikmyndir á borð við Saw vekja hjá mér raunverulega vanlíðan. Ég get ekki hætt að hugsa um hvað þetta er sjúkt.

Kannski er þett vegna þess að ég á orðið 3 börn og fórnarlömbin (eða morðingjarnir) í þessum þáttum eru oft börn. Hver veit?

Ég skipti yfir á Discovery þegar pyntingarnar hefjast.

Site Footer